19. september 2025

Við erum sérfræðingar í sjálfum okkur

Jafningjastuðningur innan geðheilbrigðiskerfisins hefur færst í aukana og nú starfa jafningjar á mörgum stofnunum og deildum fyrir fólk í geðrænni krísu. Jafningjar hafa sjálfir reynslu af geðrænum áskorunum og mæta fólki með skilningi og hlýju. Jafningjarnir Hallgrímur, Þórdís og Berglind lýsa því að hlutverk þeirra gagnvart skjólstæðingum sé jafnan vinahót og félagsskapur.

Jafningjastuðningur er ekki eins og klínískur stuðningur og heldur ekki bara að vera vinur, eins og Shery Mead segir. Við skiljum hvert annað af því við höfum verið í svipuðum sporum og getum verið fyrirmynd og módel fyrir hvert annað. Það er ekki ég sem er að leiða þig áfram heldur erum við saman að vinna í því að vaxa og læra,“ segir Berglind Sigurðardóttir sem starfar sem jafningi hjá Hlutverkasetri.

Shery Mead er hugmyndafræðingurinn að baki nálguninni og jafningjar á Íslandi nota hennar fræði til að dýpka þekkingu sína og getu. Jafningjastuðningurinn er unninn út frá nálgun sem kallast Intentional Peer Support (IPS), sem mætti á íslensku lýsa sem meðvitað og gagnkvæmt jafningjastarf. Þessi nálgun snýst ekki um að laga fólk eða leysa vandamál, heldur um að skapa tengsl og samræður sem leiða til vaxtar, hjá báðum aðilum.

„Þetta gengur út á það að hafa eigin reynslu af áskorunum og bataferli. Við erum ekki að reyna að finna einhver vandamál til að laga og það eitt gerir okkur öðruvísi en annað starfsfólk á Landspítalanum. Við erum miklu frekar að skapa rými og tilgang fyrir fólk. Þetta er valdeflandi staða,“ útskýrir Hallgrímur Hrafnsson. Hann hefur starfað í hlutastarfi á Landspítalanum um nokkurra ára skeið. Fyrst var hann eini jafninginn á Landspítalanum en nú hefur þeim fjölgað og meiri strúktúr er kominn á starfið. Þá hefur Hallgrímur komið að þjálfun nýrra jafningja.

Þórdís Ósk Helgadóttir er ein þeirra sem hófu nýverið störf sem jafningi á Landspítalanum.

„Þetta snýst alfarið um að vera til staðar, hlusta og þroskast saman. Við sækjumst ekki eftir ákveðinni niðurstöðu heldur snýst þetta meira um ferlið sjálft. En þetta er flókið líka. Maður er ekki læknir eða í þeirri stöðu en ekki heldur beint vinur. Við hugsum þetta sem vinasamband en það er samt ekki alveg þannig. Það er mjög flókið að útskýra þetta,“ segir Þórdís um jafningjastarfið og tengsl við fólk sem inn á spítalann hefur leitað.

Hvernig tekst ykkur að útskýra fyrir fólki að þið séuð ekki komin til að lækna það, heldur einfaldlega til að eiga gott samtal? „Maður segir bara við fólk: „Ég er jafningi og ég er sjálf með reynslu af geðrænum vandamálum.“ Þá jafnast samtalið strax. Lykillinn fyrir fólk er að heyra að viðkomandi sé sjálfur í sömu sporum,“ útskýrir Þórdís.

Hallgrímur tekur undir þetta. „Þegar ég segi sögu af sjálfum mér og af mínum eigin geðrænu áskorunum, þá yfirleitt hverfur allt valdaójafnvægi og áhugi kviknar hjá fólki.“

Berglind nefnir að í Hlutverkasetri sé valdajafnvægi innbyggt í starfsemina. Þannig séu hlutirnir ekki í jafn föstum skorðum og nær vera og samtöl eigi sér jafnvel náttúrulegri farveg en inni á sjúkrastofnunum. „Við erum bæði með jafningjaspjall þar sem við hittumst og sitjum í hring og spjöllum en svo sitjum við líka saman í sófanum og spjöllum. Mér hefur ekki reynst það erfitt að vera jafningi í Hlutverkasetri. Þar er kannski ekki sama valda ójafnvægi og hefur fundist í læknisfræðilega módelinu.“

Eins og áður segir eru jafningjar einstaklingar sem hafa eigin reynslu af geðrænum áskorunum og bataferli. Þau hafa lært að nýta þá reynslu í starfi sínu og mæta öðrum með skilningi, tengingu og nærveru. Með þessum tengslum skapast tækifæri til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd, bæta lífsgæði og efla sjálfsöryggi í samskiptum.

Hlutverk jafningja er meðal annars að skapa rými fyrir fólk til að segja sögur, hlæja, gráta, þegja og vera það sjálft. Það sem gerir jafningjastarf sérstakt er að það byggist á tengingu frekar en inngripi, spurningum frekar en svörum og gagnkvæmni þar sem reynsla hvers og eins er virt og metin.

Allir jafningjar hafa farið í gegnum námskeið hjá Traustum Kjarna og hlotið diplómu í IPS fræðunum.

„Fyrsta námskeiðið kallast core training. Það er 40 stundir þar sem við lærum grunninn, sem eru þrjú gildi og fjögur viðfangsefni. Frá hjálp að sameiginlegum lærdómi er eitt af grunnatriðunum og Frá einstaklingi að sambandi er annað. Frá ótta að von og möguleikum er svo þriðja gildið. Svo vinnum við með tengsl, heimssýn, jafna ábyrgð og það að komast áfram í stað þess að standa í stað. Námskeiðin eru mjög gagnvirk og við gerum alls konar verkefni og æfingar,“ segir Berglind.

Hallgrímur segir að þó að 40 stundir hljómi ef til vill ekki mikið þá sé hans reynsla sú að námsefnið sé djúpt og rammi hlutina vel inn. Hópurinn hittist svo annað hvert fimmtudagskvöld, eldar saman og dýpkar sig í hugmyndafræði IPS.

„Ég gæti nefnt sem dæmi heimssýnina, sem er eitt af aðalatriðunum í fræðunum. Það er atriði sem ég hafði ekki hugsað út í í þessu samhengi. Áherslan á að skoða heimssýn hvers annars og læra að virða hana. Við getum rætt um mismunandi heimssýn og hvernig hún er einstaklingsbundin og samansafn af öllu því sem maður hefur gengið í gegnum,“ segir Hallgrímur.

„Þetta vekur mann til að reyna að sjá hina hliðina í samskiptum. Ég hef aðgang að menntun, húsnæði en er svo kannski að tala við manneskju sem er á hrakhólum, hefur aldrei haft tækifæri til að mennta sig og það breytir heimssýn þeirra. Þá bregst maður mismunandi við aðstæðum eftir því hvernig lífið hefur leikið mann, hingað til,“ bætir Þórdís inn í.

Heimssýnin er þannig hluti af þeim fjórum atriðum sem námskeiðið gengur út á.

Berglind nefnir að tengsl séu annað lykilatriði IPS fræðanna. „Tengslin eru annað sem er mjög mikilvægt. Bæði hlustunin og að reyna að hafa sem minnst valdaójafnvægi. Mér finnst tengingin svo gífurlega mikilvæg.“

„Einn algengasti fylgifiskur geðraskana er félagsleg einangrun og vanvirkni,“ nefnir Hallgrímur. „Oft hefur kerfið gert þá parta bara verri og verið er að sjúklingavæða fólk að óþörfu. Við viljum fá fólk til að fatta að við erum manneskjur. Fólk er kannski búið að vera í sjúklingahlutverkinu og aðstandendalaust lengi og þá erum við jafningjar komin til að minna fólk á að þau eru líka mennsk og mega vera þau sjálf.“

Þannig geti hlutverk jafningja á stundum verið að tala um eitthvað allt annað en ástand fólks þá og þá stundina, heldur frekar að skapa eðlilegt augnablik í óeðlilegum aðstæðum.

Berglind segir það að þekkja þau spor sem fólk á geðdeildum standi í hjálpi oft til við að styrkja reynsluna og tenginguna.

Hver er ykkar saga?

„Ég fór í geðrof árið 1998 og átti mjög erfið fjögur ár í kjölfarið. Þá fékk ég þjónustu sem mér fannst ekki vera nein þjónusta,“ segir Hallgrímur og heldur áfram: „Ég átti að passa inn í þeirra box og það var aldrei nein mannleg tenging, nálgun eða samtöl. Svo náði ég góðum stöðugleika árið 2002 og átti mestmegnis gott líf sem öryrki og atvinnulaus.“

Árið 2016 var Hallgrímur að hitta sálfræðing sem sagðist vita af starfi sem hann væri rétti maðurinn í. „Ég hafði enga trú á sjálfum mér á þeim tíma en það kom strax í ljós að þetta væri eitthvað sem ég hefði óskað að væri til staðar fyrir mig, skemmtilegt og gefandi starf. Ég var samt svolítið einn því það voru ekki aðrir jafningjar starfandi en það gjörbreyttist í janúar 2023 þegar fyrsta námskeiðið á vegum Trausts Kjarna var haldið. Eftir jafningja-námskeiðið spratt upp þessi dásamlegi hópur og vitundar vakning. Mér finnst þetta snúast mikið um það að fólk sé að fatta að eitt það besta sem er hægt að gera fyrir okkur er að styrkja okkur til að styðja við aðra.“

Þórdís varð jafningi eftir að hafa verið í löngu veikindaleyfi eftir kulnun.

„Ég fór í burnout fyrst árið 2018 og ætlaði bara að fara á stressnámskeið og láta það læknast en hef ekkert verið á vinnumarkaði þar til í janúar þegar ég varð jafningi. Þetta var búið að vera langt og strangt ferli og endaði með mikilli veikindalotu árið 2022 þar sem ég fór í geðrof og endaði á sjúkrahúsi í tvo mánuði. Mín reynsla af geðheilsuteyminu var góð en þegar ég heyrði af þessu IPS kerfi og fór á ráðstefnuna Þörf fyrir samfélagsbreytingar þá var bara eins og eitthvað togaði í mig. Ég upplifði þetta eiginlega sem bataferli líka því það að búa sér til ferilskrá og mæta í viðtöl og fá svo starfið var bara þvílíkur sigur,“ segir Þórdís.

Hún segir að fordómar gagnvart fólki með geðrænar áskoranir hafi líka komið í veg fyrir að hún talaði mikið um reynslu sína áður. „En það að verða jafningi þýðir að maður hefur sjálfur verið að glíma við geðrænar áskoranir, orðið veikur á geði eða er að glíma við svipaða hluti og þá er maður smá búinn að opinbera sig. Þá hefur maður tækifæri til að tala um sjokkið sem maður fær við að verða svona mikið veikur.“

Berglind hafði lengi glímt við geðrænar áskoranir og mikinn kvíða. Hún lagðist fyrst inn á geðdeild 16 ára gömul og átti erfitt með að fóta sig í tilverunni. „Ég náði samt lengst af að vera vinnandi og eignast mínar dætur. En svo átti ég líka mjög erfið tímabil inn á milli og árið 2007 var ég í sex mánuði á geðdeild. Eftir þá sex mánuði fór ég á Hvíta bandið og náði aðeins að fóta mig aftur því þar var svo mikil hlýja og nánd. En svo gerist það bara ítrekað að ég stími á vegg.“

Þá reyndist heimsfaraldur Covid Berglindi mjög erfiður tími. Hún var í vinnu á leikskóla, þurfti að hitta mikið af fólki í vinnunni og end aði í veikindaleyfi vegna gríðarlegs kvíða við þær aðstæður. „Ég vildi alls ekki leita til geð heilbrigðiskerfisins því það hafði ekki reynst mér vel. Ég notaði þessa örlitlu orku sem ég hafði og varð að nýta hana til að fara innan um fólk og þá leitaði ég til Hlutverkaseturs. Eftir nokkra mánuði hélt Geðhjálp Social Change ráðstefnuna sem ég var hvött til að fara á. Það reyndist alveg þvílík lyftistöng fyrir mig. Þar var fullt af fólki með svipaða reynslu og ég og svo kom IPS námskeiðið í kjölfarið. Það varð einhver vakning hjá mér.“

Þeim ber öllum saman um að það hlutverk sem þeim hefur verið úthlutað sé stór liður í þeirra eigin bata.

„Við erum sérfræðingar í lifaðri reynslu,“ nefnir Berglind í þessu samhengi og Hallgrímur grípur orðið:

„Og allir eru sérfræðingar í sjálfum sér. Stundum hefur læknisfræðin viljað hafa vit fyrir öðrum hvað þetta varðar.“

Berglind nefnir að það hafi reynst henni vel að komast út úr því að vera í þiggjandi hlutverki og að hafa lítið um eigin bata að segja. „Það er hluti af jafningjaferlinu, að við erum bæði með ábyrgð og við finnum út úr þessu saman. Ég held að sá þáttur hafi hjálpað mér gríðarlega. Það er enginn í hlutverki bjargvættar og enginn er fórnarlambið. Það er svo valdeflandi nálgun.“

Hallgrímur tekur undir þetta: „Já, mér finnst verið að sýna fram á dýrmætið í samsköpun, sem er uppáhaldsorðið mitt í geðþjónustu. Að notendur hafi meira að segja um sína meðferð. Það er núna komið á aðgerðaráætlun hjá heilbrigðisyfirvöldum.“

Þeim ber saman um að jafningjastuðningurinn gefi góða raun innan heilbrigðiskerfisins og sé kominn til að vera. Samfélagsbreytingar séu stór partur af hugmyndafræðinni og þau vilji stuðla að þeim. „Það eru allir svo jákvæðir fyrir því að fá annan jafningja í teymið. Mér finnst það segja svolítið mikið að þau sem eru nú þegar innan kerfisins séu til í að fá þessa nálgun sem viðbót við það sem er nú þegar. Lykilpartur af jafningjastuðningi er samfélagsbreytingar. Það er skýrt tekið fram að það er líka tilgangurinn,“ segir Þórdís að lokum.


Traustur Kjarni heldur námskeið og þjálfar nýja jafningja með IPS fræðin að leiðarljósi. Markmið Trausts Kjarna er að vinna að nýsköpun innan heilbrigðiskerfisins.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram