Að heyra raddir sem ekki öll heyra hefur verið tengt við geðsjúkdóma, einkum geðklofa og geðrof. Raddirnar eru ekki einungis orð heldur geta þær líka verið ýmiss konar hljóð og jafnvel sýnir. Samtökin Intervoice hafa unnið mikilvægt starf víða um heim með óhefðbundinni nálgun til að svipta hulunni af þessari upplifun fólks sem hefur fylgt mannkyninu alla tíð. Litið er á þessa upplifun mjög misjöfnum augum eftir menningu samfélaga. Mikilvægast er þó að útrýma fordómum og að fólk finni leið til að lifa góðu líf með eða án raddskynjana.
Intervoice-samtökin telja að ekki sé lengur hægt að færa haldbær rök fyrir því að heyra raddir sé hluti af geðsjúkdómum heldur ætti í stað þess að líta á þær sem raunverulega reynslu fólks, stundum erfiða en ekki alltaf. Raddirnar geta talað til viðkomandi á myndrænan hátt um líf hans, tilfinningar og umhverfi.
Nálgun Intervoice til að hjálpa fólki að takast á við yfirþyrmandi raddir er að leggja til að raddheyrendur gefi röddunum pláss, hlusti á þær en fylgi ekki endilega eftir því sem þær segja. Þau telja að fólk geti lært að stjórna röddunum á eigin forsendum og í samræmi við eigin viðhorf en að samþykkja raddskynjun skipti sköpum til að geta stjórnað henni. Margir raddheyrendur sem hafa notað þessa nálgun segja að raddirnar séu hluti af þeim sem einstaklingum, fólk læri þá hvernig það getur stýrt þeim eftir sínum þörfum og verið sjálft virkir þátttakendur í eigin meðferð og bata. Með þessu viðhorfi og aðferð sé fólk að takast á við upplifunina (raddirnar) á jafningjagrundvelli, allir séu virkir og sáttir við meðferðina.
Paul Baker er meðstofnandi Intervoice-samtakanna sem voru sett á stofn árið 1990 og eru með höfuðstöðvar í London. „Formaður samtakanna er ung móðir frá Ástralíu og varaformaðurinn er geðlæknir frá Hollandi. Samtökin eru með flatt skipulag og heimasíðu á netinu. Samtökin séu líka stór í Bandaríkjunum sem er ánægjulegt því yfirleitt er hlutunum öfugt farið, við flytjum inn frá þeim. Samtökin hafa breiðst út víða um heim sem er ánægjulegt og við höfum haldið þing bæði í Evrópu og Suður-Ameríku.
Með stofnun samtakanna var kominn grundvöllur til að hafa umræðu og samskipti meðal fólks sem heyra raddir sem aðrir heyra ekki. Þetta var mikilvægt þar sem þetta var fyrir tíma netsins og erfiðara með öll samskipti. Við fundum út að grundvallaratriði til að skilja raddskynjanir sem reynsluheim fólks yrði að heyrast víða um heiminn og vildum að fólk yrði meðvitað um nýjar upplýsingar, bæði af rannsóknum og líka að það fengi praktískar upplýsingar. Það eru mjög lofandi niðurstöður sem gefa vonir um hvernig fólk geti lært að lifa með yfirþyrmandi og
erfiðum röddum sem þjakar það. Þar er ekki reynt að segja við fólk að maður viti svarið við vandamálum þess.“
Intervoice-samtökin voru mótuð og skipulögð sem góðgerðasamtök sem heyra undir bresk lög. Í stjórn samtakanna er fólk sem og sérfræðingar og við virðum þekkingu hvert annars.
Hvernig skýrir þú þessar raddskynjanir sem sumt fólk hefur? „Oft er fólki sem upplifir þetta sagt að þetta sé vitleysa í því, það jafnvel litið hornauga eða að það sé eitthvað geðrænt að því. Intervoice-samtökin vilja að fólk sem hefur reynsluna af því að heyra og sjá meira en aðrir skilgreini sjálft hvað þetta er og spyrji: Hvers vegna er það viðurkennt í okkar samfélagi að trúa á guð sem við getum ekki séð, snert eða heyrt í en trúum ekki að fólk heyri raddir og því sem þær segja? Hvers vegna er það talið vera blekking eða rugl og sjúkdómseinkenni þegar það hefur merkingu fyrir mig?“
Eftir spjallþátt í sjónvarpi þar sem fólk sem heyrði raddir og naut ekki geðþjónustu var beðið um að hafa samband þá vakti það furðu hversu margir heyra raddir og líta ekki á þær sem vandamál. Það kom fleira í ljós.
„Það var ekki tiltakanlegur munur á hvernig fólk leit á upplifun sína á röddum eftir því hvort það var með geðrænan vanda eða ekki, sem kom á óvart. Við fundum út að eftir því hvaða augum það leit raddirnar, hvort það samþykkti þær eða ekki, að það tengdist þeim menningarheimi sem fólkið kom úr. Neikvæðar og kvíðafullar raddir eru mun fátíðari í samfélögum þar sem ekki er litið á upplifunina sem slæmt fyrirbæri. Raddirnar eru taldar tengjast einstaklingum með alvarlega geðsjúkdóma, einstaklingum sem eru hættulegir og þetta er reynsla sem hefur slæman stimpil, einkum í vestrænum samfélögum. En ef þú horfir til 18 ára stráka, þá eru þeir miklu hættulegri og líklegri til að valda þér skaða en þetta fólk.
Þetta er í raun mjög óréttlátt og hefur valdið því að fólk hefur ekki tjáð sig um raddskynjanir sínar og mikil þögn ríkt um þær. Við kennum fólk með raddofskynjanir við ákveðnar persónur úr sögunni eins og Jóhönnu af Örk, Gandhi og Martin Luther King yngri og það er talað um að menn hafi heyrt raddir eða raddir talað við menn í Biblíunni. Í sumum samfélögum, eins og indíánasamfélögum, var litið á það að heyra raddir sem raddir framliðinna anda. Það er mikilvægt að skoða þetta út frá menningu í samfélögum og tilgangslaust að segja að þetta sé bara ofskynjun, þá kemstu ekkert áfram með þetta fyrirbæri.“
Það var hollenskur geðlæknir sem komst að því að sjúklingar sem heyrðu raddir voru aldrei spurðir út í samhengið, þ.e. hvenær þeir heyrðu raddir. Hann fann út að raddirnar lýstu dýpri vanda.
Hvar liggja orsakir þess að heyra raddir hjá þeim sem ekki eru greindir með geðsjúkdóm? „Áföll og einnig áföll sem hefur ekki verið unnið úr. Ef manneskja getur tilgreint hvað leiddi til þess að hún fór að heyra raddir þá er það oftast eitthvert áfall eða atburður sem hafði slæm áhrif, misnotkun, andleg eða tilfinningaleg, eða eitthvað slæmt sem átti sér stað í skóla. Andlát foreldris getur til að mynda líka hleypt þessu af stað en þá skiptir máli að virða og hafa skilning á þessu.“
Heldur fólk áfram að skynja raddir þó að það jafni sig eftir áfall? „Já, en stundum vill fólk losna við vondar raddir og leyfa þeim sem eru góðar að vera áfram. Það er breitt róf bæði aldurs fólks sem heyrir og byrjar að heyra raddir og líka hvers kyns þær eru.“
Paul segir að þó að upplifunin geti valdið óþægindum þá eigi þær ekki að hans dómi að snúast um hvort sérfræðingar hafi einhver ráð til að lækna þær. Þetta ætti frekar að snúast um að viðurkenna þessa skynjun sem hluta af viðkomandi manneskju. „Þannig höfum við hjá Intervoice getað unnið með fólki á grundvelli þess sjálfs sem er margvíslegur, þetta snýst um að sýna þessum raddskynjunum virðingu. Við vitum um fólk sem hefur tekið lyf og berst árum saman við að losna við raddirnar en mér finnst að þetta verði að skoða út frá því hvaða þýðingu og tilgang þessar raddir hafa fyrir viðkomandi, sem er misjafnt.“
Paul segir að það sé algengt að fólk sem heyri raddir sé greint með geðrænar áskoranir. „Ef þú ferð til geðlæknis og segist heyra raddir þá er líklegast að þú fáir greiningu hjá honum þó að það sé ekki alltaf þannig. Yfirleitt myndi greiningin vera geðrof eða geðklofi. Í tilfellum geðsjúkdóma eins og geðklofa er ekki hægt að taka blóðsýni og gera mælingu sem gefur til kynna að viðkomandi sé með sjúkdóminn eins og er með líkamlega sjúkdóma, greining á geðsjúkdómum er byggð á klínísku mati og prófum, þ.e. viðtölum og skoðun.“ Paul segir að sterk lyf sem notuð séu við alvarlegum geðsjúkdómum eins og geðklofa hafi mjög neikvæðar aukaverkanir.
„Lyf sem eru notuð við geðklofa eru mjög sterk og þau valda aukinni þyngd hjá viðkomandi, persónuleikinn verður flatur o.fl. Lyf ætti að nota til skemmri en ekki lengri tíma en margir eru á þessum lyfjum lengi og heyra samt raddir. Þetta fólk deyr fremur ungt, allavega yngra, eða um 10 árum fyrr en aðrir og þess vegna er svo mikilvægt að koma með eitthvað fleira að borðinu og sinna þessu fólki betur, til dæmis með samtökum eins og Intervoice.
Ef við getum gert það þannig að fólk geti lifað sátt með sínum röddum þá er það mjög mikilvægt.“