Undanfarin misseri og lengra aftur höfum fengið fréttir af málum sem tengjast þvingandi aðgerðum gagnvart notendum geðsviðs Landspítalans. Lyfjaþvinganir, innilokun á herbergi, útivistarbann, símabann, skömmtun á mat og kaffi og jafnvel líkamlegt og andlegt ofbeldi. Hluti þessara aðgerða er tilkominn vegna mönnunarvanda og óhentugs húsnæðis en stærstur hluti er vegna kerfisvanda og gamaldags hugmyndafræði sem byggir um of á öryggismenningu. Ferlar meðferðar sem boðið er upp á taka ekki tillit til þarfa notenda heldur virðast byggja á þörfum starfsmanna.
Landssamtökin Geðhjálp hafa um árabil barist fyrir því að draga úr nauðung og þvingun í geðheilbrigðiskerfinu. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingun óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT-eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunaverkefni til þriggja ára.
Þegar við segjum „Þvingunarlaust Ísland“ þá kemur gjarnan spurningin „en hvað á að gera við þann sem ætlar að enda líf sitt hér og nú? Eigum við þá bara að gera ekki neitt og leyfa honum að deyja?“ Með því er hugmyndin slegin út af borðinu. Það kann að vera að fólk telji það útópíu að hér verði einn daginn engum þvingunum beitt en fyrir okkur í Geðhjálp er þetta sjálfsögð og eðlileg stefna sem við sem samfélag ættum að taka hér og nú. Byrjum því að teikna upp hvað þurfi að breytast í samfélaginu og við meðferð þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir. Með því að breyta og gera hlutina öðruvísi þá hefjum við það ferðalag sem að endingu, og það þarf ekki að taka svo langan tíma, kemur okkur nær markinu sem er þvingunarlaust Ísland. Byrjum til dæmis á þessu:
Hugmyndafræði og innihald meðferðar þarfnast endurskoðunar og að færast nær 21. öldinni. Hún þarf ævinlega að grundvallast á mannréttindum og rétti hvers og eins til virðingar og sjálfræðis. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), fyrir fram gerða samninga um meðferð skjólhúss og fleira. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.
Heilsugæslustöðvar og samfélagsgeðteymin verður að efla. Þjónusta á heimilum fólks og í nærumhverfi er það sem koma skal. Niðurgreiðsla sálfræði- og samtalsmeðferða er mikilvægur þáttur hér. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan grundvölluð á mannréttindum og manneskjulegri nálgun.
Ein besta fjárfesting hvers samfélags er að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á Menntavísindasviði til að efla kennara til að miðla þessari fræðslu. Með því að hefjast handa strax á unga aldri drögum við úr fordómum sem aftur dregur úr árekstrum í framtíðinni.
Við erum öll með geðheilsu rétt eins og við erum með hjarta. Setjum geðheilsu í forgang og réttum af kúrsinn. Umfang geðheilsutengdra verkefna innan heilbrigðiskerfisins er um 30% en fjármagnið sem rennur til þessara verkefna aðeins um 12%. Með því að fjársvelta geðheilbrigðisþjónustuna erum við að brjóta á mannréttindum fólks og draga úr möguleikum þess á því að lifa góðu og innihaldsríku lífi. Umberum hvert annað og stígum vasklega inn í framtíðina.
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar
Sveinn Rúnar Hauksson, heimilislæknir og aktívisti