10. desember 2024

Alþjóðlegur dagur mannréttinda 10. desember

Ráðstefnan: Þörf fyrir samfélagsbreytingar 2025

Alþjóðlegur dagur mannréttinda er í dag 10. desember. Af því tilefni tilkynna landssamtökin Geðhjálp ráðstefnuna: Þörf fyrir samfélagsbreytingar 2025 – nýjar leiðir í geðheilbrigðismálum, sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica dagana 15. og 16. maí nk.

Á þessari tveggja daga ráðstefnu verður gestum boðið að kynna sér önnur sjónarmið en þau sem hafa verið ríkjandi í geðheilbrigðismálum.

Fyrirlesarar eru aðilar sem hafa beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir breyttri nálgun í geðheilbrigðismálum. Auk þeirra mun fólk með reynslu af tilfinningalegri vanlíðan og/eða fíkn leiða vinnustofur.

Við vonumst til þess að fólk, sem lætur sig geðheilbrigðismál varða, mæti og deili hugmyndum og taki þátt í nýsköpun og framþróun í málaflokknum. Við bjóðum leikmenn jafnt sem fagfólk velkomið.

Upplýsingar um viðburðinn

Fimmtudagur 15. maí: Vinnustofur frá 9:00 til 16:00
Föstudagur 16. maí: Ráðstefna frá 9:00 til 16:00

Gestafyrirlesarar sem hafa verið tilkynntir:
Will Hall, Caroline Mazel-Calton og Trevor Eyles.

Verð í forsölu sem gildir til 20. janúar 2025:
Verð fyrir báða daga: 23.900 kr. en 6.000 kr. fyrir námsmenn og öryrkja. Verð fyrir föstudag: 12.900 kr. en 4.000 kr. fyrir námsmenn og öryrkja.

Sjá nánar á www.socialchange.is

Mannréttindi og geðheilbrigðiskerfið

Einn af hornsteinum starfs landssamtakanna Geðhjálpar snýr að mannréttindum fólks með geðraskanir eða eins og segir í stefnu samtakanna: „Við stöndum vörð um réttindi fólks með geðraskanir og beitum okkur í þágu þeirra og aðstandenda.“ Í dag er það því miður svo að á Íslandi er daglega brotið á mannréttindum fólks sem býr við geðrænan vanda. Það er því ljóst að ýmislegt þarf að laga þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu. Það þarf vissulega að endurnýja húsnæði og gera umhverfi aðlaðandi en lykillinn að því að tryggja mannréttindi er að breyta þeirri hugmyndafræði sem unnið er eftir í geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi.

WHO alþjóðlega heilbrigðisstofnunin hefur að undanförnu lagt áherslu á mannréttindamiðaða geðheilbrigðisþjónustu sem tekur m.a. mið af rannsóknum þar sem raddir þjónustuþega eru hluti af gagnreyndri þjónustu. Þjónustan snýst um valdeflingu, að gefa fólki raunverulegt val, er áfallamiðuð og að hluti starfsfólks eru jafningjar þ.e. fólk með reynslu af að hafa nýtt geðheilbrigðisþjónustuna. Síðast en ekki síst snýst þjónustan um að leita allra leiða til að koma í veg fyrir þvingun og nauðung.

Rannsóknir á mannréttindamiðaðri þjónustu draga fram mikilvægi jafningjastuðnings og á hvern hátt sé hægt að uppræta valdbeitingu og þvingun. Þær draga fram mikilvægi skjólhúsa og opinna samræðna (open dialouge) sem nýrra leiða við geðþjónustu og bæta þannig réttindi og félagslega stöðu þjónustuþega. Þær draga einnig  fram mikilvægi þess að þjónustuþeginn sjálfur stýri ferðinni í krísu-  og einstaklingsáætlunum. Geðhjálp hefur boðið heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytum til samtals um að koma á laggirnar skjólshúsi í samstarfi við samtökin. Geðhjálp hefur boðist til að leggja fram 50 m.kr. stofnframlag auk þess að leggja rekstrinum til 25 m.kr. á ári í þrjú til fimm ár.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram