Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins þann 8. september sl. ræddi fjármálaráðherra um málefni fatlaðs fólks. Hann var þar að svara fyrir þá fullyrðingu sveitarfélaganna að kostnaður við flutning málefna fatlaðs fólks til sveitarfélagana hafi verið vanmetinn. Fjármálaráðherra taldi hugsanlegt að verkefnið hafi ekki verið nægjanlega vel unnið en vildi þó leita skýringa á öðrum stöðum en hjá ríkinu:
„Það verður auðvitað líka að svara spurningunni hvenær sveitarfélögin eru mögulega að gera meira en lögboðnar skyldur kveða á um og reikningur vegna slíkra hluta verður ekki sendur ríkinu.“
Hann endurtók þetta síðan í lok viðtalsins og var ef eitthvað er enn afdráttarlausari:
„Og svo verður að skoða það ofan í saumana hvort það sé verið að veita þjónustu langt umfram það sem lögin segja til um, eða kostnað sem ekki er sanngjarnt að velta aftur í fangið á ríkinu.“
Biðlistar fatlaðra bæði barna og fullorðinna eftir þjónustu eru í flestum tilfellum mjög langir. Starfsfólk sem vinnur við málaflokkinn er undantekningalítið á lágum launum og starfsmannaveltan er mikil. Þetta í bland við skort á fagmenntaðu starfsfólki sýnir hvar forgangsröðun stjórnvalda raunverulegaliggur þegar kemur að málaflokki fatlaðra. Dæmi eru um að einstaklingar hafi þurft að dvelja á geðdeildum svo árum skipti vegna þess að ekki er hægt að veita þá þjónustu sem lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðs fólks kveða á um. Þetta er ekki vegna ofþjónustu sveitarfélaga heldur vegna skorts á þjónustu.
Sveitarfélögin hafa í nokkur ár bent á vanmat á kostnaði við málaflokkinn við flutningi hans frá ríkinu til þeirra. Á þetta var strax bent við meðferð málsins fyrir þinginu. Landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað bent á þá alvarlegu stöðu sem er í málaflokki fatlaðra. Einstaklingar fá hreinlega ekki lögbundna þjónustu vegna þessara deilna ríkisins við sveitarfélögin. Samtökin hafa alls ekki orðið vör við ofþjónustu af hendi sveitarfélaganna enda er hún ekki fyrir hendi. Fólk fær ekki þá þjónustu sem það á rétt á samkvæmt lögum. Þetta hefur blasað við frá því á málaflokkurinn var fluttur til sveitarfélaganna.
Ummæli fjármálaráðherra eru því kaldar kveðjur til þeirra fjölmörgu sem bíða á biðlistum eftir þjónustu m.a. einstaklingi sem hefur beðið á réttar- og öryggisgeðdeild í sjö ár eftir viðeigandi úrræði. Fólk sem á rétt á þjónustu er oft fast á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga. Landssamtökin Geðhjálp ítreka að slíkt kallast ekki ofþjónusta heldur þjónustuleysi.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar