Barnaverndarstofa sendi í gær frá sér skýrslu um fjölda barnaverndartilkynninga á árunum 2022 til 2024. Skýrslur og annað sem kemur út á vegum stjórnvalda á tímabilinu 15. júní til 15. ágúst, fær nær enga athygli í samfélagsumræðunni eða í þingsal vegna sumarleyfa. Þannig var það einmitt með skýrslu Umboðsmanns Alþingis um einkarekin úrræði fyrir börn, sem kom út í júlí 2024 og fékk litla umfjöllun þrátt fyrir hreint sláandi upplýsingar um hvernig farið er með börn á Íslandi.
Sama var upp á teningnum með skýrslu Ríkislögreglustjóra „Ofbeldi barna – staðan og áskoranir“, sem kom út í lok júní það ár, en myndin sem þar var dregin upp af stöðu mála var kolsvört. Þingið er vissulega að störfum í dag en það verður að teljast harla ólíklegt að svört skýrsla Barnaverndarstofu falli undir skilgreiningu þingmanna um það hvað sé „heilög skylda“ þeirra að fjalla um eins og þingmaður komst að orði á dögunum. Börn eru jú hvorki veiðigjöld né öryggis- og varnarmál.
Þegar skýrsla Barnaverndarstofu er skoðuð þá er endurspeglar hún þau rauðu blikkandi ljós sem mátti lesa greina í skýrslunum tveimur sem og í öðrum geðheilsuvísum sl. áratug. Vanlíðan, ofbeldi og geðlyfjanotkun barna hefur aukist verulega á örfáum árum. Hér verður fjallað um þann hluta skýrslunnar sem fjallar um áhættuhegðun barna.
Árið 2022 bárust barnaverndarnefndum landsins 3.942 tilkynningar sem flokkaðar voru sem áhættuhegðun barna. Árið 2023 voru þær 4.931 og í fyrra voru tilkynningarnar 5.648.
Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði því samtals um 43% á tímabilinu, 41% hjá drengjum og 47% hjá stúlkum. Það eru nokkrir undirflokkar í áhættuhegðun barna en þrír skoðaðir nánar hér: áfengis- og vímuefnaneysla, afbrot og barn beitir ofbeldi. Áfengis- og vímuefnaneysla barna hefur aukist sl. ár og íslenska leiðin í forvörnum, sem við höfum ferðast með og kynnt út um allan heim sl. tvo áratugi, virðist hafa verið siglt í strand eða er hreinlega sokkin. Tölurnar í skýrslu Barnaverndarstofu sýna það svart á hvítu. Tilkynningum um áfengis- og vímuefnaneyslu barna fjölgaði um 72% og fjölgaði um 57% hjá drengjum og 93% hjá stúlkum. Afbrota- og ofbeldistilkynningum fjölgaði um 35% til 47% og var aukningin mest hjá stúlkum.
Það verður að segjast eins og er að á tímum farsældar og fagurgala um að sérstök áhersla sé á málefnum barna og geðheilbrigði eru þessar niðurstöður beinlínis afhjúpun þeirrar staðreyndar að keisarinn er ekki í neinum fötum. Ástandið á Stuðlum, vistun barna í fangaklefum, brottfall barna úr skólum, skýrslurnar sem vitnað var til frá árinu 2024 o.m.fl. staðfesta þetta klæðaleysi.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar má lesa eftirfarandi fyrirheit í tengslum við geðheilbrigðismál og börn:
Hvað varðar að efla aðgengi barna og ungmenna að íþróttum, listum og frístundastarfi þá er í sömu fjármálaáætlun dregið úr framlögum til málaflokksins um 3,5 ma.kr. á tímabilinu. Sóknin í málefnum barna og áherslan á bætt umhverfi þeirra er verðlögð með sparnaði upp á 1,5 ma.kr. Það á einnig að efla forvarnir með því að draga úr framlögum til málaflokksins um 700 m.kr. tímabilinu. Það segir sig sjálft að aðgengi verður ekki aukið, umhverfi barna verður ekki bætt og forvarnir ekki efldar með tæplega 10% niðurskurði fjármagns. Framlög í forvarnir, lýðheilsu og umhverfi barna í grunnskólum eru skorin niður um samtals 5,7 ma.kr. Á sama tíma er gert ráð fyrir 11 ma.kr. innspýtingu til öryggis- og varnarmála. Börn eru alla vega ekki öryggis- og varnarmál – það er alveg ljóst.
Allt það sem kemur fram í skýrslunum þremur sem hér hafa verið nefndar er dæmi um einkenni ástands. Orsakirnar liggja víða en einkennin eru hér beinlínis að öskra á okkur að bregðast við. Við höfum hingað til hent milljörðum á milljarða ofan í aðgerðir til höfuðs þessum einkennunum en lítið sem ekkert gefið orsökunum gaum. Við getum ekki lengur reynt að lyfja okkur frá þessum vanda eða sópa honum undir teppið með því t.d. að senda börn á einkareknar stofnanir sem fá falleinkunn þá sjaldan eftirliti er sinnt. Með því erum við í besta falli að fresta vanda en líklega að auka hann verulega með tilheyrandi harmi og gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir samfélagið. Förum því fyrir ofan fossinn í stað þess að halda áfram á þessari leið. Einbeitum okkur að orsökunum – við gætum t.d. byrjað á þessu:
Höfundur: Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar