Í skýrslu Umboðsmanns Alþingis frá 30. mars 2022, í kjölfar eftirlitsheimsóknar á bráðageðdeild Landspítalans 32-C, koma fram alvarlegar ábendingar er varða mannréttindi og mannhelgi notenda geðheilbrigðisþjónustu Landspítalans. Það segir ákveðna sögu um almannaþjónustu okkar að OPCAT eftirlit og ábendingar umboðsmanns, á þremur lokuðum deildum á Kleppi árið 2018 (skýrsla kom út haustið 2019), virðist litlu eða engu hafa skilað þegar kemur að bættum aðbúnaði og mannréttindum notenda. Margar af þeim ábendingum sem þar komu fram eru endurteknar í skýrslu umboðsmanns nú.
Á bls. 8 segir:
Af löglegri ákvörðun um frelsissviptingu leiðir ekki sjálfkrafa að önnur grundvallarréttindi, s.s. friðhelgi einkalífs, skerðist. Til grundvallar á skerðingum á friðhelgi einkalífs þarf m.a. að liggja lagaheimild og krafa um nauðsyn. Líkt og áður hefur verið rakið í skýrslu umboðsmanns vegna heimsóknar á þrjár lokaðar geðdeildir á Kleppi liggja ekki fyrir skýrar lagaheimildir samkvæmt íslenskum réttir til að beita sjúklinga á geðheilbrigðisstofnunum ýmiss konar inngripum, þvingunum og valdbeitingu.
Þetta þýðir í raun að verið er að brjóta mannréttindi notenda geðþjónustu á Íslandi á hverjum degi. Lagaheimildir skortir en samt er verið að beita ýmiss konar inngripum, þvingunum og valdbeitingu.
Á bls. 9 segir:
Ýmsum tilmælum og ábendingum er þá beint til spítalans í tengslum við önnur inngrip, s.s. takmarkanir á útivist, aðgengi að síma, sjúkrahúsfatnað og aðkomu lögreglu að flutningi sjúklinga og yfirbugun.
Stjórn Geðhjálpar dregur það í efa að hluti að meðferð við geðrænum áskorunum felist í því að banna fólki að fara út, að banna fólki að tala í síma, banna fólki að reykja o.s.frv. Stjórn Geðhjálpar ítrekar tilboð þess efnis að leggja stjórnvöldum lið í að breyta þessu sem allra fyrst.
Á bls. 9 segir:
Í skýrslunni eru þó sett fram ýmis tilmæli og ábendingar […] m.a. í tengslum við glugga, aðbúnað á útisvæði, loftræstingu, borðbúnað, virkni- og heimsóknarherbergi, og tiltekin öryggisatriði í umhverfi sjúklinga og starfsfólks.
Geðdeildir Landspítalans eru komnar til ára sinna og hefur ítrekað verið bent á nauðsyn þess að byggja nýtt húsnæði utan um nýskapandi og mannúðlegri hugmyndafræði sem tekur annars vegar mið að stóraukinni þjónustu við fólk með geðrænar áskoranir í samfélaginu og hins vegar að batahugmyndafræði hvar mannréttindi eru sett á oddinn.
Á bls. 9 segir:
Fjölþjóðlegir eftirlitsaðilar hafa lagt áherslu á mikilvægi skilvirkra kvörtunar- og kæruleiða til að fyrirbyggja vanvirðandi meðferð á geðheilbrigðisstofnunum. Í þessu sambandi er tilmælum beint til Landspítala um að endurskoða núverandi reglur og verklag á deildinni þannig að sjúklingar, og eftir atvikum aðstandendur þeirra, fáu upplýsingar um kvörtunar- og kæruleiðir innan og utan spítalans á auðskiljanlegu formi.
Eftirlit með starfsemi á geðdeildum er því miður nær ekkert. Þegar notendur vilja kæra ákvarðanir eru ferlar óljósir og litla hjálp að fá. Landlæknisembættið fer með eftirlitshlutverkið en embættið hefur takmarkaða getu til þess að sinna því svo vel sé. Kvartanir virðast einhverra hluta vegna daga þar uppi og þekkir Geðhjálp til of margra erinda sem enn hefur ekki verið svarað þrátt fyrir að hafa verið send þangað inn fyrir mörgum mánuðum og jafnvel árum.
Á bls. 10 segir:
Viðhlítandi skráning í tengslum við frelsissviptingu manna er einn grundvallarþátta í vernd gegn illri meðferð og forsenda þess að frelsissviptir getir látið reyna á réttindi sín. Í þessu sambandi er tilmælum beint til Landspítala um að úrvinnsla með starfsfólki og sjúklingum í kjölfar valdbeitingar sé skráð með viðhlítandi hætti.
Geðhjálp hefur ítrekað bent á þá alvarlegu staðreynd að tölfræði yfir nauðung og þvingun er hvergi að finna í kerfinu. Þetta er ekki boðlegt enda er ein forsenda þess að draga úr slíkum mannréttindabrotum að hafa upplýsingar um þau og tíðni þeirra. Þegar kemur að úrvinnslu áfalla með notendum, sem beittir eru nauðung og þvingun, þá er hún ekki fyrir hendi. Það getur ekki talist til eðlilegra meðferðahátta að notendur þjónustunnar þurfi að leita sér áfallameðferðar á sinn eigin kostnað eftir dvöl á geðdeild.
Á bls. 10 segir:
Í heimsókn umboðsmanns kom fram að skortur á viðeigandi úrræðum geti leitt til þess að sjúklingar dvelji lengur á bráðageðdeildinni en þörf sé á […] Í því sambandi er þeirri ábendingu beint til Landspítala og heilbrigðisráðherra að leita leiða til þess að draga úr biðlistum á langtímadeildir geðsviðs svo frelsissvipting sjúklinga sé ekki meira íþyngjandi en tilefni er til hverju sinni.
Geðheilbrigðiskerfið á Íslandi er fjársvelt hefur verið um margra ára skeið. Í tölum frá árinu 2009 var umfang geðheilbrigðismála af heilbrigðiskerfinu metið um 25-30%. Fjármagnið sem sett var í málaflokkinn var metið um 11-12%. Þetta getur ekki talist boðleg staða og verður að vinda ofan af. Að svipta fólk frelsi vegna úrræðaleysis er hvorki eðlilegt né siðlegt. Einnig verður að horfa til þess að stofnanir og deildir sem fólk er lokað inni á með þessum hætti eru úr sér gengnar og ekki boðlegar í því samfélagi sem við viljum búa í.
Geðhjálp hefur lengi bent á mikilvægi þess í okkar samfélagi að ræða skaðalögmálið sem John Stewart Smith setti fram á 19. öld sem er grunnur allrar löggjafar sem heimilar frelsissviptingu og frelsisskerðingu í líkingu við þá sem öll þjóðin gekk í gegnum á Covid-tímum. Lögmálið kveður á um að eina ástæðan, í siðuðu samfélagi, sem réttlætt getur valdbeitingu gegn einstaklingi er að slíkt komi í veg fyrir skaða annarra. Í þessu samhengi og í ljósi þess að ríkisstjórn Íslands ætlar sér að lögfesta Samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðra á kjörtímabilinu hefur stjórn Geðhjálpar velt þeirri hugmynd upp við stjórnvöld að í umræðunni um þær breytingar sem eru í farvatninu verði það rætt af fullri alvöru að ráðast í það alþjóðlega tilraunaverkefni að gera Ísland að þvingunarlausu landi í þrjú ár.
Að lokum bendum við á eftirfarandi 9 aðgerðir sem Geðhjálp og yfir 30.000 Íslendingar telja að þurfi að grípa til svo setja megi geðheilsu í forgang:
Nánar: Úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari.
Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar o.fl. stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.
Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðravernd, foreldrafræðslu og ungbarnavernd með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.
Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu að viðbættum öðrum gagnreyndum aðferðum. Samþykktin er enn óútfærð hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra framkvæmdina.
Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.
Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra.
Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni.
Nánar: Hugmyndafræði og innihald meðferða þarfnast endurskoðunar og færast nær 21. öldinni. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), skjólhús o.fl. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.
Nánar: Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.
Nánar: Undanfarna áratugi hafa geðheilbrigðismál iðulega verið rædd í ólíkum hópum á ólíkum stöðum en þessir hópar tala mismikið saman og vita jafnvel ekki hver af öðrum. Ábyrgð á samhæfingu og upplýsingamiðlun þvert á alla þessa hópa og stjórnsýslustig getur verið óljós. Geðráði er ætlað að breyta þessu með því að kalla að sama borðinu stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.
Virðingarfyllst,
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar