Skyndihjálparnámskeið eru vinsæl leið til að auka færni sem flestra til að bregðast við líkamlegum veikindum eða slysum. Minni áhersla hefur verið lögð á viðbragð þegar andlegir erfiðleikar blasa við fólki í nærumhverfi manns. Cait Fisher er eitt þeirra sem hafa þróað og kennt aðferðir til andlegrar fyrstu hjálpar, Community eCPR, og telur að hún gæti komið að verulega góðum notum í smærri samfélögum.
Með eCPR eða tilfinningalegri fyrstu hjálp er átt við samfélagslega hreyfingu, leidda á jafningjagrundvelli, sem nýtist þegar fólk gengur í gegn um andlega vanlíðan eða krísu,“ segir Cait þegar hán er beðið um að útskýra hvað eCPR er í sem einföldustu máli.
„Í grunninn er þetta aðferð fyrir smærri samfélög til að eiga í opnu samtali, sýna jafningjastuðning og veita krísuviðbragð þegar einstaklingar innan hópsins þurfa á að halda. Innbyggt í eCPR eru forvarnir gegn sjálfsvígum og andlegur stuðningur þegar vanlíðan, kvíði og erfiðleikar herja á geðið. Enska orðið yfir CPR stendur fyrir Cardiopulmonary Resuscitation sem snýst um líkamlega hjartað, en eCPR snýr að andlega hjartanu. Kjarninn í nálguninni er samkennd, frekar en samúð.“
Um er að ræða 12 tíma þjálfun sem fer fram á tveimur dögum, ekki ósvipað skyndihjálpar námskeiði. Þar er farið yfir grunnatriði aðferðarinnar, svo sem virka hlustun og stuðning í gegnum nærveru. „Þetta er sérstök tegund heilandi nærveru. Fólk lærir að vera raunverulega til staðar fyrir einhvern en okkur er í raun kennd öfug leið við alla okkar félagslegu skilyrðingu fram að því. Flestum er kennt að gefa öðrum ráð, reyna að laga vandamál þeirra eða deila eigin reynslu en eCPR hafnar alfarið slíkri nálgun. Við spyrjum fárra spurninga, gefum engin ráð og reynum ekki að leysa úr andlegri vanlíðan með öðru en nærveru, stuðningi og virkri hlustun,“ útskýrir Cait.
Hán bætir við að fordómaleysi og það að mæta fólki í umburðarlyndi sé algjört lykilatriði að baki fyrstu hjálpinni. Oft sé talað um að fara inn í heilunina án sögu, það er að segja án þess að deila eigin reynslu eða hafa fyrirfram ákveðnar hugmyndir um þá erfiðleika sem viðkomandi er að reyna þá stundina.
„Að nálgast stuðninginn án sögu merkir í raun að reyna ekki að skilja vanlíðanina sem viðbragð við trauma. Við gefum okkur ekki að fólki líði illa vegna einhvers sem gerðist í æsku, eða einhvers sem kom fyrir vikuna á undan, heldur leyfum við viðkomandi að greina frá líðan sinni án þess að þurfa stöðugt að setja hana í samhengi. Auðvitað er fólki frjálst að gera það sjálft, en við leiðum það ekki þangað í eCPR. Við spyrjum ekki spurninga og greinum ekki vandann heldur sýnum skilyrðislausan stuðning.“
Cait fór markvisst að nota aðferðina í heimsfaraldri Covid þegar hán fann sig í samfélagi hinsegin listamanna í Berlín sem leituðu hvert til annars á þeim erfiða tíma. Þau fengu aðsetur í yfirgefnu spilavíti og hófu að hittast með markvissum hætti til að standa hvert með öðru.
„Þetta var algjört grasrótarframtak. Spilavítið Fortuna í Berlín stóð tómt og við tókum það yfir og breyttum í hinsegin aktívistasamfélag sem lagði áherslu á líkamlega og andlega heilsu. Við kölluðum þetta Félags- og ánægju miðstöðina. Þetta óx upp frá þörf fyrir tilfinningalegan bráðastuðning á erfiðum tímum. Samfélagið þurfti stuðning og svarið var að stuðninginn væri að finna hjá samfélaginu frekar en sálfræðingum eða meðferðaraðilum.“
Þannig hafi markmið hópsins verið að gefa þeim sem á þurftu að halda félagslega tengingu og styrk, efla andann og ná upp orku sem tapast hafði í faraldrinum.
„Þetta var hugmyndin um samfélagslega valdeflingu. Um viðurkenningu á því að við værum hér, gætum komið saman og eflst,“ segir Cait.
Þjálfunin sem fer fram í eCPR byggist upp á því að kenna fólki virka nærveru. Þjálfunin fer því öll fram í kringum raundæmi, þ.e. fólk segir frá eigin tilfinningum og upplifun í þjálfuninni án þess þó að vera endilega sjálft í sálarkrísu. Þannig er aldrei beitt hlutverkaleik eða sýndardæmum í þjálfuninni.
„Eftir þjálfunina hefur jafnan myndast sterk tenging á milli allra þátttakenda og það verður til ákveðin endurskilgreining á samveru og hvað það þýðir að vera saman. Þá verður gjarnan til enn meiri þörf innan hópsins til að dýpka þekkingu og færni til að styðja við aðra með þessum hætti.“
Hópurinn í Berlín hóf að hittast öll mánudagskvöld í spilavítinu, átta saman, til að dýpka tengingu sína og ná betri tökum á virkri hlustun og nærveru.
„Þetta var hreint út sagt stórkostlegt. Okkur tókst að byggja þétt ofið samfélag þar sem við bæði lærðum og efldumst, um leið og við vorum til staðar hvert fyrir annað. Lykillinn var svo þessi tilfinning fyrir samfellu. Af því að hittingurinn komst inn í rútínu okkar allra, þá varð til svo dýrmæt tenging og regla á samskiptunum. Við hittumst oft, héldum hópinn og vissum vel hvar við stóðum andlega og líkamlega,“ segir Cait um tímann í Berlín.
„Þetta var skuldbinding. Sameiginleg skuldbinding um að mæta, hittast og vita að aðrir myndu gera það sama. Þetta var alveg ótrúlega falleg leið til að byggja samfélag utan um meðvitaða nærveru og tengsl en vera óháð stofnunum eða formlegu valdi.“
Hán kynntist fræðunum þó fyrr í gegnum föður sinn sem hafði lengi verið hluti af jafningja stuðningi og náð árangri sjálfur. Faðir hennar, Dan Fisher, er þekktur á Íslandi fyrir nálgun sína í geðlækningum og fyrir bók sína Heart beats of Hope.
„Pabbi minn er geðlæknir en hafði verið settur á stofnun og greindur með geðklofa. Hann og félagar hans þróuðu í raun þessa aðferð út frá þeirra eigin reynslu og byggðu á því sem þeim þótti þeir þurfa hvað helst. Þegar þeir upplifðu sína myrkustu tíma var heilbrigðiskerfið, og lyfjamódelið, ekki að virka fyrir þá eða að skila neinum árangri. Í raun upplifðu þeir að því væri þveröfugt farið,“ segir Cait og heldur áfram:
„Reynsla pabba var að dýrmætasta fólkið sem hann kynntist á geðsjúkrahúsinu hafi verið fólkið sem mætti honum í augn hæð. Jafnræði á milli hans og þeirra sem unnu með honum var lykillinn að bata og bættari líðan. Það var oft fólkið sem hafði hlotið minnstu þjálfun í heilbrigðisvísindum en gat gefið af sér með öðrum hætti. Pabbi minn var með stjarfageðklofa, svo hann gat ekki tjáð sig, en þurfti á manneskjulegri nálgun að halda og að upplifa að það væri ekki verið að hugsa um hann af einhverjum vélmennum. Þannig þróar hann þessa aðferð.“
Hán segir að þannig hafi eCPR þróast í gegnum aktívisma og hreyfingu sem vildi knýja fram breytingar á geðheilbrigðiskerfinu og sérstaklega ná niður háum veggjum og valdastrúktúr.
„Já, og byggja á heilun, að deila nærveru og vera stödd í hjartanu gagnvart hvert öðru. Þá verður til bati.“
Cait segir aðferðina sérstaklega henta smærri samfélögum, hvort sem það eru samfélög hinsegin fólks, íbúasamtök eða smærri pláss fjarri stórborgum. Hægt sé að þjálfa færnina upp fyrir þau sem langar að geta bætt samfélag sitt með virkri nærveru, án þess að þurfa endilega á heilbrigðisvottun eða diplómu að halda.
„Það geta allir lært eCPR og raunverulega bætt nærsamfélagið sitt með andlegum stuðningi.“