Til fjölmiðla og Alþingis
Í ljósi umræðu um málefni öryggis- og réttargeðdeilda Landspítalans vill stjórn landssamtakanna Geðhjálpar koma eftirfarandi á framfæri.
Í nóvember árið 2020 leituðu fimm þáverandi og fyrrverandi starfsmenn deildanna tveggja á fund Geðhjálpar. Þeir sögðu frá alvarlegum atvikum í starfsemi deildanna gagnvart notendum þjónustunnar er, að mati lögfræðings Geðhjálpar o.fl., kunna varða við hegningarlög. Starfsmennirnir lýstu einnig skoðunum sínum og undrun á utanumhaldi mannauðsmála á geðsviði spítalans og að á þá væri ekki hlustað. Vegna þessa leituðu þeir til Geðhjálpar þar sem ítrekaðar ábendingar þeirra um árabil hefðu ekki skilað neinum árangri hvorki hjá geðsviðinu né innan stéttarfélaga. Það að starfsfólk, bæði fyrrverandi og núverandi skyldi leita til samtaka eins og Geðhjálpar kom okkur svolítið á óvart en segir sína sögu um mögulega viðbragðsþurrð innan kerfisins.
Geðhjálp tók í framhaldinu saman greinargerð um málið og sendi til yfirstjórnar Landspítalans og geðsviðsins auk þess að senda einnig til eftirlitsaðila heilbrigðisþjónustu, Embætti landlæknis. Það kom stjórn Geðhjálpar á óvart hve viðbrögð eftirlitsaðilans og yfirstjórnar spítalans voru takmörkuð enda um alvarlegar ábendingar að ræða. Frá því í nóvember hafa fjölmargir aðrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn geðsviðs Landspítalans komið ábendingum til Geðhjálpar auk aðstandenda og notenda þjónustunnar. Þeirra vitnisburðir eru samhljóma því sem kom fram í ábendingum þeirra starfsmanna sem leituðu fyrst til Geðhjálpar.
Á mbl.is þann 1. júní sl. svarar upplýsingafulltrúi Embættis landlæknis spurningu blaðamanns um vinnslu málsins innan embættisins:
Þetta er náttúrulega svolítið sérstakt af því að upphaflega er málið sett fram í greinargerð og undir nafnleynd og síðan stíga konur fram sem að lýsa sinni upplifun. Þá breytist dæmið, þá viljum við fá frekari upplýsingar frá þeim.
Að ofangreindu má skilja sem svo að eftirlitsaðilinn taki ekki fyllilega mark á alvarlegum ábendingum, er kunna að varða lög og eru settar fram með trúverðugum hætti í samstarfi við hagsmunasamtök notenda, vegna þess að þau sem benda á óttast um starf sitt og koma því ekki fram undir nafni. Þetta er að mati stjórnar Geðhjálpar alvarlegt og eðlilegt að spyrja hvort Embætti landlæknis hafi sinnt eftirlitshlutverki sínu með fullnægjandi hætti og hvort ekki hefði mátt telja rétt af embættinu að leita skýringa hjá Geðhjálp, spyrja hvort þeir starfsmenn sem lögðu ábendingarnar fram væru reiðubúin að koma fram undir nafni í samtali við embætti Landlæknis og hefja ítarlega rannsókn í ljósi alvarleika ábendinganna.
Geðhjálp móttók bréf frá Embætti landlæknis þann 31. maí sl. þar sem farið var yfir viðbrögð embættisins gagnvart þeim ábendingum sem komu fram. Það bréf vekur ekki bjartsýni um að málin séu í réttum farveg innan embættisins. Þar kemur m.a. þetta fram:
Landspítali hefur nú skilað tveimur greinagerðum til embættisins sem svar við þeim atriðum sem embættið beindi til hans. Að mati embættisins hafa stjórnendur geðþjónustu Landspítalans unnið vel úr þessum málum og lagt fram áætlun um úrbætur þar sem það á við. Deildarstjóri réttar- og öryggisgeðdeildar er núkominn í ótímabundið leyfi og annar
tekinn við starfi hans. Embættið mun fylgja málinu frekar eftir gagnvart Landspítala og fylgjast með framvindu mála á deildinni og umbótavinnu.
Það eru rúmir sex mánuðir liðnir frá því að ábendingarnar komu fyrst fram og viðbrögðin eftirlitsaðilans virðast vera sambærileg og ef um minniháttar mál væri að ræða.
Í ljósi þeirra alvarlegu ábendinga og athugasemda, sem fram komu í greinargerð þeirri sem Geðhjálp sendi Landlæknisembættinu og yfirstjórn Landspítalans í nóvember árið 2020, þeim fréttum sem nú berast um málefni öryggis- og réttargeðdeilda Landspítalans auk annarra ábendinga um starfsemi geðdeilda óskar stjórn Geðhjálpar vinsamlegast eftir að ráðist verði í eftirfarandi aðgerðir:
Málið er alvarlegt og krefst þess að brugðist verði við af festu. Í greinargerð þeirri sem Geðhjálp sendi Landlæknisembættinu í nóvember árið 2020 og meðfylgjandi samantekt lögfræðings samtakanna í aðdraganda þeirrar umfjöllunar sem hófst á RÚV í síðasta mánuði koma fram mjög alvarlegar ábendingar er varðað geta við hegningarlög, lögræðislög, lög um réttindi sjúklinga, lög um réttindagæslu fatlaðra auk mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans dvelur fólk svo mánuðum og jafnvel árum skiptir. Það verður að vera hægt að treysta því að starfsemi sem fer þar fram, sem og á fleiri lokuðum deildum standist lög og ákvæði stjórnarskrárinnar.
Að endingu leggur stjórn Geðhjálpar til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi til tilraunar í þrjú ár. Það er í samhljómi við áeggjan helstu sérfræðinga SÞ til Evrópuráðsins þann 28. maí sl. Þar kemur m.a. fram:
Sláandi niðurstöður Fötlunarráðs Evrópu, Evrópsku geðheilbrigðissamtakanna og fleiri samtaka ásamt auknum skilningi innan Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sýna að nauðungavistanir á heilbrigðisstofnunum og þvingandi meðferðir á stofnunum hafa í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir notandann, svo sem sársauka, áfall, niðurlægingu, skömm, stimplun og ótta. Þvingun við meðferð geðrænna áskorana veldur skaða og við ættum ekki að fara í átt til fortíðar með því að heimila þessa úreltu nálgun. Fólk sem býr við geðfötlun á rétt á að vera hluti af samfélaginu ásamt því að hafna lyfjameðferð.
Að lokum vill Geðhjálp ítreka ábendingar um frumvarp heilbrigðisráðherra um lög og réttindi sjúklinga sem nú liggur fyrir Alþingi. Í því frumvarpi endurspeglast að mati samtakanna afturför þegar kemur að beitingu þvingunar og nauðungar. Þar er þvingun og nauðung lögfest. Geðhjálp skorar á þingheim og samfélagið allt að hverfa frá hugmyndafræði valds og þvingana þegar kemur að meðferð tengdri geðrænum áskorunum og endurvekja aukna mannúð og skilning. Horfum til framtíðar og hugsum: Hvernig ætli fólk árið 2050 meti það sem við gerum árið 2021.
Virðingarfyllst, Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar