17. október 2022

„Vandinn býr ekki bara innra með fólki“

Héðinn Unnsteinsson hefur verið viðloðandi Geðhjálp í 30 ár og formaður samtakanna í nærri þrjú ár. Hann segir ýmislegt hafa breyst á þessum árum, margt jákvætt en að lyfjanotkun hafi margfaldast og æ fleiri greinist með geðraskanir. Brýnustu verkefnin segir hann vera að vinna að framþróun í geðheilbrigðismálum og breytingu laga sem lúta m.a. að nauðungarvistun og þvingaðri lyfjagjöf.

Hann vill að heilbrigðisyfirvöld beini sjónum sínum í auknu mæli að rótum vandans sem hann telur að liggi að stórum hluta í samfélagsgerðinni. Það þurfi að hlúa mun betur að fólki sem býr við fátækt og erfiðar aðstæður og hefur orðið fyrir áföllum. Það bjóði hættunni heim á að greinast með geðröskun seinna. Fjölbreyttari úrræði vanti, það vilji allir og eigi allir rétt á að njóta þess að vera góðir og gildir samfélagsþegnar og ekki þurfi að steypa alla í sama mót. Málaflokkurinn sé þó meira í umræðunni nú en áður sem viti á gott.

Segja má að geðlækningar eigi sér ekki svo langa sögu þó að ýmiss konar lyndisraskanir hafi fylgt manninum frá örófi alda. Það sem greinir geðlækningar frá öðrum greinum læknisfræðinnar er að í þeim er verið að fást við mannshugann og heilann sem er flókið og um margt stórkostlegt fyrirbæri sem vísindamenn eru engan veginn fullnuma í. Mat geðlækna er ekki byggt á meinafræði, það er huglægt og því ekki hægt að senda fólk í röntgen- eða blóð- og þvagrannsóknir til að festa hönd á einhverju ákveðnu sem hrjáir fólk.

Héðinn Unnsteinsson viðtal

Fólk skilgreint út frá frávikunum

Emil Kraepelin (1856-1926) er sagður vera faðir geðlæknisfræðinnar og hann kom fyrstur með greiningar á geðsjúkdómum. „Segja má að forleikur nútímageðlækninga hefjist með tímabili frá 1920 þar sem félags- og erfðafræðilegur þáttur (sociogenetic factor) var tekinn inn í myndina. Við fórum að mæla og skilja betur mannshugann. Við reyndum alls konar meðferðir frá um 1900 en vorum farin að jaðarsetja fólk miklu fyrr. Við fórum að gefa rafstuð og sprauta fólk með insúlíni og fleira. Áhersla á líkamlega birtingarmynd hugsana og tilfinninga kom seinna og lyfin ekki í núverandi takti fyrr en 1954.“

António Egas Moniz kom fram með þá tilgátu að hjá geðsjúkum einstaklingum væri tilvist óeðlilegra taugatenginga upprunnin frá ennisblöðum. Hann gerði aðgerðir á fólki með þráhyggju og depurð með hvítfrumnaskurði þar sem ennisblað þess var upprætt. Hann lýsti fyrstu aðgerðinni 1939 og var hún sögð hafa heppnast vel. „Tæki hans og tól voru hamar og e.k. ísnál, sem var rekin 7 cm upp undir augað – þessi aðferð fékk Nóbelsverðlaunin 1949 en í dag hristum við hausinn yfir henni,“ segir Héðinn.

Héðinn segir að of mikil sjúkdómavæðing einkenni geðlækningar í dag, einkenni séu orðin að sjúkdómum, fólk sé margbreytilegt og það sé erfitt að leggja mælistiku sem segi til um geðraskanir í mörgum tilfellum, matið sé ávallt huglægt. „Við höfum líka velt fyrir okkur hvar almenn vanlíðan endar og hvar byrja frávik, því matið er svo huglægt. Fyrir um 150 árum voru greiningarnar á geðröskunum sex talsins en nú eru þær um 600, þannig að það má spyrja, hvar byrjar frávik og hvar endar það?“ Heilinn hefur ekki mikið verið rannsakaður í raun? „Það má halda því fram, það veit enginn hvernig hugsun og tilfinningar verða til, samt erum við alltaf að takast á við þessi fyrirbæri. Heilinn er flókið fyrirbæri.“

Héðinn segir DSM5-greiningarkerfið sem notað sé í geðröskunum vera vandmeðfarið og „veikt“. „Sem dæmi er þunglyndi skilgreint út frá 10 megineinkennum. Greiningin er þannig að þú ert klínískt þunglyndur ef þú hefur fimm einkenni af þessum 10 í tvær vikur eða lengur. En huglæg staða kerfisins er hverjum ljós út frá þessu því ef einn einstaklingur er greindur þunglyndur með fimm einkenni en annar með hin fimm einkennin þá telst hann líka þunglyndur. Út frá þessum forsendum hefur geðgreiningarkerfið ætíð staðið frammi fyrir þekkingarfræðilegum ómöguleika og áskorun.“ Góð geðheilsa er samkvæmt evrópskri skilgreiningu: „Einstaklingur sem býr við vellíðan og er fær um að nýta vel hæfileika sína, takast á við eðlilegt álag í lífi sínu, sýna af sér viðhlítandi afköst og árangur við vinnu og leggja sitt af mörkum til samfélagsins“. Takast á við álag, fær að nýta hæfileika sína o.fl. Þetta er mjög opið fyrir túlkun og huglægt og hvernig á að mæla þetta.“

Héðinn segir að orsakaþættir geðraskana séu margir, m.a. lífið sjálft, og flestir upplifi einhverja af þeim þáttum sem hafa áhrif á andlega heilsu eins og missi ástvinar eða atvinnumissi en að umhverfi og erfðir komi þarna líka inn. „Flokkar fötlunar eru þrír: líkamlega fatlaðir, þroskahamlaðir og svo geðfatlaðir. Fólk innan síðasttalda flokksins getur greinst með geðklofa, orðið geðfatlað, dottið af vinnumarkaði og þar fram eftir götunum en komið til baka. En í hinum tveimur geðflokkunum er staða fötlunar ekki eins breytanleg. Því er það afar mikilvægt að stuðla að aukinni virkni og ríkari samfélagslegu hlutverki fólks sem býr við geðfötlun með það að markmiði að vinna fólk „út úr“ fötluninni.“ Héðinn segir að um 95% af því opinbera fjármagni sem varið er til heilbrigðismála fjármagni meðferð og endurhæfingu. „Það er að segja afleiðingu heilsubrests. Það er tekist á við vandann eftir að hann er kominn upp,“ segir Héðinn.

„… mér finnst skorta í opinberu þjónustunni þessa hugsun; við erum hérna fyrir þig. Þú ert ástæðan fyrir því að við erum í vinnu hér.“

Þið í Geðhjálp hafið viljað breyta þessum áherslum? „Já, við höfum viljað færa fókusinn svolítið ofar, í auknu mæli á heilsueflingu, forvarnir og snemmskoðun. Þetta snýr líka að því hversu mikið vit við eigum að hafa fyrir íbúunum. Þú ert alltaf að vega og meta, frjálsan vilja annars vegar og almannaheill á hinn bóginn í opinberri þjónustu. Hversu miklum frjálsum vilja viltu fórna fyrir almannaheill, hvað eru almannheill og hver ákveður það? Það eru fulltrúar okkar á Alþingi sem ákveða það. Þetta er auðvitað stöðugt bitbein varðandi nauðungarvistanir en lögin segja að sjálfráða maður verði ekki vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi, en svo stendur – nema hann sé með geðsjúkdóm,“ segir Héðinn með áherslu. „Við hefðum viljað taka geðsjúkdóminn út og setja bara hættulegur í staðinn.“

Sjúklingum fjölgar og þeir greinast yngri

Þrátt fyrir framfarir í læknavísindum virðast þær ekki hafa skilað árangri í samræmi við væntingar þegar kemur að geðröskunum, eða svo virðist vera samkvæmt því sem Héðinn segir. Gífurlegar fjárhæðir liggja í þróun geðlyfja og aukning á notkun þeirra er mikil. Það reynist orðið erfitt að vera „normal“, einkenni sem áður töldust ekki til geðraskana hafi árið 2013 bæst við er fimmta útgáfa DSMgreiningakerfisins (DSM5) sem notað er til að meta geðraskanir, þætti eins og hvatvísi, sorg, námsörðugleika og offitu, kom út, að sögn Héðins.

Finnst þér þróunin vera næg, bæði hvað varðar þróun lyfja og annarra úrræða? „Fókusinn hefur mestur verið á lyfjainngrip síðustu áratugi, þar liggja miklir fjármunir og hagsmunir. Lyfin geta verið góð fyrir sitt leyti en mér finnst stundum vanta auðmýkt hjá kerfinu, að fagfólk segi – viðleitni okkar er að gera okkar besta en við vitum ekki nægilega mikið.“

Þá segir hann veltu geðlyfja aukast sífellt og vera gífurlega á heimsvísu. „Ársveltan í heiminum árið 2020 var um 850 milljarðar dala, eða um 120 þúsund milljarðar króna, þannig að það er skiljanlegt að mikil hagsmunatengsl séu til staðar. Sjúkdómum hefur fjölgað, sjúklingum hefur fjölgað og þeir greinast yngri. Hættan er þessi, tíðni geðraskana er að aukast, fólki með alvarlegar geðraskanir fjölgar, innlögnum einnig, en þær styttast verulega. Lyfjakostnaðurinn er að margfaldast, gefum við lyf við einkennum? Tökumst við alltaf á við einkenni en síður orsakir? Er kerfið orðið miklu dýrara? Ríkið veitir um 320 milljarða til heilbrigðismála á þessu ári. Af þeim fara rúmlega 5% af þeim til geðheilbrigðismála á meðan við áætlum umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins vera um 25%. Þannig að það vantar töluvert upp á. En hvað á að gera, hvernig færum við til af öðrum sjúkdómsliðum?“

Þú hefur komið að málaflokknum í 30 ár og verið formaður Geðhjálpar í um þrjú ár. Hvað finnst þér hafa breyst mest á þessu tíma? „Mér finnst málaflokkurinn vera svo miklu meira í umræðunni og þá ekki bara geðraskanir heldur einnig geðheilsa því segja má að við búum ætíð við sambland af hvoru tveggja, bara í mismiklum hlutföllum, enginn er alheilbrigður eða alveikur. Mér finnst í því samhengi áhugavert hvernig orðræðan hefur breyst, t.d. hjá Embætti landlæknis er farið að tala um „andlega“ heilsu, en eigum við þá að tala um andlega heilbrigðiskerfið? Mér finnst þetta vera flótti frá forskeytinu geð-,“ segir hann.

„Orðið „andleg“ er e.t.v. ekki eins gildishlaðið og forskeytið geð- en ég er ekkert endilega á því að við ættum að hætta að nota orð með forskeytinu geð-. Það sem hefur líka breyst er að fólk er miklu opnara gagnvart þessum hlutum og ræðir geðheilsu sína með miklu opnari hætti en áður. Ég man að þegar ég tjáði mig fyrst opinberlega um mína geðheilsu, 1994, þá minntist ég tveggja sem höfðu gert það áður. Gunnars Kvaran sellóleikara og Herdísar Hallvarðsdóttur tónlistarkonu.“

En finnst þér þá að fordómar gagnvart geðsjúkdómum og fólki með þá hafa breyst? „Já, já, nú bíðum við eftir nýrri rannsókn um fordóma og mismunun í samfélagi okkar sem á að birtast í nóvember en tilfinningin er sú að það hafi breyst.“

Félagslegar og efnahagslegar aðstæður skapa vandann

Geðheilbrigðismálin hafa að einhverju leyti verið hornreka, eins og maður hefur skynjað umræðuna lengi, hvernig hefur þetta komið við fólk með geðraskanir? „Hérna er stóra þversögnin, árið 1990 voru örorkubótaþegar á Íslandi 7.506, af þeim voru geðfatlaðir 2.296, eða 30%. Á sama tíma, síðastliðin 30 ár, hafa orðið framfarir, sérstaklega í lyfjameðferð og meðferð almennt, en nú eru engu að síður 24.000 bótaþegar og um 40% þeirra búa við geðfötlun.

Hvað hefur gerst? Við erum með 250% aukningu á örorkubótaþegum á þessum 30 árum á meðan þjóðinni fjölgar um 43%. Þetta er þversögnin. Við gefum meiri og meiri lyf, veitum alls kyns meðferðir en líðanin verður verri og verri. Þessi þversögn er ekki mikið rædd. Vandinn býr ekki bara innra með fólki, heldur eru félagslegar, efnahagslegar aðstæður og kerfislægar forsendur stórar áhrifastoðir. Hvernig stenst þetta miðað við alla framþróunina og bætta meðferð? Það er eitthvað bogið við þetta,“ segir Héðinn.

Héðinn segir að stoðkerfisleg vandamál og geðraskanir séu langstærstu orsakaþættirnir þegar kemur að örorku og að kafa þurfi betur ofan í þau mál, skapa störf þar sem fólk geti gert gagn og verið hluti af samfélaginu. Þá segir hann að staða ungmenna hér sé ekki nógu góð. „Maður er hræddur við þetta því að mér skilst að nú séu um 3.000 manns á aldrinum 18 til 26 ára á Íslandi sem hvorki eru í vinnu eða skóla og þá er það spurning um tíma hvenær þetta fólk leitar til geðheilbrigðiskerfisins.“

Hvers vegna virðist unga fólkið okkar búa við aukna vanlíðan? „Einn ágætur barnageðlæknir benti á þrjár meginbreytingar á síðastliðnum áratugum sem hafa haft áhrif. Í fyrsta lagi eru ekki lengur þrjár kynslóðir saman á heimilinu. Í öðru lagi hafa konur farið miklu meira út á vinnumarkað og karlar ekki stigið nægilega vel inn í heimilisverkin, en það er vonandi að breytast. Í þriðja lagi er það snjallvæðingin og tæknivæðingin, síminn, einstaklingshyggjan og áherslan er nú öll á réttindi í stað samfélagslegrar ábyrgðar. Samkvæmt rannsóknum Rannsókna og greininga á börnum á unglingastigi grunnskóla er hlutfall þeirra sem eru í 8.-10. bekk hækkað sem segir geðheilsuna hafa dalað. Í fyrra sögðu 57% þeirra geðheilsu sína vera góða eða mjög góða miðað við 81% árið 2014. Þetta eru sláandi tölur sem gefa til kynna hve líðan unga fólksins okkar þróast í öfuga átt.“

Héðinn segir að þrátt fyrir að COVID skipti þarna máli sem orsakaþáttur þá breyti það ekki þeirri staðreynd að þegar komi að brottfalli úr framhaldsskóla þá værum við langhæst samkvæmt gögnum Evrópusambandsins. „Einkenni þau er ADHD-greiningar byggjast á virðast vera að aukast. Hvort þessi aukning endurspegli raunverulegan vanda ætla ég ekki að dæma um, allir matsskalar eru huglægir og eins og ég kom inn á fyrr þá hafa viðmiðunarmörk greininga færst til. Vandinn býr ekki einungis innra með fólki, heldur spila félagslegar og efnahagslegar aðstæður mikið inn í. Maður spyr sig, hvað er það í samfélagsgerðinni, fyrir utan þessi atriði sem læknirinn nefndi, sem gerir þetta að verkum að ungmennum líður svona illa. Samanburður, samkeppni, hraði, skortur á nánd og tengingu við náttúru og jafnvel stundum foreldra. Við erum stöðugt að reyna að fylla holuna utan frá.“

Kerfið þarf að breytast og grípa inn í fyrr

Aðspurður um hvort meðferð við geðröskunum og aðgengi að þjónustu hafi breyst nægilega samhliða auknum vanda fólks, segir Héðinn: „Viðbragðskerfi okkar svipar til trektar. Fyrsta, stærsta og efsta lag trektarinnar er heilsugæslan, en þriðjungur þeirra sem leita þangað gera það vegna sinnis- eða lyndisvanda. Þjónusta í gegnum geðheilsuteymi og sérfræðilækna er innan annars stigsins og hefur aukist. Svo er þriðja stigið, geðheilbrigðisþjónusta innan geðdeilda Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Allt er skráð í sjúkraskrárkerfið Sögu ef þú kemur á sjúkrahúsin eða ert hjá geðheilsuteymi, en margir læknar á stofu eru ekki hluti af því kerfi og kerfin tala því ekki saman sem er mikilvægt nú þegar aukin áhersla er á að skapa jafnvægi milli spítalaþjónustu og samfélagsþjónustu.“

Héðinn segir að kerfið og viðhorfið þar þurfi að breytast. „Mér finnst þjónustan hafa verið lengi meira á forsendum þjónustuveitenda fremur en þjónustunotenda. Viðsnúningur þessa er að mínu viti hafinn en eins og breytingar á menningu kerfa tekur slíkt tíma. Þetta er jú samvinna að sameiginlegu markmiði en mér finnst skorta í opinberu þjónustunni þessa hugsun; við erum hérna fyrir þig. Þú ert ástæðan fyrir því að við erum í vinnu hér. Er kemur að nýrri geðdeildarbyggingu/sjúkrahúsi – þá er afstaða mín sú að við eigum að láta umfang og eðli aukinnar samfélagsþjónustu ráða umfangi nýrrar byggingar.“

„Vandinn býr ekki bara innra með fólki, heldur spila félagslegar og efnahagslegar aðstæður þarna mikið inn í.“

Alþingi Íslendinga samþykkti sl. vor geðheilbrigðisstefnu til næstu ára að sögn Héðins. „Páll Matthíasson geðlæknir leiðir nú hóp sem vinnur að aðgerðaáætlun til að innleiða stefnuna. Í þeim hópi er meðvitund um að í framtíðinni þurfi breytt hlutfall á milli sjúkrahúss- og samfélagsþjónustu þannig að enn fleiri fái þjónustu í samfélaginu.“ Héðinn segir að það skipti miklu máli að fólk sé ekki lokað af inni á spítaladeildum heldur búi í félagslegu samneyti við annað fólk.

„Við verðum að þjónusta fólk í auknu mæli úti í samfélaginu. Við erum hægt og bítandi að kveðja þessa stofnanavæðingu þar sem fólk er lokað inni og afpersónugert, það tekur tíma. Árið 2009 var gerð rannsókn á fordómum á Íslandi, sú eina sem hefur verið gerð hér. Það kom í ljós að fólk vildi síst búa í námunda við þá sem voru með geðklofa, þar á eftir að fólk vildi ekki láta einstakling með geðklofa passa börnin, ekki fá slíkan
einstakling í fjölskylduna.“ Við erum að endurtaka þessa könnun núna og munum koma með niðurstöðurnar í nóvember. Það verður áhugavert að sjá hvort eitthvað hafi breyst frá 2009 til 2022 varðandi fordóma. Birtingarmyndir í orðum og gjörðum eru mismunandi, við segjum oft ekki alveg það sem okkur finnst, heldur það sem er félagslega viðurkennt.“

Réttindi fólks með geðraskanir þarf að virða

Þrátt fyrir stóraukningu í lyfjagjöf og greiningu geðraskana segist Héðinn sjá teikn á lofti um breytingar. Hann segir þó að margt þurfi að breytast, einkum vanti fjölbreyttari úrræði og að draga þurfi úr fordómum og mismunun. „Já, hlutirnir eru að breytast með auknu samtali, bættri orðræðu og meiri meðvitund um geðheilsu meðal almennings. Þjáningin er yddari á mennskuna. Settu krabbamein inn í stað geðraskana. Það er önnur framkoma í garð fólks með geðraskanir, hvað varðar réttindi í tengslum við störf og fleira, þá eru enn fordómar og mismunun til staðar í samfélaginu. Það þarf að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk með geðraskanir, það er mikilvægt fyrir alla að hafa tilgang í lífinu og vera hluti af samfélaginu og ekki einangrast og svo þarf að endurskoða húsnæði. Þjónusta við þá sem eru með geðraskanir þarf að stóraukast á fyrsta stiginu, það er hagkvæmt að hjálpa fólki fyrr.“

„Þjónusta við þá sem eru með geðsjúkdóm þarf að stóraukast á fyrsta stiginu, það er hagkvæmt að hjálpa fólki fyrr.“

Eru lyndisraskanir eðlileg viðbrögð við aðstæðum? „Það þarf að afstjórnmálavæða vandann – fólk sefur ekki vegna afkomukvíða og fær sex tíma í atferlismeðferð. Geðraskanir eru ekki eins og aðrir sjúkdómar, sem rekja má til líkamlegra meina, þeir eru hins vegar oftast merki um tilvistarvanda í samfélagi sem reynir mikið á fólk. Kvíði gagnvart óeðlilegum aðstæðum er röskun á því sem eðlilegt er en ekki sjúkdómur. Við höfum miklar áhyggjur af því að það sé verið að sjúkdómavæða allt of mikið. Við mælum allt. Í Bandaríkjunum er talað um hve slæm áhrif það hefur á geðheilsu ungs fólks sem er stöðugt að mæla skrefin sín, svefn sinn o.s.frv. og kann svo oft að lemja sig áfram í samanburðarvæddum nútíma ef því finnst það ekki standa sig.“

Hvað með hugmyndafræði í geðlækningum, finnst þér þróunin hafa skilað góðu eða þarf að bæta verulega í? „Mér finnst vanta meiri auðmýkt fyrir því sem við erum að gera, að við viðurkennum að við séu að reyna að gera okkar besta og að það sé ekki verið að alhæfa innan kerfisins að þetta eða hitt sé rétta lausnin. Viðurkenna að við vitum ekki hvernig hugsanir og tilfinningar verða til. Þunglyndislyf hjálpa mörgum en hafa oft erfiðar aukaverkanir. Það er engin endanleg lausn en margt hefur þróast á mjög jákvæðan hátt, sem dæmi má nefna samstarf og samráð og aukna þátttöku notenda í eigin meðferð. Við viljum líka sjá þessi þrjú stig þjónustunnar vinna betur saman, og að félagsþjónustan komi þarna inn. Kerfið þarf að vera straumlínulagaðra. Okkur finnst að það megi fara frá því að fást við einkenni og afleiðingar yfir í að beina sjónum að orsökum en það er þó í auknum mæli að gerast, t.d. með áfallasögum þar sem áföll eru skoðuð og hvaða áhrif þau hafa jafnvel á kynslóðir. En við þurfum að gera betur – allt sem við getum gert til að gera þennan málaflokk hlutlægari er gott og sama er að segja um hvar fólki sé best sinnt.“

Brýnustu verkefnin

Héðinn nefnir fleiri mikilvæga þætti í sambandi við réttindi fólks með geðraskanir. Hann nefnir lögin í því sambandi og er nauðungarvistun mikilvægur þáttur ásamt þvingaðri lyfjagjöf, en nauðungarvistun hefur verið töluvert til umræðu.

„… tíðni geðsjúkdóma er að aukast, alvarlegum geðsjúkdómum fjölgar, innlögnum einnig, en þær styttast verulega. Lyfjakostnaðurinn er að margfaldast, við gefum lyf við einkennum og tökumst alltaf á við einkenni en ekki orsakir og kerfið er orðið miklu dýrara.“

Hverju er brýnast að vinna að núna, telurðu? „Það þarf að vinna áfram að framþróun í meðferð enda verður engin framþróun án breytinga. Áframhaldandi hagsmunagæsla fyrir notendur er nauðsynleg. Þá er innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra mjög mikilvæg en samkvæmt honum er hvers kyns þvingun og nauðung óheimil. Ísland hefur ekki enn lögfest samninginn en mun gera það í vetur samkvæmt því sem þingið segir, þannig að þetta mun krefja löggjafann um að endurskoða 30- 40 lagafrumvörp til að hægt sé að lögfesta þennan samning sem mun hafa áhrif á og bæta mannréttindi allra. Slík endurskoðun hefði m.a. í för með sér breytingar á lögræðislögum og þar munum við tala fyrir breytingum á 19. greininni um nauðung og þeirri 28. um þvingaða lyfjagjöf. Eins er endurskoðun laga um réttindi sjúklinga mikilvæg. Loks þarf að okkar mati að endurskoða eftirlitshlutverk Embættis landslæknis með geðheilbrigðisþjónustu. Landlæknir þarf meiri mannafla ef hann ætlar að sinna eftirlits-hlutverkinu en mér finnst að það mætti ræða og skoða hvort fela ætti einhverjum öðrum slíkt eftirlitshlutverk og þar sæi ég fyrir mér meiri þátttöku notenda. Það eru of mörg dæmi um að mál taki allt of langan tíma.“ Hann segir að þeir sem leiti réttar síns fá oft bestu þjónustu hjá Umboðsmanni Alþingis. „Það er sá aðili sem stendur mest og best með notendum kerfisins.“

Einnar lausnar þjóð

Sérðu fram á bjartari tíma? „Já, maður sér alltaf fram á bjartari tíma,“ segir Héðinn og brosir. „Við erum bjartsýn enda eru það algjör forréttindi að búa á Íslandi, heitt vatn og stutt í náttúruna, ódýrt rafmagn, við gleymum því stundum hvað það eru mikil forréttindi að búa hér, þetta er geðheilsueflandi land.“ Milkilvægasta forvörnin að mati Héðins er þó heilsusamlegt og gott uppeldi barna. Umhverfi og atlæti sem þau búa við, því lengi býr að fyrstu gerð. „Foreldrar í dag hafa lítinn tíma og vilja koma börnum á leikskóla 12 mánaða gömlum. Tengslamyndun og nánd skipta ofboðslega miklu máli og ég held að orsakir liggi þar þegar kemur að geðröskunum, þ.e. skorti á nánd og tengslamyndun. Auðvitað eru erfðaþættir þarna líka en við gleymum því gjarnan að holuna fyllum við innan frá. Við erum of mikið í því að mikið sé aldrei nóg, einstaklingshyggjan sé orðin of mikil. Okkur vantar meira fé í málaflokkinn, það segir sig sjálft. Geðraskanir ýta undir mikla vanlíðan. Ekki taka tilvistina of alvarlega og ekki bera þig saman við aðra heldur þig sjálfa/n. Sjónarhorn okkar er þröngt, við höfum takmarkaða sýn á veruleikann.“

Styrktarsjóður geðheilbrigðismála

Styrktarsjóður geðheilbrigðismála var stofnaður á síðasta ári og segist Héðinn vera afskaplega ánægður og stoltur af því verkefni. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum og eru styrkveitingar liður í því sem og að bæta geðheilbrigði og skilning hér á því. „Við seldum húsnæði okkar og stofnuðum Styrktarsjóð geðheilbrigðismála. Við fáum mikinn stuðning frá almenningi og veitum styrki til góðra verkefna en stærsti hlutinn af sjóðnum okkar er kominn frá Túngötuhúsinu. Við stefnum að því að úthluta styrkjum að upphæð 15 milljónum núna í ár. Það var þörf fyrir svona sprota og ég fann í fyrra hvað fólk var þakklátt fyrir styrkina, ég er mjög stoltur af þessu verkefni.“

Texti: Ragnheiður Linnet / Myndir: Hallur Karlsson

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram