18. janúar 2023

Yfirlýsing frá stjórn landssamtakanna Geðhjálpar

Í tengslum við fyrirtöku í héraðsdómi Reykjavíkur, sem fer fram 30. janúar nk. í máli S-5373/2022 sem embætti héraðssaksóknara sækir gegn hjúkrunarfræðingi, sem ásakaður er um að hafa valdið andláti sjúklings á geðdeild Landspítalans í ágúst 2021 og fjölmiðlaumræðu vegna fyrirtökunnar, sendir stjórn landssamtakanna Geðhjálpar frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Undanfarin misseri höfum við fengið fréttir af málum sem tengjast þvingandi aðgerðum gagnvart notendum geðsviðs Landspítalans. Innilokun á herbergi, útivistarbann, símabann, skömmtun á mat og kaffi og jafnvel líkamlegt og andlegt ofbeldi. Hluti þessara aðgerða er tilkomin vegna mönnunarvanda og óhentugs húsnæðis en stærstur hluti er vegna kerfisvanda og hugmyndafræði sem byggir um of á öryggis- og reglumenningu og virðir ekki mannréttindi notenda.

Landssamtökin Geðhjálp hafa um árabil barist fyrir því að draga úr nauðung og þvingun í geðheilbrigðiskerfinu með það markmið að slíkt eigi sér ekki stað. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent á að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru frelsissviptir. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.

Endurskoðum hugmyndafræði og innihald meðferðar

Hugmyndafræði og innihald meðferðar þarfnast að okkar mati endurskoðunar og umbóta. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), fyrirfram gerðir samningar um meðferð, skjólhús o.fl. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.

Eflum samfélagsgeðþjónustu

Heilsugæslustöðvar og samfélagsgeðteymin verður að efla. Mikilvægt er að auka þjónustu á heimilum fólks og í nærumhverfi þess. Niðurgreiðsla sálfræði- og samtalsmeðferða er mikilvægur hluti þeirra áherslu. Önnur áhersla Geðhjálpar miðar að því að fækka innlögnunum á geðdeildir með því að stórefla geðheilbrigðisþjónustu í samfélaginu. Ef þörf er á innlögn þarf sú þjónusta að vera nútímaleg, þjónandi og framsækin. M.ö.o. að láta umfang og starfsemi nýrrar geðdeildar ráðast af stórauknu framboði og umfangi geðheilbrigðisþjónustu í samfélaginu utan sjúkrahúsa.

Geðfræðsla í leik- og grunnskólum

Ein besta fjárfesting hvers samfélags er að huga að tengslamyndun barna fyrstu 1000 daga lífsins. Í framhaldi af því, að kenna börnum um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Samhliða að kenna kennurum og uppfræðurum barna og ungmenna geðrækt.

Við búum öll við geðheilsu rétt eins og við erum með hjarta. Setjum geðheilsu í forgang. Umfang geðheilsutengdra verkefna innan heilbrigðiskerfisins er um 25%, en fjármagnið sem rennur til þessara verkefna aðeins um 5%. Með því að forgangsraða ekki nægilegu fjármagni til geðheilbrigðismála stöndum við í vegi fyrir lífsgæðum heillar þjóðar.

Virðingarfyllst,
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram