19. september 2025

Hlekkir og áþján fangelsisvistar víkja fyrir sterkari reynslu

Tolli Morthens hefur í tvo áratugi gert sitt til að kenna fólki í íslenskum fangelsum sjálfskærleik og að finna innri frið. Hann hlaut fálkaorðuna í júní síðastliðnum fyrir framlag sitt til endurhæfingar fanga, en segir að orðan tilheyri öllum þeim sem starfa með honum í Bata-akademíunni.

Tolli er búinn að sinna sjálfboða liðastarfi innan fangelsanna síðan 2004 fyrir atbeina manns sem hann sponsaði innan AA samtakanna, en sá hafði áður setið í fangelsi. „Ég fer að vinna þarna sem 12 spora maður og byrja að koma með félaga mínum sem hafði setið inni í mörg ár. Vinir hans sem enn sátu inni vissu að hann væri í bata, eins og við köllum það, og báðu hann að koma með prógram austur. Ég var að sponsa þennan náunga og hann biður mig að koma með sér. Þegar ég spyr hvað við séum að fara að gera svarar hann: „Ég veit það ekki. Við ætlum bara að láta gott af okkur leiða.“ Og það nægði mér,“ segir Tolli um aðdraganda þess að hann hóf að starfa sem sjálfboðaliði að endur hæfingu fanga.

„Þegar ég hafði farið austur með AA fundi áður var mætingin kannski 2 til 3 menn en þarna voru saman komnir 20 manns einfaldlega vegna þess að félagi minn var kom inn. Þetta sýnir okkur vægi jafningja stuðningsins og hvað vægið er gífurlegt þegar það er traust á milli manna.“

Þurfti að kafa dýpra

Tolli segir að AA fræðin, sem hann fór upphaflega með í fangelsin, hafi verið í nokkuð hefðbundnum sniðum. Í dag hafi starfið aftur á móti breyst mikið og farið frá því að vera hefðbundin 12 spora vinna yfir í heildrænni nálgun á andlega heilsu fólks í fangelsum landsins.

„Ég var að rekast á það í minni vinnu að það nægði mér ekki að vera edrú. Ég sat uppi með fangið fullt af sjálfum mér og óunnum málum. Ég var í mjög hráum afleiðingum af áfallastreituröskun, áföllum frá því ég var barn og var að glíma við ýmislegt ójafnvægi sem AA dugði ekki til í. Þá fór ég að vinna mikið í hugleiðslu og tileinka mér tíbetskan búddisma. Ég var vel tengdur í gegnum Hugleiðslu og friðarmiðstöðina sem var svo aftur tengd við klaustur í Skotlandi sem er eitt stærsta tíbetska klaustur í heimi, fyrir utan Tíbet. Það klaustur vinnur mikið með nú vitund ar samfélaginu í Bretlandi og Skotlandi. Þannig að ég var á mörgum retreatum og stöðugt að læra og svo var ég að kenna þetta inni í fangelsum,“ segir Tolli um upphaf þess að áherslur hans breyttust innan fangelsanna.

Hann hafi lært hvernig áföll búa til varnarkerfi innra með fólki sem geti hamlað betri líðan. „Og allir sem sitja í fangelsum eiga sér áfallasögu. Ef þeir eiga hana ekki fyrir þá er sjálft áfallið að fara í fangelsi. Eðli málsins samkvæmt eru varnarkerfin þar gríðarlega sterk.“

Hann segir núvitund og hugleiðslu hafa reynst leiðina til að komast dýpra inn í vitundina, og þá sérstaklega dýpra en það sem hann kallar dagvitund. Lykilatriðið sé að sýna sjálfskærleik og ást. „Þeir sem kenna þessi fræði segja að þú verðir að tileinka þér sjálfskærleik. Sjálfskærleikur er hugtak sem ég fór að vinna með af miklum krafti inni í fangelsunum og menn fóru allt í einu að tileinka sér það hugtak og þá nálgun sem eðlilegan hlut. Menn fara að fatta það að kærleikur er bara hluti af þeim mekkanisma sem hugur mannsins býr yfir og er hvað nauðsynlegasti þátturinn í getu mannsins að grípa sjálfan sig.“

Hugleiðsla hafi þó þannig áhrif að varnarkerfi andans fari að láta undan. „Þegar þú ert búinn að iðka hugleiðslu lengi og varnarkerfin eru að dvína þá fer hugurinn að sýna þér meira og meira. Hann getur sýnt þér erfiða hluti og þá er nauðsynlegt að þú sért tengdur inn í sjálfskærleik og vitir að þú getir gengið að honum sama hvað gengur á innra með þér. Þetta gildir í allri þerapískri vinnu. Það er að þjálfa með sér sjálfskærleik. Þeir sem ná árangri inni í fangelsinu halda hópinn þegar þeir koma út og við búum til grúppu í kringum þessa vinnu.

Sterkari upplifun en fangelsi

Eitt af því sem Tolli og Bataakademían hafa fært inn í fangelsin eru svettseremóníur. Um er að ræða djúpa hefð fyrir svitahofum sem sótt er til frumbyggja Norður- og Mið-Ameríku. Ævaforn leið fyrir fólk til að kjarna sig.

„Ég hef verið í sambandi við fólk í Oregon í Bandaríkjunum sem er að vinna inni í fangelsunum þar og notar þessar gömlu seremóníur. Þeir eru með svettin inni í fangelsunum og svo halda þeir í hefðina fyrir sitt fólk. Þar kemur í ljós að þetta er mjög dýrmæt leið. Við höfum lagað svitahofsritúalið okkar að þessari þerapísku vinnu að vinna með sjálfan sig og að vinna með varnarparta.“

Tolli segir að áhersla hafi verið lögð á það í Bandaríkjunum og Kanada að íslensk menning fái notið sín í svet-tathöfnunum hér á landi. Þannig sé hefðin ekki tekin beint frá frumbyggjum og þeim menningarheimum sem nýtt hafa krafta svitahofanna.

„Okkur hefur tekist það með frábærum árangri. Það góðum árangri að í dag erum við með fast svett tjald að fangelsinu á Sogni og svettum þar reglulega bæði fyrir karla og konur. Bataakademían er grasrótarsamtök sem starfa að jafningjanálgun og í gegnum hana erum við með mjög öflugt kvennastarf. Þær sjá alveg um konurnar og taka þær inn og við erum svo með karlana.“

Þannig hafi Bataakademían einnig farið með svett að Kvíabryggju og sé, eins og áður segir, með fast svett tjald að fangelsinu á Sogni. „Við erum ekki með mælanlegan árangur en við heyrum og finnum hver hjá öðr um að þetta er að gefa mjög góða raun fyrir þá sem sitja í fangelsum. Þeir fá tækifæri til að fara í rými þar sem hlekkir og áþján fangelsisvistarinnar víkja fyrir sterkari reynslu. Þeirri sem er inni í tjaldinu. Rauði þráðurinn í þessari upplifun er kærleikur. Menn leggja niður allar varnir og finna að þeir tilheyra, finna að við erum allir á sameiginlegri vegferð. Menn finna það að þeir eru ekki glæpamenn heldur manneskjur sem hafa lent í atburðarás sem iðulega má rekja til áfallastreituröskunar.“

Hann nefnir í þessu samhengi að margir þeirra sem sitja í fangelsi séu með mikla tengslaröskun úr æsku, og hafi jafnvel aldrei upplifað annað en hörku í sínu lífi.

„Sem leiðir svo til fíkniójafnvægis og það leiðir til stjórnleysis sem leiðir að einhverju hræðilegu sem kemur þeim í fangelsi. Það er svo dýrmætt fyrir menn að sjá sjálfa sig í þessu stóra samhengi en ekki bara inni í þessum eina hring sem segir að þú sért glæpa maður og ómenni. Við notum öndun líka mikið í fangelsunum. Þessi öndun er mjög kraft mikil í sjálfsvinnunni. Hún er öflug fyrir líkamlega og andlega heilsu og svo hjálpar hún mjög mikið í að læra að sleppa og treysta. Rauði þráðurinn í svona sjálfsvinnu allri er alltaf þetta; lærðu að sleppa og treysta. Það sem við höfum séð á þessu ferðalagi okkar er þessi ótrúlega geta mannsins til að grípa sjálfan sig þegar hann fær tækifæri til þess.“

Tolli nefnir að djúpvinna á borð við þessa geti leyst eitt og annað í klínískum geðlækningum af hólmi. „Mörgu af því sem við leggjum traust okkar á í geðlækningum með lyfjagjöf er hægt að víkja frá ef fólk fær leiðsögn í því að skilja af hverju það er í þessum aðstæðum sem það er í dag. Þaðan fær það hugrekki og getu til að trúa því að það búi yfir getu til að grípa sig sjálft.“

Enginn sviptur réttinum til hamingju

Aðspurður hvort ekki sé erfitt að ná inn að kjarna hjá fólki sem hafi jafnvel aldrei kynnst kærleika í sínu lífi, hvað þá sjálfskærleika, og komi inn í fangelsin búin á því á líkama og sál, segir Tolli svo í raun ekki vera.

„Skilningur minn er sá að við fæðumst öll inn í upprunagetu þar sem við erum heil. Þinn innsti kjarni er alltaf mennska. Það er mantra í tíbetskum búddisma sem hljómar svo: Om Mani Padme Hum og þýðir blessaður sé innsti kjarni lótusblómsins. Þú ert lótusblómið og innsti kjarni þess er kærleikurinn. Ég hef hitt fólk sem hefur átt sér mjög ljóta ofbeldissögu, bæði sem gerendur og þolendur, en með vinnu þar sem við nálgumst í virðingu og kærleik þá smám saman opnast rými fyrir þessa upprunagetu að stíga fram. Það sem er mikilvægt í þessu er að um leið og þú ert kominn með þá getu, og þar vísum við í 12 spora getuna, að grípa sjálfan þig, þá ertu kominn með getu til að deila því með öðrum.“

Þannig sé mikilvægt atriði í allri vinnunni að fólk öðlist getu til að gefa af sér og aðstoða aðra í átt að betri líðan. „Það er ofboðslega mikilvæg sjálfsrækt að finna að þú hafir getu til að hjálpa öðrum. Þá býrðu til nýtt karmaflæði. Þó að þú sitjir í fangelsi fyrir að hafa tekið líf annarrar manneskju, sem er óafturkræfur atburður, þá tekur það ekki af þér rétt inn til að vera hamingjusöm manneskja. En til þess að það sé hægt þarf maður að gangast við því sem er og taka ábyrgð á því. Það gerir maður með því að gangast við sjálfum sér eins og maður er og reyna að skilja af hverju þetta gerist.

Síðan kenna trúarbrögðin okkur, hvort sem það er kristni eða búddismi eða hvað sem er, að leiðin til að lifa með brotinu sé að helga líf sitt því að hjálpa öðrum. Það hef ég séð menn gera sem hafa átt þessa sögu að hafa tekið líf annarrar manneskju. Það er að helga líf sitt því að hjálpa öðrum og þá myndast ákveðin sátt. Þú nærð einhvern veginn að vera í orku sem er að næra þig, blessunarlega, þrátt fyrir þann sorglega atburð sem verður aldrei tekinn aftur.“

Og Tolli hefur einmitt fengið viðurkenningu fyrir það að hjálpa öðrum. Í júní á þessu ári hlaut hann hina íslensku fálkaorðu fyrir sjálfboðaliðavinnu sína í fangelsum landsins. Hann segir að áður fyrr hefði honum ekki dottið í hug að taka við „svo borgaralegu prjáli. En þegar á hólminn var komið og maður orðinn þetta gamall þá einfaldlega þótti mér vænt um þetta. Orðan er samfélagsleg viðurkenning og um leið setur þetta ljós á málaflokk undir forystu forseta okkar. Þetta segir einfaldlega: „Við látum okkur ykkur varða.“

Þetta var gjöf til allra. Það er stór hópur sem fékk fálkaorðuna þó ég taki að mér að bera hana. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en forseti Íslands hef ur hugrekki til að gera það mikilvægasta í mannlegri tilveru að sínu baráttumáli og það er kærleikurinn. Hún hefur hugrekki til að fara með það fremst á sviðið í samfélagsmálum að það sem við þurfum að þjálfa, æfa og viðurkenna er kærleikur, kærleikur, kærleikur. Við þurfum að átta okkur á því að kærleikur er ekki skreytiyrði sem við notum bara í kirkju eða á tyllidögum, heldur grundvallaratriði í mannkynssögunni sem leiðir til þess að maðurinn geti átt sæmilega sátt við sjálfan sig.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram