Aðalfundur Landssamtakanna Geðhjálpar verður haldinn í N1 höllinni á Hlíðarenda í sal 2 á annarri hæð, þriðjudaginn 25. mars kl. 16.
Ég er 55 ára. Hef verið í vandræðum með sálina frá táningsaldri. Hef unnið þó nokkuð að geðheilbrigðismálum í gegnum tíðina.
Hef starfað með hópum og félagasamtökum. Hef ritað greinar og komið fram í fjölmiðlum. Hef tekið þátt í ráðstefnuhaldi og haldið ýmsa fyrirlestra um geðheilbrigðismál.
Hef ekki starfað mikið með öðrum síðustu 10-15 ár. Er einstæður faðir og það hefur tekið minn tíma. Hef áhuga á að koma aftur á sjónarsviðið til að leggja mitt af mörkum.
Hef reynslu af geðheilbrigðismálum á ýmsum stöðum. Sem einstaklingur og notandi, sem ráðgjafi og í jafningastuðningi og sem faðir.
Ég heiti Hallgrímur Hrafnsson og starfa sem jafningi í geðrofs og samfélagsgeðteymi Landspítalans. Ég hef eigin reynslu sem notandi geðþjónustu síðan 1998 og hef séð ýmsar góðar breytingar í geðþjónustu síðan þá en tækifærin til bóta eru enn mörg og brýn.
Ég er virkur þátttakandi í samfélagi jafningja, ég hef oft séð hve öflug okkar nálgun getur verið og hef mikla trú á jafningjasamfélaginu sem hefur verið að blómstra síðan byrjun árs 2023.
Ég hef á undanförnum tveimur árum öðlast mikinn áhuga á geðheilsu og umbótastarfsemi í þágu notenda geðsviðs og hef á þeim tíma sótt ýmsar ráðstefnur, vinnustofur og málstofur bæði í persónu og á netinu varðandi betri leiðir í geðþjónustu. Sú reynslu hefur veitt mér byr undir báða vængi hvað varðar mögulega framtíð geðþjónustu á Íslandi og víðar.
Ég trúi á einstaklingsbundin bataferli þar sem hver og einn fær tækifæri til að feta sína eigin slóð í átt að betra lífi.
Ég er einnig í fjarnámi hjá Yale háskóla í bandaríkjunum að læra breytingastjórnun fyrir fólk með lifða reynslu og ætla mér að nýta það nám til ýmissa verkefna í samstarfi við jafningja, félagasamtaka og Landspítala.
Ég býð mig fram í stjórn Geðhjálpar vegna þess að ég vill bæta geðrækt og vinna gegn fordómum á Íslandi.
Ég heiti Jón Ari Arason og vil gjarnan gefa kost á mér til áframhaldandi setu í stjórn Geðhjálpar. Ég hef haft gagn og gaman af því að varamaður í stjórn og vil gjarnan fá meiri tíma til að koma fleiru í verk.
Ég hef um langt árabil, með hléum þó, verið áhugamaður um geðrækt, geðvernd, og geðheilbrigði almennt, og hef starfað á því sviði bæði sem sjálfboðaliði innan ýmissa félagasamtaka og starfsmaður hjá Hlutverkasetri og á geðsviði Landspítalans. Jafnframt hef ég persónulega reynslu af því að veikjast á geði og að ná bata.
Ég var einn af upprunalegu stofnendum Hugarafls þar til leiðir skildu 2006. Á þessum tíma uppgötvaði ég þörf á að styðja aðra í svipaðri stöðu í sínu bataferli ásamt því að hvetja fagfólk og notendur til að bera saman bækur sínar í meiri mæli en tíðkaðist áður. Ég er á því, enn í dag, að með samstarfi þessara hópa í góðri trú, þar sem fagfólk mæti lífsreynslu notenda með samkennd og notendur mæti vísindastarfi og þekkingu fagfólks af virðingu, geti valdið straumhvörfum í þessum málaflokki.
Ég heiti Sigrún Sigurðardóttir, Ísfirðingur í húð og hár. Ég er sjálfstæð og þakklát þriggja barna móðir. Ég er menntuð lögreglumaður og hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu frá HA í heilbrigðisvísindum og doktorsgráðu í hjúkrunarfræði frá HÍ, með áherslu á áföll og ofbeldi, afleiðingar og úrræði. Ég hef einnig lokið námskeiðum sem Kundalini jógakennari, í dáleiðslu og er nú að vinna í að læra að vera hugleiðslukennari hjá dr. Deepak Chopra.
Ég starfa sem prófessor við Háskólann á Akureyri þar sem ég kenni um áföll, ofbeldi og áfallamiðaðað nálgun. Ég hef haldið námskeið víða um land um það efni. Ég sit í stjórn Bergsins headspace og kom að stofnun þess og Bjarmahlíðar, úrræða fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Ég sit í stýrihóp fyrir Okkar heim og sit í fagráði um sjálfsvígsforvarnir á vegum Embættis landlæknis.
Ég hef setið í stjórn Geðhjálpar síðustu tvö ár og hef notið þess að taka þátt í því faglega starfi sem þar er. Ég býð mig því aftur fram til stjórnar. Mitt áhugasvið er sérstaklega tengt ungu fólki og geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ásamt áfallamiðaðri nálgun sem ég hef mikinn áhuga á að innleiða á sem flestum sviðum. Ég legg áherslu á að spyrja „hvað kom fyrir þig?“ í stað „hvað er að þér?“
Ég hef einbeitt mér að mannréttindamálum sem eru og þurfa að vera í forgangi hjá Geðhjálp. Í mörg undanfarin ár hef ég verið fulltrúi Geðhjálpar í nefndum og vinnuhópum er varða þessi mál og þar með innleiðingu Sáttmálans um réttindi fólks með fatlanir.
Með sáttmálanum fáum við styrk og stuðning í baráttunni gegn valdbeitingu og ofbeldi sem við og okkar fólk hefur mátt sæta og gerir enn. Við höfum náð nokkrum árangri, en enn er langt í land. Ég býð mig fram til að vinna áfram að þessum málum og öðrum mikilvægum málaflokkum okkar öfluga félags.