Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og stjórnarmaður í Geðhjálp, segir að of mikið sé um nauðungarvistun og aðra valdbeitingu gagnvart fólki með geðsjúkdóma. Hann segir nauðungarmeðferð geta haft langvarandi áhrif til hins verra auk þess sem hún svipti fólk mannlegri reisn. Hann telur að lögin veiti geðlæknum of rúma heimild til að beita nauðungarmeðferð og sér í lagi lyfjagjöf með valdi. Það bjóði hættunni heim að misbeita slíku valdi, og að sú meðferð sem nauðungarvistun er sé ekki til þess fallin að hjálpa viðkomandi, aðrir þættir þurfi að koma til svo viðkomandi fái bata, nauðungarvistun sé vart meðferð.
Hvert telur þú að mikilvægi rannsóknarverkefnis Sigurðar Páls Jósteinssonar sé og niðurstöður þess? „Það er mjög mikilvægt að ná utan um þetta mál og gera sér grein fyrir hversu mikið er um nauðungarvistanir og aðra valdbeitingu gagnvart þeim sem grunaðir eru um geðrænar áskoranir. Ég minnist þess ekki að áhrif nauðungarvistunar hafi verið skoðuð jafn vel og hjá Sigurði Páli. Mér finnst niðurstöðurnar í rannsóknarverkefni hans eðlilegar og mikilvægt að þær komi fram; að nauðungarvistun hafi haft veruleg áhrif á einstaklingana þegar þeir litu til baka, að þeim hafi fundist þeir vera sviptir mannlegri reisn, þurft að sæta þvingaðri lyfjagjöf og að húsnæðið sé ekki til þess fallið að bæta ástandið á nokkurn hátt. Það er enginn vafi á því að um langa hríð og enn í dag er verið að beita þvingunum og jafnvel ofbeldi eins og að sprauta fólk með valdi. Þetta viðgengst og hefur gert lengi og mikilvægt að um þetta sé fjallað. Það er von að fólk upplifi það sem skerðingu á sinni mannlegu reisn.“
Sveinn Rúnar segist þekkja nauðungarvistun af eigin raun. „Í þau skipti sem ég lagðist inn var þessu beitt og ég vil meina að ég geti sýnt fram á að það hafi verið algjörlega ónauðsynlegt. Síðast þegar ég kom inn á geðdeild árið 1985 var ég fluttur sjúkraflutningi frá Húsavík og með mér í för voru lögreglumaður og sýslumaðurinn, vinur minn Sigurður Gissurarson sem nýtti ferðina og fékk að vera samferða. Þegar við lentum var ég orðinn býsna svangur. Ég hafði neitað að þiggja nokkuð á lögreglustöðinni á Húsavík í nærri sólarhring svo ég segi við Sigurð: Hvað segir þú um að við fáum okkur að borða á teríunni á flugvellinum þegar við lendum? Þegar við komum út úr flugvélinni gekk ég rösklega út fyrstur og segi hress við strákana í lögreglubílnum sem áttu að flytja mig á deildina: Við ætlum aðeins að fá okkur snarl, er það ekki í lagi? Jú, jú.
Ég sný mér við en þá hafði sýslumaðurinn komið á hæla mér og loks lögreglumaðurinn. Þegar sýslumaðurinn ætlaði að ganga í bygginguna stukku lögreglumennirnir á hann – héldu að þetta væri ég. Og sagan barst til Húsavíkur um að lögreglan hefði ruglast á sýslumanni og Sveini Rúnari, að sýslumaðurinn væri á geðdeildinni og Sveinn Rúnar gengi laus. Þegar ég kom síðan upp á geðdeild beið mín geðlæknir sem talaði ekki við mig eina mínútu heldur lét strax kalla á sex til sjö stóra stráka, teymi, sem nú er kallað varnarteymi, en fyrir mér er það árásarteymi sem ræðst á sjúklinginn og heldur honum á meðan hjúkrunarfræðingur sprautar hann með valdi.“
Sveinn Rúnar segist engu að síður hafa átt gott samband við geðlækninn og að sér hafi þótt gott að vera á geðdeildinni, þrátt fyrir ýmsa vankanta, en að meðferðin hafi ekki átt stoð í lögum og reglum og hann telur sitt tilfelli ekki vera undantekningu. „Einu sinni sem oftar hitti ég þennan lækni á Læknadögum og spurði hann út í þessi viðbrögð hans. Hann svaraði að þetta hefði verið hans aðferð til að koma sjúklingnum í svefn sem fyrst og til að fyrirbyggja að það kæmist órói á deildina. Þessar ástæður eru ólöglegar og ekki í samræmi við lög eða reglur. Í 28. grein lögræðislaganna er gefin undanþága til að gera þetta ef líf liggur við, þ.e. ef viðkomandi er hættulegur sjálfum sér eða öðrum.
Ég tel að mitt tilfelli sé ekkert einsdæmi og hef heyrt frá félögum sem hafa lent í því sama að þegar svona heimild er fyrir hendi hjá vakthafandi geðlækni þá sé alltaf hætta á að hún sé misnotuð eins og er með hvert annað vald yfir öðru fólki. Ég segi fyrir mitt leyti að mér þótti út af fyrir sig gott að vera á geðdeildinni en auðvitað voru þær lítillækkandi þessar ströngu reglur sem voru settar og taldar vera til góðs. Ég fékk ekki að fara fram að borða með öðrum nema með samþykki hjúkrunarfræðings, ef maður var talinn vera hæfur í það eftir ákveðinn tíma. Ég var í raun lokaður inni á herbergi með tvo vaktmenn við dyrnar dag og nótt. Maður hafði ekki aðgang að síma ef maður vildi hringja í aðstandendur eða lögfræðing en slík leyfi eru veitt þegar fram í sækir. Tóbakið var tekið af fólki og svo skammtað. Síðan var þér hótað að ef þú tækir ekki lyfin þá yrðir þú sprautaður og það var staðið yfir þér til að fylgjast með að þú tækir þau.“
Niðurstöður rannsóknarverkefnis Sigurðar Páls varpa ljósi, að mati Sveins Rúnars, á hversu mikil áhrif nauðungarvistun hafi á einstaklinga til langs tíma, sem sé mikilvægt því of mikil þögn hafi ríkt um nauðungarvistun hér á landi. „Fyrir mér er rannsóknarefni Sigurðar Páls mjög mikilvægt því það hefur ríkt of mikil þögn um þessi mál og litlar aðgengilegar upplýsingar til um hversu útbreidd nauðungarvistun er og hversu oft ofbeldi eða annarri þvingandi meðferð er beitt,“ segir Sveinn Rúnar. „Sigurður Páll gerir hér tilraun til að varpa ljósi á þau mál. Mér finnst áhugavert það sem kemur fram hjá honum um niðurstöðurnar – en hann fær frá þátttakendum lýsingu á því hvaða áhrif og afleiðingar svona nauðung og þvinganir hafi bæði í bráð og til lengri tíma litið.“
Sveinn Rúnar segir aðspurður um hvers vegna hann telji að nauðungarvistun sé beitt í vaxandi mæli, að ástæðan sé m.a. sú að reglur um nauðungarvistun séu „losaralegar, þær auðveldi geðlæknum að nauðungarvista og að framlengja nauðungarvistun.“ Hann hefur setið í ýmsum nefndum og vinnuhópum um þessi mál í gegnum árin og segir að breytingar sem gerðar hafi verið um nauðungarvistun séu ekki endilega til góðs.
„Ég minnist þess að þegar umræðan var um að losa fjölskylduna út úr þeim aðstæðum að nauðungarvista ástvin vegna þess hve slæm áhrif það gæti haft á fjölskylduna, bæði þann nauðungarvistaða og þann sem lætur nauðungarvista. Persónulega var ég ekkert endilega á því að gera það og sá ákveðna ókosti við að taka fjölskylduna út í þessu sambandi og setja félagsþjónustuna í staðinn en kannski gerði ég of mikið úr því. Ég tel að eftir að hlutverkið lenti hjá félagsþjónustunni hafi þetta ferli orðið mjög ópersónulegt því sjúklingurinn er kominn inn á deild og læknir lætur vita af honum til að fá beiðni frá félagsþjónustu sveitarfélaga um nauðungarvistun. Aðili þar, sem þekkir kannski ekkert til viðkomandi sjúklings, fær bara einhverjar upplýsingar frá lækni. Þetta er nánast eins og sjálfsali.
Þetta finnst mér ekki vera af hinu góða, þetta er kannski ekki alltaf svona en það er þannig að fjölskyldan er þrátt fyrir allt, og hlýtur að vera, stór þáttur í þessu ferli. Það er ekki hjá því komist ef menn eiga fjölskyldu, nána vini eða hafa heimilislækni, sem eru þeir aðilar sem hafa samband á geðdeildina ef innlagnar er þörf. Það er búið að gera þetta ópersónulegra með því að færa þessa heimild yfir á félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta er þó það eina sem kom út úr breytingum sem gerðar voru um nauðungarvistun í lögræðislögum, til þess að gera, fyrir nokkrum árum. Sumir tóku þessu hins vegar fagnandi.
Við fengum líka aðrar breytingar á þessum tíma sem liðkuðu fyrir hjá geðlæknum til að nauðungarvista. Tími nauðungarvistunar var lengdur úr 48 klst. í 72 klst. án dómsúrskurðar. Það var líka gert mjög auðvelt fyrir að framlengja þetta, í allt að 12 vikur. Mér finnst að öll nauðung hafi verið gerð auðveldari með þessum breytingum og þær alls ekki orðið til batnaðar. Og það eru breytingar sem hafa orðið og eru í gerjun sem eru ekki endilega til bóta. Áður var það þannig að nauðungarvistun var ekki leyfð nema um væri að ræða að viðkomandi sjúklingur væri hættulegur sér eða öðrum. Þessu var breytt í umbótum sem ég tel að hafi ekki verið til bóta og í losaralega skilgreiningu á ástandi sjúklings, það var talað um að viðkomandi ætti við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða eða væri í ástandi sem minnti á það.
Á sama hátt hafa komið fram tillögur varðandi 28. gr. lögræðislaganna sem mér finnst að ættu að fara burt. Hún veitir vakthafandi geðlækni heimild til að beita sjúklinginn ofbeldi til að sæta þessari þvinguðu lyfjagjöf. Núna er þetta háð því í lögunum að viðkomandi sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum eða lífi og heilsu sé ógnað. En tillögur eru um að það fari út og í staðinn eigi að koma mjög losaraleg skilgreining á þessu þar sem jafnvel viðkomandi sinnti ekki persónulegum þörfum, eins og að borða sem skyldi, persónulegu hreinlæti, bursta tennur og fleira.“
Sveinn Rúnar segist taka heils hugar undir með því sem fram kemur í ritgerð Sigurðar Páls um að virðing sé nauðungarvistuðu fólki mikilvæg, sjúklingar séu mjög viðkvæmir á þessu stigi. „Þegar maður er sjúklingur á geðdeild þá er virðing það sem skiptir miklu máli. Maður sér læknana aldrei eða sálfræðing en það sem skipti mig mestu máli voru sjúkraliðarnir, oft eldri konur, og gæslumenn, mest karlar. Þetta fólk reyndist mér vel og kom vel fram við mig. Þegar maður er jafn berskjaldaður og maður er í nauðungarvistun þá skiptir framkoma og virðing svo miklu máli og auðvitað hlýja og skilningur. Ég á þessu fólki mikið að þakka og hef fengið að sjá sumt af því á stofu hjá mér sem heimilislæknir.“
Aðspurður um hver sé þá ávinningurinn af nauðungarvist segist Sveinn Rúnar telja að oft sé fólk innan fjölskyldna komið í öngstræti með veikan aðila og að nauðungarvistun snúist frekar um öryggisþörf lækna gagnvart sjúklingum fremur en að hún sé leið til bata fyrir sjúklinginn.
„Ég held að þetta sé öngstræti í erfiðleikum í samskiptum innan fjölskyldu eða gagnvart sínum nánustu og oft er fólk býsna veikt og aðstandendur geta orðið hræddir og leita þá til lækna. Þá er því bent á þetta sem leið til að koma fólki á sjúkrahús. Að mínu mati er þó nauðungarvistun fyrir vald geðlækna en ég tek fram að ég á marga góða vini í hópi geðlækna og met þá mikils. Á hinn bóginn þá erum við hjá Geðhjálp aftur og aftur að lenda í stríði um þetta yfirvald á geðdeildinni og þar með oft Geðlæknafélagið, þegar við teljum okkur hafa náð fram umbótum þar sem valdi sé beitt, að það verði ekki gert nema í algjörum undantekningartilvikum og að þá sé líka fenginn annar óháður læknir til að meta stöðuna.
Við höfum líka talað um sérfræðiteymi sem hafi með þessi mál að gera og sé kallað til sem ráðgefandi fyrir þessa meðferð. Í nefndarstarfi höfum við oftar en einu sinni náð niðurstöðu varðandi umbætur á löggjöfinni, með hjálp frábærra manna í ráðuneytunum, ég verð að fá að nefna hér Hermann Sæmundsson og Sigurð Kára Árnason. Við höfum unnið að þess háttar umbótum en þær stranda alltaf á yfirlækni á geðdeildinni og Geðlæknafélaginu. Við höfum ítrekaða reynslu af þessu. Geðlæknar eru í ákveðinni stöðu gagnvart sjúklingum, þeim finnst þeir einir vita best og verði að taka völdin af sjúklingnum og þess vegna fjölskyldu hans líka. Þetta er yfirdrifin öryggisþörf en þessar stéttir hafa lengi verið valdboðandi og menntast þannig.“
Hvernig viltu að sé unnið í þessum málum? „Það er erfitt að segja. Það sem þarf að gera eru heilmiklar umbætur þó ekki sé nema í húsnæðismálum. Þó að þau skori ekki jafnhátt og ýmislegt annað hjá mér þá er þetta þáttur sem ég heyri frá mjög mörgum að sé mikilvægur í bataferlinu en þá vill maður líka að það sé búið að móta gjörbreytta stefnu. Meðferðarstefnan sem snýr einkum að nauðungarvistuðum er fyrst og fremst bara innilokun, einangrun og lyfjameðferð. Dagurinn líður á milli máltíða, kaffiveitinga og lyfjagjafa.
Manneskjan er þannig af guði gerð að henni batnar af sjálfu sér og jafnvel þótt hún sé að fá slæm lyf. Ég tek undir að takmörkuð samskipti geta hjálpað fólki tímabundið en það má ekki vera á kostnað brota á rétti fólks. Það verður að vera í samvinnu við fólk. Meðferð verður að byggja upp þar sem virðing er númer eitt og nauðung kemur ekki til greina. Það yrði að vera í algjörum undantekningartilvikum, þar sem líf er í hættu.“
Sveinn Rúnar hefur orðið margs vísari í gegnum nefndarstörf sín fyrir Geðhjálp. „Í einni slíkri nefnd sat ég áfram með geðlækni sem ég met mikils og hann fór að ræða við mig sína persónulegu reynslu af nauðungarmeðferð. Hann sagði að í öll þau ár og áratugi sem hann hefur starfað sem geðlæknir og verið á vöktum á geðdeildinni og á Kleppi þá hafi hann aðeins í tvígang kallað á þetta svokallaða varnarteymi. Þegar hann fór að skoða þessi tilvik þá sá hann að ástæðan var sú að það var langt liðið á nótt og hann orðinn óhemju þreyttur eftir sólarhringsvakt og hafði ekki orkuna í að taka það samtal sem þurfti. Hann tók algjörlega ábyrgðina á sig. Mér þótti vænt um þessa lýsingu.“
Að dómi Sveins Rúnars þarf að vinna áfram með niðurstöður í rannsóknarverkefni Sigurðar Páls, t.a.m. skráningu á nauðungarvistun og nauðungarmeðferð, sem sé nauðsynlegt til að fá vitneskju um tíðnina. „Það þarf að gera kröfur um betri skráningu á öllu sem varðar nauðungarvistun og valdbeitingu gagnvart sjúklingum. Á þetta hefur skort sem er ekki gott því við verðum að vita hversu útbreiddir þessir þættir eru. Við þurfum líka að hlusta á það sem svarendur hafa sagt um hver áhrif nauðungarvistunar séu á líðan, ekki síst til langs tíma, en nauðungarvistun er afdrifarík aðgerð og fólk á rétt á ráðgjöf á meðan það er inni og ætti að eiga kost á áfallahjálp eftir að það losnar af geðdeildinni.“
Hafa aðrar leiðir verið skoðaðar hér á landi í stað nauðungarvistunar? „Við verðum að trúa því og treysta að það sé ekki farið út í svona harða aðgerð eins og nauðungarvistun nema að það sé búið að reyna eitt og annað. Með því að þrengja skilyrði í stað þess að auðvelda, eins og gert hefur verið, þá þurfum við að skerpa á skilyrðum fyrir nauðung og að þetta sé ekki á hendi eins manns, vakthafandi geðlæknis. Það er víða í öðrum löndum sem þetta hefur verið gert þannig að það er farið fram á að það sé aðili frá annarri stofnun sem komi að svona mati.
Við vildum fá teymi sem kæmi að nauðungarvistun sem í væri mannréttindalögfræðingur, notandi með reynslu af nauðung og auðvitað geðlæknir. Það þarf að búa til aðrar leiðir og styrkja aðra valkosti. Einstaklingur sem er nauðungarvistaður þarf að finna að hann sé einhvers virði, sé sýnd virðing og umhyggja og hafi eitthvað að segja um meðferð sína.“
Hvað möguleika sérð þú að hægt sé að gera þegar fólk er í því ástandi að það geti skaðað sjálft sig og aðra? „Samanber það sem geðlæknirinn sagði, sem kallaði á varnarteymið í aðeins tvö skipti, að þetta hafi verið á hans ábyrgð, hann hafi ekki haft tíma og orku í að taka samtalið, þá þurfum við að skapa betri aðstæður þegar er verið að grípa inn í líf fólks á þennan alvarlega hátt. Þá er mjög mikilvægt á öllum stigum málsins að halda mannréttindi í heiðri. Það verður að vera grundvallaratriði.
Ef þú telur að þú verðir að grípa inn í líf einstaklings, þá séu til þess aðstæður og nægur menntaður mannskapur fólks með reynslu sem tekur þessi samtöl og að ákvörðunin byggi ekki á einum, kannski örþreyttum geðlækni heldur teymi sem hafi tíma, orku og aðstæður sem til þarf til að leysa málið án ofbeldis. Það á að vera hægt í nær öllum tilvikum. Það þarf flinkt fólk í það því þetta getur verið snúið. En það þarf að hafa aðstæðurnar til þess og mannskapinn til að sýna fólki þá virðingu sem það á skilið og ró og næði sem það þarf.“
Sveinn Rúnar segist ekki þekkja nægilega vel til hvernig þessum málum sé háttað í löndunum í kringum okkur en segir að það sé verið að reyna nýjar aðferðir þar sem fólk er ekki á hefðbundnum deildum. Hann vill að meðferð mjög veikra einstaklinga hér á landi sé breytt í grundvallaratriðum. Sums staðar er verið að opna umræðu (open dialogue) og reyna meðferð án lyfja.
„Það þarf að snúa frá þessu einhæfa lyfjamódeli í félags- og sálfræðimódel þar sem tekið er á móti fólki á allt annan hátt en gert hefur verið. Og það þarf að breyta líka aðstæðum, fá viðeigandi húsnæði og kringumstæður. Það þarf að styrkja mönnun á geðdeildum og auka hlut notenda sem geta haft verulega mikið að segja og ekki síst í sambandi við nauðungarvistun. Að viðkomandi finni að starfsfólk hafi skilning á því sem sjúklingurinn er að fara í gegnum.
Það þarf að styrkja þjónustu við aðstandendur þannig að þeir hafi aðgang að læknisþjónustu og annarri ráðgjafaþjónustu en það er oft þörf á slíku. Það þarf að bæta aðgengi þeirra að þjónustu geðdeildanna. Síðast en ekki síst þarf sjúklingurinn að vera miðja alls, þannig að meðferðin snúist um hann og velferð hans en ekki völd geðlæknisins.“