7. október 2024

Fengu öll aðra sýn á hvað væri mögulegt fyrir þau

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths er tónlistarkennari, stofnandi og listrænn stjórnandi MetamorPhonics sem er samfélagsmiðað fyrirtæki en verkefni hennar lúta að því að vinna með einstaklingum sem hafa lent í áföllum, eru heimilislausir eða glíma við geðrænar áskoranir, í gegnum skapandi tónlist og valdeflandi umhverfi. Korda samfónía er slíkt verkefni en það hefur gefist mjög vel.

Sigrún býr og starfar í London en verkefni hennar ná út um allan heim, Evrópu, Bandaríkin og Asíu þar sem hún leiðir skapandi tónlistarverkefni, einkum hjá jaðar­­­­­­­­settum hópum. Hún kennir við Guildhall School of Music and Drama og stýrir þar áfanga, Social Arts Practice, en Sigrún var fagstjóri Masters in Leadership-deildar þar frá 2008-2019. Hún hefur einnig verið gestakennari við Listaháskóla Íslands svo til frá stofnun hans. MetamorPhonics er samfélagslegt fyrirtæki sem skapar einstakt umhverfi fyrir tónlistarsköpun með nemendum á efri stigum tónlistarnáms og fullorðnum í bata. Fyrirtækið stofnar hljómsveitir í samvinnu við háskóla, sinfóníuhljómsveitir, starfsendurhæfingarstöðvar og góðgerðasamtök í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi en þar á verkefnið Korda samfónía uppruna sinn.

Sigrún útskrifaðist úr blásarakennaradeild Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 1990. Hún lærði á básúnu og píanó en fór til London árið 1997 í framhaldi af því. „Ég var tvístígandi varðandi það hvort ég ætlaði að verða básúnuleikari en ég hafði kynnst skapandi tónlist í gegnum Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Halldór Haraldsson skólastjóri bauð upp á það sem hann kallaði tónlistarmiðlun. Eitt árið komu kennarar frá Guildhall-tónlistarháskólanum, þeir Peter Renshaw, sem var hálfgerður guð­­­faðir þessa fags og stofnaði deildina við Guildhall um 1988, og Paul Griffiths, kennari við deildina, og héldu helgarnámskeið með nemendum Tónlistarskólans. Þar kynntist ég þessu fagi og núverandi manninum mínum,“ segir Sigrún og hlær. Ég fór svo ásamt Gunnari Ben til London að læra við þessa deild í Guildhall sem ég svo stýrði í 12 ár þar til henni var því miður lokað. Ég hafði tekið kúrs innan Guildhall sem var fyrir fólk með skapandi hugmyndir sem hugsanlega gætu orðið að sjálfstæðu fyrirtæki. Þegar deildinni sem ég stýrði var lokað árið 2019 var ég tilbúin með fyrirtækið MetamorPhonics en ég er enn í stjórnunarstöðu í Guildhall þannig að ég vinn þar tvo daga í viku og sé um valgreinar fyrir alla tónlistarnema frá 1. ári og inn í masters­­-nám í þessu fagi. Ég held háskólastarfi mínu við og það er mikilvægt, út á við gefur það mér vægi og mér finnst ég endalaust vera að læra; akademískt umhverfi hefur gífurleg áhrif á hvernig ég hugsa.“

Sigrún segir að með stofnun fyrirtækisins hafi hún fengið allt annars konar frelsi. „Ég starfa líka „freelance“, vinn fyrir Royal Philharmonic Orchestra og ýmis fyrirtæki en tvö aðalverkefni mín eru Metamor Phonics og Guildhall.“

Samfélagsmiðað fyrirtæki sem vinnur með jaðarsetta hópa út um allan heim

Segðu mér aðeins frá fyrirtæki þínu, hvert er markmiðið með því? „Nafnið á fyrirtækinu er leikur að orðum, tjáir einhvers konar umbreyt­­­­­ingu í gegnum tónlist. Ég hef starfað í rúm 25 ár við þetta fag, við að nota tónlist sem valdeflingu og leið til að tengjast fólki. Hugmyndafræðin á bak við fyrirtækið er sprottin út frá þeim faglega grunni sem ég hef eftir þessi ár sem ég vann út um allt í alls konar aðstæðum og stundum í verulega krefjandi aðstæðum eins og inni á geðdeildum fyrir börn og unglinga, í fangelsum, með fólki með sérþarfir og svo með almennum
borgurum, fullorðnum og börnum.

Hvers konar verkefni er Korda samfónían og hver er tilgangurinn með því? „Korda hljómsveitin var stofnuð árið 2021 og tónlistin sem Korda samfónía flytur er eingöngu frumsamin í sameiningu af meðlimum hljómsveitarinnar. Mig hafði lengi langað að stofna svona hljómsveit á Íslandi og ég hef unnið við þetta fag síðan 1999 en fann aldrei rétta flötinn til að koma verkefninu á fót. Ég fékk tækifæri til að stofna smiðju í samvinnu við starfsendurhæfingu á Suðurnesjum og þá kviknaði á perunni hjá mér.“ Sigrún segir að slíkar miðstöðvar sem gætu verið samstarfsaðilar séu úti um allt land. Þarna kynntist hún og samstarfsfólk hennar fólkinu þar og lögðu grunn að vinnu sem á eftir kom og varð að Kordu samfóníu.

Endurhæfingarstöðvar í Hafnarfirði, á Akranesi, Selfossi og Ísafirði komu inn í verkefnið en einnig var Hugarafl með á sínum tíma og í dag erum við í samtali við fleiri endurhæfingarstöðvar. Ég hef unnið við Listaháskóla Íslands nærri því frá stofnun hans og árið 2021 var ég í samtali við Tónlistarborgina Reykjavík, sem er enn einn aðalsamstarfsaðili verkefnisins, ásamt aðila hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við náðum einhvern veginn að nýta okkur þær óvenjulegu aðstæður sem komu upp vegna Covid-faraldursins og náðum að smeygja okkur fram hjá mismunandi öldum sem komu upp í honum.“

Þar sem engir tónleikar voru í gangi í Hörpu gátu meðlimir Korda samfóníu æft á sviðinu í Eldborg og haldið lokatónleikana þar en Sigrún segir það hafa verið mikla upplifun fyrir alla. „Við héldum tiltekinni fjarlægð og unnum í hópum, þetta var allt vel skipulagt. Þannig að fyrstu tónleikar Kordu samfóníunnar voru á sviðinu í Eldborg. Anna Hildur Hildibrandsdóttir, sem ég hafði kynnst í London, var mjög áhugasöm um verkefnið og vildi gera um það heimildamynd, sem úr varð. Myndatökumenn fylgdu okkur frá fyrstu æfingu og afraksturinn var heimildamyndin Ég sé þig um fyrsta ár hljómsveitarinnar sem sýnd var á RÚV í maí árið 2022. Debut-tónleikarnir í Eldborg 21. maí 2021 voru tilnefndir til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem viðburður ársins. Tónleikarnir voru teknir upp og búið er að gefa það efni út líka, þetta var því gífurlegt ævintýri fyrir alla sem að komu.“

Áhrifin óumdeilanleg

Aðspurð um hversu mikilvægt verkefni eins og Korda samfónían sé fyrir einstaklingana sem taka þátt segir Sigrún að áhrif þessa starfs séu óumdeilanleg. „Það fer stundum í taugarnar á mér þegar fólk segir: Þetta eru svo miklir töfrar, en það er þannig. Það er eitthvað sem gerist, fólk fær aukið sjálfstraust þegar það á þessi ótöluðu samskipti með tónlistariðkun og fær frelsi við að skapa allt á staðnum eins og við gerum í Kordu. Það er enginn með nótnamöppu sem segir: Þið verðið að kunna þetta til að taka þátt. Þannig að maður getur lagað verkefnið að einstaklingunum hverju sinni, hvað fólk getur gert og hvað er innan ramma þess, til dæmis tónlistarlegs skilnings, öryggis o.s.frv. Þú mótar verkefnið eftir því hverjir eiga í hlut og þá ertu alltaf að reyna að finna tengingu við það, þú hlustar gífurlega vel og bregst við öllu sem fólkið gefur þér og það er mjög eflandi. Fólk hefur kannski verið að berjast í lífinu, farið í gegnum erfiðleika en svo gerir það eitthvað sem virkar, hefur vægi og þá byrjar eitthvað að byggjast upp. Ég held að það sé það sem skiptir mestu máli.“

„Við leggjum mikið upp úr því að hafa vettvang þar sem fólk gefur einhvers konar endurgjöf. Það sem þátttakendur tala um sjálfir er að hafa hlutverk í verkefninu. Þau finna fyrir stolti að hafa verið þátttakendur í verkefninu og fólk sýnir á sér hlið sem aðrir hafa ekki séð áður. Hér í Bretlandi til dæmis vinnum við með heimilislausa samfélaginu og þar talar fólk um að það ömurlegasta við heimilisleysi sé að fólk verði ósýnilegt, almenningur reynir að líta í aðra átt. Það eitt að vera í rými þar sem fólk hikar ekki við að gefa þér augnkontakt og hlustar á það sem þú segir, þar sem skoðanir þínar hafa vægi og þú tekur þátt í að búa til eitthvað sem er flott og gott eins og þessa tónlist, gefur fólki mikið. Þú stendur á bak við viðburð á flottu tónlistarsviði, þetta skiptir gífurlega miklu máli og nær út fyrir verkefnið. Við vorum nýlega með verkefni í hljómsveitinni Messengers í London þar sem tveir aðilar gátu ekki tekið þátt aftur, annar vegna þess að hann var kominn í skóla í fyrsta skipti í mörg ár og hinn vegna þess að hann var á ferðalagi með eigin hljómsveit,“ segir Sigrún og brosir.

Upplifðu jákvæða þætti sem náðu út yfir verkefnið

Sigrún tekur fram að það hafði aldrei verið markmiðið að vera með útgáfu, heimildamynd eða fyrstu tónleikana á sviði Eldborgar í Hörpu. „Ég hafði áhyggjur gagnvart þátttakendum af því hvort ég væri að gera rétt með þessu því þegar við förum af stað þá veit ég ekkert hvernig fólk mun bregðast við. Ég var með alls konar plön og tilbúin með plan B ef eitthvað kæmi upp á, ég gat ekki reitt mig á þátttakendur eins og þeir væru atvinnumenn og það gilti líka gagnvart nemendum. Helmingur þátttakenda er nemendur í háskólanámi og hinn helmingurinn fólk sem er nýkomið úr endurhæfingu en verkið varð að halda áfram. Á fyrstu tónleikum Kordu tóku þátt þrír hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveitinni, þrír aðstoðarstjórnendur, þeir Sævar Helgi Jóhannsson og Þráinn Þórhallsson og svo Gunnar Ben kennari frá Listaháskólanum.“

Þátttakendur þvert á samfélagslega hópa og kynslóðir

Hversu mikilvæg eru svona verkefni og hvað gera þau fyrir einstaklingana sem taka þátt? „Áhrifin af þessum fyrstu tónleikum voru þau að í sumum tilfellum var fólk að upplifa einhvern draum, í öðrum tilfellum hafði fólk aldrei haldið á hljóðfærum fyrr og hélt tónleika í Eldborg með kvikmyndatökumönnum o.fl. og í einhverjum tilfellum var fólk, þ.e. í Sinfóníuhljómsveitinni, að impróvísera í fyrsta skipti. Nemendur komu úr mismunandi námi í tónlist­­inni og voru að virkja sína þekkingu með nýjum hætti. Fólk var að semja tónlist og spila fyrir áheyrendur í fyrsta skipti. Það sem stóð upp úr í endurgjöf var að allir voru sammála um eftir þetta fyrsta ár að þetta verkefni gerði þeim kleift að tengjast og kynnast fólki sem það hefði ekki gert annars. Verkefnið fór þvert á samfélagslega hópa, sem er gott, og kynslóðir líka, elsti meðlimurinn var kominn yfir sjötugt og yngsti var um 20 ára. Þetta samstarf var algjörlega flatur strúktúr, meðlimir úr Sinfóníuhljómsveitinni upplifðu líka að verkefnið væri ögrandi á allt annan hátt en þeirra hefðbundna starf og fannst þetta gefa þeim gífurlega mikið. Sjálfstraust og stolt yfir verkefninu og yfir því að vera hluti af þessu var þáttur sem náði út yfir verkefnið sjálft.“

Sigrún lét ekki staðar numið þarna. „Við héldum áfram að þróa verkefnið eftir þetta fyrsta ár og út úr því kom starfsnám MetamorPhonics. „Við erum með lagasmiðjur í endurhæf­­ingarmiðstöðvunum víða um land og þaðan getur fólk sótt um að koma í Kordu. Frá Kordu geta tveir til þrír þátttakendur árlega sótt um að komast inn í starfsnám MetamorPhonics og verða lærlingar, taka þátt í námskeiðum í tónlistarstjórnun, fá tíma hjá leiðbeinanda, fá meiri tónlistaráskoranir í verkefnunum okkar og fá greitt hlutverk fyrir að styðja við stjórnunina á lagasmiðjum með starfsendurhæfingarmiðstöðvum. Þannig að við erum komin með hringrás. Einn lærlinganna komst inn í Listaháskólann, annar er kominn í fulla vinnu í fyrsta skipti í yfir 10 ár og fleira mætti telja. Öll fengu þau aðra sýn á hvað væri mögulegt fyrir þau í framtíðinni. Styrktarsjóður Geðhjálpar gerði okkur kleift að koma starfsnáminu fyllilega í gang á síðasta ári og vera með frekara samstarf við Guildhall, þaðan sem við fengum kennara til að halda fjarnámskeið fyrir aðstoðarstjórnendurna okkar í markþjálfun og leiðsögn. Við erum því að dýpka það hvernig við vinnum saman og hvernig við styðjum fólk á öllum stigum starfseminnar til að þróa sig áfram. Ég tel þetta gífurlega mikilvægt fyrir okkur og nú erum við að fara af stað inn í fimmta starfsárið okkar.“

Margþætt áhrif þvert á hópa

Fram undan er að renna styrkari stoðum undir Korda verkefnið og starfsnámið, að sögn Sigrúnar. Hún segist hafa hingað til fjármagnað verkefnið að mestu leyti með styrkjum en yfir 80% fjármagns er í gegnum styrki. „Það er erfitt í svona litlu hagkerfi að sækja endurtekið um styrki og ég er ekki sérfræðingur í því en við erum nú í samtali við opinbera aðila til að styrkja þetta verkefni til lengri tíma. Við höfum gert könnun meðal starfsfólks á starfsendurhæf­­ingum og það er ekkert þar sem svipar til þessa verkefnis. Það eru allir sammála um að það sé eitthvað mjög sérstakt sem gerist hjá fólki sem fer í þetta verkefni sem gerist ekki á öðrum vettvangi. Þetta hefur því gildi og við vonumst eftir að geta þróað þetta verkefni enn frekar á Íslandi sem gefur okkur byr.

Listaháskóli Íslands hefur fengið styrk frá Rannís fyrir þriggja ára, ýtarlegu rannsóknarverkefni á aðferðafræði og áhrifum verkefna MetamorPhonics, með fjórum háskólum, tveimur á Íslandi og tveimur í Bretlandi. Listaháskóli Íslands stýrir verkefninu en að auki eru samstarfsaðilar Háskólinn á Bifröst og St. John-háskólinn í York og svo tekur Guildhall þátt í gegnum The Messengers-hljómsveitina. Með þessu rannsóknarverkefni munum við fá enn haldbærari gögn í hendurnar sem munu sýna áhrif af verkefninu á alþjóðlegum vettvangi. Við erum ekki eingöngu að skoða áhrif á fólk sem er að koma úr erfiðum aðstæðum eða áfalli, við erum líka að skoða áhrif á nemendur í listrænu háskólanámi, hvernig svona verkefni hefur áhrif á þeirra framtíðarsýn og hvar þau vilja staðsetja sig í framtíðarstarfi.

Ég ber væntingar til að rannsóknarverkefnið muni styrkja það viðhorf að við sem samfélag þurfum á því að halda að listafólkið okkar hafi þessa samfélagslegu sýn. Að við fáum dýpri skilning á því hvað við erum með í höndunum þegar við tölum um listir almennt og að það sé réttur allra í samfélaginu að tengjast listum, ekki bara þeirra sem hafa efni á að mæta á listviðburði. Það er því gífurlega mikilvægt að listafólkið okkar rækti þessa meðvitund, hafi þessa samfélagslegu tengingu og finni til samfélagslegrar ábyrgðar, sem gerir list þeirra og rödd enn mikilvægari og áhrifameiri. Meðvitund um þessa samfélagslegu ábyrgð er tvímælalaust að aukast í listageiranum almennt, til að mynda er nýbirt sjö ára stefna Guildhall-listaháskólans mótuð út frá áhrifum og hlutverki listamannsins í samfélaginu.“

Texti: Ragnheiður Linnet Myndir: Aðsendar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram