12. febrúar 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs

Landssamtökin Geðhjálp taka undir mikilvægi þess að ráðist verði í rannsókn orsökum sjálfsvíga. Samtökin vilja hins vegar ganga mun lengra og að ráðist verði skipulagningu umfangsmikils forvarnarstarfs sem miði að bættu geðheilbrigði þjóðarinnar frá vöggu til grafar. Samtökin telja að ráðast þurfi í allsherjar uppstokkun því hvernig litið er á geðheilbrigðismál.

Í stað þess að horfa nær eingöngu á þær afleiðingarnar, sem geðrænn vandi getur haft í för með sér og meðferð sé best við þeim vanda, þarf að horfa til orsakaþátta. Það verður að sjálfsögðu aldrei hægt að koma í veg fyrir allan vanda með því að vinna með orsakaþætti en það má draga verulega úr vandanum og bæta þannig líf fjölmarga.

Geðheilsa er hluti af lífi hverrar manneskju frá meðgöngu og út lífið. Það hefur verið sýnt fram á mikilvægi tengsla og fyrstu 1000 daganna (meðganga og fyrstu tvö ár ævinnar) í tengslum við góða geðheilsu út lífið. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur lítið verið gert til þess að styðja við verðandi foreldra og síðar að styðja við foreldra og börn fyrstu æviárin. Þegar í leikskóla kemur og seinna meir í grunnskóla er geðrækt ekki hluti af námskrá eða daglegri vinnu í skólunum.

Samfélagsgerðin ýtir því miður undir geðræna erfiðleika og við höldum áfram að setja plástra á erfiðleikana í stað þess að ráðast í raunverulegar og nauðsynlegar breytingar. Það verður einnig að hafa í huga að afleiðingar Covid faraldursins og þeirra aðgerða sem gripið var til í tengslum við smitvarnir og núna vegna atburðanna á Reykjanesi eru enn ekki komnar fram nema að litlu leyti. Samtökin lögðu fram árið 2021 níu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. Nálgast má tillögurnar hér: www.39.is.

Gögn til áréttingar mikilvægi þess að brugðist verði við

Meðfylgjandi gögn eru fengin úr skýrslum Rannsókna & greininga, gagnagrunni embættis landlæknis og gagnagrunni Tryggingastofnunnar. Þessi gögn eru hluti af mælaborði geðheilsu og endurspegla samfélagsgerðina og þá nálgun sem notast er við. Þau sýna stöðuna eins og hún er í raunveruleikanum og staðfestir að aðgerðir okkar sl. áratugi hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Þau tala sínu máli og eru sett fram til áréttingar á mikilvægi þess að brugðist verði við.

Fjármagna aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023 til 2027

Geðhjálp minnir á að geðheilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á síðasta ári og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023 til 2027 var samþykkt í kjölfarið. Þessi aðgerðaráætlun er hins vegar ófjármögnuð sem verður að teljast vonbrigði en þarf kannski ekki að koma á óvart þar sem aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum 2016 til 2020 var sömuleiðis ófjármögnuð. Landssamtökin Geðhjálp skora á þingheim að bregðast við með því að samþykkja fjárheimildir enda um gríðarlega mikilvægt mál að ræða eins og meðfylgjandi gögn gefa til kynna.

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram