Þjóðleikhúsið í samstarfi við Geðhjálp, Hlutverkasetur, Geðlæknafélag Íslands og heilbrigðisráðuneytið stendur fyrir samtali um geðheilbrigði á Stóra sviði Þjóðleikhússins mánudagskvöldið 20. september kl. 20, í tengslum við hina geysivinsælu leiksýningu Vertu úlfur. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Leiksýning Þjóðleikhússins Vertu úlfur hefur notið ómældra vinsælda allt frá frumsýningu í byrjun þessa árs. Sýningin hlaut alls sjö Grímuverðlaun á liðnu vori, og var meðal annars valin leiksýning ársins. Umfjöllun sýningarinnar um geðheilbrigðismál hefur haft mikil áhrif, og af því tilefni verður efnt til samtals á Stóra sviði Þjóðleikhússins í samstarfi við Geðhjálp, Hlutverkasetur, Geðlæknafélag Íslands og heilbrigðisráðuneytið mánudagskvöldið 20. september kl. 20. Yfirskrift samtalsins er „(V)ertu úlfur? - listin að sjá hið sammannlega, samtal um geðheilbrigði utan hringsins“.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn, en panta þarf miða á leikhusid.is til að tryggja sér sæti.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun ávarpa samkomuna en meðal þeirra sem taka þátt eru Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstjóri, Björn Thors leikari, Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands og yfirlæknir geðheilsusviðs á Reykjalundi, Elín Atim klæðskeri, Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar og höfundur bókarinnar Vertu úlfur.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona verður fundarstjóri. Einnig kemur fram listafólk úr leikhópnum Húmor og listasmiðju Hlutverkaseturs í umsjón Önnu Henriksdóttur.