Matthildarteymið hóf starfsemi sína í vor en teymið veitir sálrænan stuðning og skaðaminnkandi þjónustu á fyrri stigum í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi. Matthildarteymið fer á viðburði og setur þar upp aðstöðu í samstarfi við skipuleggjendur.
Svala Jóhannsdóttir, formaður Matthildar, samtaka um skaðaminnkun, segir að verkefninu hafi verið mjög vel tekið og fólk sé þakklátt fyrir að geta leitað til teymimisins eftir fræðslu og stuðningi. Fólki sé mætt á jafningjagrundvelli og markmiðið sé að auka öryggi og velferð fólks í skemmtanalífinu. Hún segir að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda eigi oft sögu um áföll og að vímuefnavandinn sé birtingarmynd annars konar vanda.
Matthildarteymið er fyrsta verkefnið á Íslandi sem veitir þjónustu á fyrri stigum vímuefnanotkunar en sambærileg skaðaminnkandi verkefni hafa verið starfsrækt erlendis til margra ára og sýnt góðan árangur. Matthildarsamtökin veita, auk heilbrigðisaðstoðar, einnig sálrænan stuðning og fengu samtökin veglegan styrk frá Styrktarsjóði geðheilbrigðis og Lýðheilsusjóði embættis landlæknis sem gerði þeim kleift að setja 12 manna teymi á laggirnar.
Auk Svölu er Hildur Harðardóttir, yfirhjúkrunarfræðingur í teyminu, og 10 sjálfboðaliðar, sem voru teknir inn í maí og sóttu 10 klst. námskeið og þjálfun. Teymið veitir þjónustu allan sólarhringinn sem er staðbundin og færanleg. Gestir geta einnig hringt í síma teymisins eða sent SMS og óskað eftir aðstoð. Matthildur dregur nafn sitt frá Matthildi Jónsdóttur Kelley sem var langt leidd af fíkniefnaneyslu þar sem hún bjó frá tvítugu í Chicago. Henni tókst að snúa við blaðinu og starfar nú við að hjálpa öðrum sem eru í harðri neyslu.
Markmið með Matthildarverkefninu er að ná til fólks sem notar lögleg eða ólögleg vímuefni, veita því upplýsingar og ráðleggingar um öruggari vímuefnanotkun og varnir gegn ofskömmtunum. En einnig að draga úr neikvæðum og hættulegum afleiðingum sem geta fylgt notkun vímuefna og auka öryggi og velferð fólks í skemmtana- og tónlistarlífinu.
„Við byrjuðum starfsemina formlega í maí en undirbúningurinn að verkefninu stóð í marga mánuði. Um leið og við fengum styrkina fór ég að vinna í þessu verkefni. Mér fannst mjög mikilvægt að við værum að koma til móts við stuðningsþarfir okkar gesta og tryggja öryggi þeirra. Við byrjuðum á því að skoða hvað sambærileg teymi væru að gera erlendis en ég þekkti vel til þar og hafði fylgst vel með aðilum sem voru að sýna fram á mjög góðan árangur. Við sóttum námskeið rafrænt þar sem farið var í sakaðaminnkandi þjónustu á tónlistarhátíðum, hvernig maður tryggir öryggi gesta sem best í skemmtanalífinu og við tókum líka námskeið þar sem farið var dýpra í tiltekin vímuefni sem þekkt er að séu notuð í skemmtanalífinu.“
Hugmyndafræðin á bak við skaðaminnkandi þjónustu hefur beinst fyrst og fremst að þeim sem neyta vímuefna daglega. Hvers vegna er sjónum beint að skemmtunum á borð við tónlistarhátíðir, hvað er þar sem þið viljið hjálpa fólki að forðast? „Ég hef starfað við skaðaminnkun í fjölmörg ár og verið mest að stýra verkefnum með það að markmiði að styðja við fólk sem er með alvarlegan vímuefnavanda. Mér fannst mikill skortur vera á skaðaminnkandi þjónustu á fyrri stigum vímuefnanotkunar. Mér fannst mikilvægt að við færum að taka það skref á Íslandi og ná til fólks sem er ekki með vímuefnavanda en þarf augljóslega á fræðslu, ráðgjöf og stuðningi að halda og að grípa fólkið fyrr.“
Svala segir að markmið sé alltaf að reyna að auka öryggi fólks sem notar vímuefni og hefur ákveðið að nota þau þannig að það geti tekið upplýstar ákvarðanir og segir teymið fara yfir ýmsa þætti sem varða notkun efna. „Þegar þú kemur til okkar þá færðu fræðslu um örugga vímuefnanotkun og ofskömmtunarvarnir. Fólk kemur og segir kannski: Ég er að spá í að nota þetta efni og þá förum við yfir ákveðna þætti eins og hvort viðkomandi hafi notað það áður, hvernig honum hafi liðið þá og hvort hann sé á lyfjum dagsdaglega. Við skimun fyrir því hvort það séu samverkandi áhrif, segjum fólki hvernig víman er, ef fólk hefur ekki reynslu af efninu.
Markmiðið er að reyna að auka öryggi fólks til að það geti tekið upplýstar ákvarðanir. Við förum yfir skammtastærðir, tímann sem það tekur að finna áhrifin, hvað þau vara lengi, að hverju þarf að huga eftir á og á meðan þú notar efnið, eins og að drekka vatn reglulega og kæla sig niður því líkamshitinn getur hækkað. Varðandi áfengisneyslu, þá er mikilvægt að nota ekki aðra sljóvgandi vímugjafa sama tíma. Það er margt sem þarf að huga að í sambandi við áfengisnotkun sem við erum kannski ekkert mjög dugleg að gera. Áfengi er sá vímugjafi sem okkur leyfist að nota lagalega séð og jafnvel þótt aðrir vímugjafar séu skaðaminni og hættuminni þá eru þeir ólöglegir. Þetta verkefni er mjög áhugavert og afar ánægjulegt að sinna þessari þjónustu sem er mjög fjölbreytt.“
Bjóðið þið upp á önnur úrræði á þessum stöðum? „Ég myndi segja að við veitum mikið sálrænan stuðning og við erum líka með heilbrigðisaðstoð, fólk kemur út af slysum, dettur eða fær ofnæmislyf og svo er það þessi skaða-minnkandi ráðgjöf. Það hefur gengið rosalega vel á öllum hátíðum sem við höfum farið á og mikil aðsókn verið til okkar. Við höfum farið á um fimm viðburði og hátíðir og höfum fengið um 130 heimsóknir á þeim.“
Það er full þörf á Matthildarteyminu á tónlistarhátíðum en fólk er duglegt að sækja sér fræðslu og stuðning til þeirra og finnst mikilvægt að mæta hvorki fordómum né afleiðingum neyslunnar. Traustið er mikið.
„Það er frábært að fólk leiti til okkar þegar það ákveður að nota vímuefni á skemmtunum. Okkar upplifun er sú að fólk nýtir sér þessa þjónustu. Við finnum að þau sem leita til okkar eru mjög þakklát og margir hafa talað um að þeir hefðu viljað fá svona þjónustu fyrir mörgum árum. Sjálfboðaliðar í teyminu upplifa þetta líka. Fólk segir gjarnan: Þegar ég var ungur hefði ég viljað að Matthildarteymið hefði verið til.“
Í Matthildarteyminu geta gestir átt heiðarlegt samtal um sína vímuefnanotkun án þessa að vera dæmt fyrir hana eða eiga von á einhverjum lagalegum afleiðingum en það sé teyminu mjög mikilvægt. „Fólk fær líka réttmætar upplýsingar sem ekki eru byggðar á hræðsluáróðri heldur fyrst og fremst fræðandi upplýsingar svo það geti tekið upplýstar ákvarðanir. Við höfum til dæmis fengið fólk sem segir: Já, ok, af því ég er á þessum lyfjum þá ætla ég að sleppa þessu og nota frekar kanabis eins og ég hef verið að gera,“ segir Svala.
Það er ýmislegt sem kemur í ljós þegar fólk leitar til Matthildarteymisins sem lýsir dýpri vanda þeirra sem taka þá ákvörðun að nota vímuefni. Fólk sem kemur til þeirra opnar gjarnan á þann vanda.
Hvernig tengist skaðaminnkun sem þessi geðheilbrigðismálum? „Við hittum fyrst og fremst fólk sem er ekki að glíma við vímuefnavanda, það er í örfáum tilfellum sem fólk segir að tengslin við vímuefni séu þannig að þau séu farin að þróa með sér ákveðinn vanda, noti efnin í fleiri aðstæðum og upplifi minni stjórn á neyslunni. Í þeim tilfellum finnum við mikið fyrir því að það er oft mikil andleg vanlíðan sem liggur að baki eða jafnvel geðheilsuvandi. Það eru sterk tengsl þarna á milli. Langflestir sem nota vímugjafa, hvort sem hann er löglegur eða ólöglegur, geta notað af og til, eða reglulega, og það þróast aldrei út í neinn vanda og það er eins með flestöll vímuefni. Við sem samfélag þekkjum það best með vímugjafann áfengi. Stærsti hluti fólks sem notar áfengi þróar ekki með sér alkóhólisma og það sama á við um aðra vímugjafa.“
Að sögn Svölu hefur komið í ljós þegar skoðaðir hafa verið sérstaklega hópar sem þróa með sér vímuefnavanda að tilteknar breytur eru til staðar sem sýna fram á ákveðin tengsl við geðrænar áskoranir. „Fólk sem á til dæmis flókna áfallasögu að baki er líklegra til að þróa með sér vímuefnavanda. Það er þannig að þegar fólki líður mjög illa, það upplifir innri sársauka og tilfinningalegan vanda og hefur ekki bjargráðin til að takast á við þetta, þá leitar það í utanaðkomandi þætti til að sefa þessa miklu vanlíðan. Það er í raun mjög mannlegt og eðlilegt ástand og við gerum það öll upp að einhverju marki. Fólk með áfallasögu og undirliggjandi geðrænan vanda er líklegra til að leita í vímuefni en aðrir.
Í dag er vímuefnavandi skilgreindur sem samþættur og flókinn. Vímuefnanotkun og vímuefnavandi er birtingarmynd af einhverju öðru og þegar maður vinnur með fólki sem er með vímuefnavanda þá er maður aldrei bara að vinna með hann, maður vinnur með margs konar annan vanda fólks. Við þurfum að skoða vímuefnavandann í stóru samhengi því fólk sem glímir við miklar geðrænar áskoranir, mikla andlega vanlíðan eða áfallastreitueinkenni er berskjaldaðra fyrir því að þróa með sér vímuefnavanda.“
Svala segir að oft þurfi að vísa eða bjóða fólki frekari úrræði. „Út frá verkefninu finnst okkur mjög mikilvægt að við séum að veita góðan sálrænan og áfallamiðaðan stuðning. Flestir sem leita til okkar koma vegna andlegrar vanlíðanar og leita eftir sálrænum stuðningi. Það sem hefur komið kannski mest á óvart í þessari lágþröskulda þjónustu er að þessi vandi er undirliggjandi og fólk opnar á hann.
Við veitum þjónustu allan sólarhringinn og vegna þess að það er lágur þröskuldur að henni þá fáum við alls konar fólk til okkar. Fólk sem líður illa en það treystir okkur og finnur að við mætum því af virðingu og algjöru fordómaleysi. Okkur er annt um gesti á hátíðum og þá er fólk tilbúnara til að opna á marga þætti í sínu lífi. Við erum að fá t.d. fólk til okkar sem er í fyrsta skipti að segja frá því að það er með raddir eða að það upplifi heiminn á annan hátt en aðrir. Sumir eru með miklar sjálfsvígshugsanir eða eru í fyrsta skipti að segja frá miklu áfalli sem þeir urðu fyrir. Þannig að við veitum fólki mjög mikið sálrænan stuðning, við skimum fyrir hvort það hafi áhuga á eða treysti sér til að leita í áframhaldandi þjónustu og þá fræðum við fólk um þau önnur úrræði og vísum í þau.“
Hversu mikilvægt er að vera með aðstöðu og úrræði fyrir fólk með t.d. sálræn vandamál á staðnum? „Þessi hópur er vissulega einn af þeim sem þarf annars konar nálgun í okkar samtali. Þjónusta okkar í skemmtanalífinu er þess eðlis að hún mætir þörfum mismundandi hópa mjög vel. Það hefur vantað þessa þjónustu sem mætir fólki algjörlega á þeirra forsendum. Við erum með ákveðið inngrip og þegar hátíðinni lýkur þá förum við. Við erum ekki með skjólstæðinga nema á viðburðum og á hátíðum en við vísum fólki áfram í úrræði ef það vill. Þjónusta okkar er að veita þennan sálræna stuðning og áfallameðferð og sumir koma margoft til okkar á einni hátíð og við vinnum áfram með fólki á hátíðum, við erum einhvers konar brú yfir í þetta fyrsta skref.“
Endurspeglar þetta þann vanda í samfélaginu að mörgum líður illa? „Það gerir það. Það er alltaf erfitt að meta manns eigin þjónustu en upplifunin er sú að það er margt ungt fólk þarna úti sem líður ekki vel og veit ekki hvert það á að leita eða er ekki komið á þann stað að geta stigið fyrsta skrefið. Við fræðum t.d. ungt fólk mjög mikið um Bergið Headspace en yngsta mannseskjan sem við höfum hitt er 17 ára og sú elsta 60 ára en langstærsti hlutinn er fólk frá 20-24 ára og þar á eftir frá 25-28 ára. Þegar fólk er að glíma við sjálfsvígshugsanir og er að velta fyrir sér að það langi ekki að lifa lengur þá veitum við fræðslu um Píeta samtökin og erum með bækling frá þeim. Við reynum að fá fólk til að hugsa og vega og meta að stíga þetta skref að leita sér hjálpar.
Við fáum líka fólk sem glímir við kvíða og fólk sem er á einhverfurófinu og kemur til okkar til að fá smá hvíld eða til að forðast áreitið á skemmtunum. Við erum alltaf með dýnu eða rúm og reynum að hafa þetta huggulegt þannig að fólk geti hvílst ef það þarf. Við finnum að það er aðsókn í þetta, fólk þarf að kúpla sig út og ná jafnvægi. Markmiðið með þjónustunni er líka að auka fjölbreytileika, að fleiri hópar geti mætt á tónlistarhátíðir og við
finnum að þar sem fólk veit fyrir fram að við verðum þá treystir það sér betur til að koma, vitandi að þarna er einhver öryggisventill. Það eru ekki allir sem treysta eins vel núverandi kerfi sem er á stórum hátíðum, eins og öryggis-gæslu eða lögreglunni, því fólk getur ekki opnað á notkun á ólöglegum vímuefnum. En okkur finnst skipta miklu máli að hvorutveggja sé til staðar.“
Svala segist vera mjög stolt af Matthildarteyminu og ekki síst sjálfboðaliðunum sem eru í framlínunni og veita flotta þjónustu. „Við gætum þetta ekki án þeirra, ég er ótrúlega stolt af teyminu okkar og ég held að þetta verkefni sé komið til að vera. Við finnum þörfina en þetta stendur og fellur með styrkjum sem við fáum. Allt sem grípur fólk á fyrri stigum á alltaf að vera til staðar, fólk er að láta lífið vegna vímuefnaneyslu. Fólk er svo þakklátt fyrir þessa þjónustu og við mætum fólki á þeim forsendum. Við sýnum fólki virðingu og samkennd og þökkum fólki fyrir að treysta okkur fyrir þessum málum því við vitum að fólk er oft mjög hrætt að segja frá að það sé að nota vímuefni annað en áfengi. Það er hrætt við afleiðingarnar, mannorðið, viðbrögð fjölskyldunnar, lögreglu o.fl.
Hættulegasta vímuefnanotkunin er sú sem maður segir ekki frá og þegar fólk er ekki með viðeigandi upplýsingar og enginn til staðar ef eitthvað gerist. Við viljum opna á þetta og að fólk segi frá og fái upplýsingar sem geta dregið úr því að eitthvað slæmt gerist. Við höfum tekið eftir því að á innan við sólarhring þá vita flestir af okkur á hátíðunum og við fáum líka fólk sem hefur áhyggjur af vinum, sem eru eitthvað annarlegir og við erum beðin um að skoða það. Það skapast samkennd og væntumþykja, fólk gengur ekkert bara fram hjá þeim sem eru í vanda og er sama. Við vinnum líka með þessa ábyrgðarkennd fólks.“
Markmið skaðaminnkunar ætti að vera að stinga ekki höfðinu í sandinn gangvart því að vímuefnanokun sé algeng í samfélaginu að dómi Svölu. Þó að það sé að langmestu leyti löglegur vímugjafi eins og áfengi sem fólk neytir þá notar það líka ólögleg vímuefni.
Er töluvert um fólk þarna sem kann ekki að fara með eða umgangast vímuefni og hvers konar hættu getur það skapað? „Já, og eitt af markmiðum skaðaminnkunar er náttúrlega að fólk haldi lífi og til þess að við getum framfylgt því þarf fólk að hafa réttmætar upplýsingar um vímuefni, öruggari vímuefnanotkun og forvarnir og það þarf að geta leitað á einhvern stað til að geta sótt þessar upplýsingar.
Þannig að markmið okkar er að aðstoða fólk til að halda lífi, draga úr óafturkræfum skaða, slysahættu og auka öryggi og heilbrigði fólks. Einn af grunnþáttum skaðaminnkunar er að líta raunsætt á stöðuna. Fólk notar vímugjafa og hefur alltaf gert og þrátt fyrir ítrekaða viðleitni samfélagsins til að reyna að sporna gegn notkuninni þá er vímuefnanotkun frekar algeng og meiri hluti fólks í okkar samfélagi notar vímugjafa hvort sem þeir eru löglegir
eða ólöglegir. Markmið með skaðaminnkun er að stinga ekki höfðinu í sandinn og að við viðurkennum og mætum þessari staðreynd og veltum fyrir okkur hvað við þurfum að gera fyrir fólkið til að auka öryggi þess og til að það lifi af.“
Er töluvert um hættuleg efni í gangi, sérðu einhverja ákveðna skiptingu á efnum? „Við sjáum mest þessi klassísku vímuefni. Lang-flestir nota áfengi, og gera það hóflega og eru passasamir. Hins vegar getur það alltaf gerst af því að áfengi er sljóvgandi vímugjafi að það dregur úr ákveðinni líkamlegri og hugrænni getu okkar þegar við erum undir áhrifum. Það veldur slysa- og fallhættu. Þegar komið hafa upp erfið mál eða jafnvel bráðatilfelli þá er það mjög oft tengt vímugjafanum áfengi. Auðvitað er það stór hópur sem notar það og minni hópur sem notar önnur vímuefni en áfengi er skilgreint sem strekur vímugjafi. Fólk getur ofskammtað af því þannig að við þurfum að meðhöndla áfengi eins og hvern annan vímugjafa.“
Hvað er það helsta sem getur gerst þegar fólk fær of mikinn skammt af áfengi, er það eitrun eða annað? „Já, fólk getur fengið eitrunaráhrif sem eru ofskömmtunareinkenni, líkaminn fer þá í það ástand að reyna að losa sig af miklum krafti við áfengið. Fólk getur fengið krampa og út frá þeim, ef hann er sterkur, farið í hjartastopp. Áfengi deyfir líka skynjun okkar á kulda og verkjum og þess vegna þarf maður að vera á varðbergi þegar fólk sofnar af áfengisneyslu, að passa að fólk sé í öruggum aðstæðum og sé ekki úti. Einnig að það liggi á hlið ekki á bakinu
því fólk getur ælt og kafnað, þannig að það er ýmislegt sem þarf að huga að.“
Svala segir að algengustu vímugjafarnir séu áfengi, kanabis, MDMA, amfetamín, ketamín og kókaín. Ef við tökum þessa vímugjafa hvaða hættulegu áhrif fylgja ofskömmtun af þeim? „Til að við getum veitt öruggari leiðbeiningar þá gerum við slíkt út frá hverju og einu efni. Þau hafa ólíka eiginleika og mismunandi áhættustig í raun. Sum vímuefni eru þannig að það eru meiri ofskömmtunaráhrif en af öðrum. Það er t.d. lítil áhætta á ofskömmtun af
MDMA og amfetamíni og þá eru leiðbeiningar okkar aðrar fyrir þessi efni. Við leggjum áherslu á inngripin sem við erum með. Kókaín hefur áhrif á hjarta og æðakefið þannig að langtímanotkun þess hefur veruleg áhrif og vissulega ef maður notar mjög mikið magn af því þá getur það líka haft þessi áhrif. Stundum vill fólk prófa eitthvað nýtt eða það kemur til að segja frá einhverjum aðstanda sem það hefur áhyggjur af, það er kannski einhver sem er með mikinn ópíóíðavanda og fólk vill fá fræðslu um ópíóíðaefni eða ofskömmtunareinkenni.“
Svala tekur fram að teymið bjóði alltaf upp á að vera með stutta fræðslu um ópíóíða og nalaxón nefúða gegn ópíóíðum sem þau dreifa. „Þetta er 10-15 mínútna fræðsla og eftir hana getur fólk fegnið naloxón hjá okkur.“
Þið eru rétt að byrja en hvað með áframhaldið? „Það hefur verið ákall frá þeim sem hafa leitað til okkar um að veita þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Að svo stöddu erum við ekki með hana en við erum að skoða það. Við erum að fara yfir fjárhagslega stöðu verkefnisins og skoða styrkjaumhverfið, hvar við getum sótt um styrki og í raun veltur þjónustan okkar á því að við fáum styrki. Auðvitað finnum við að þörfin er mikil fyrir svona þjónustu í Reykjavík og draumurinn væri að við gætum haft alla vega opið einu sinni í viku þar sem fólk gæti leitað til okkar og fengið sömu þjónustu og við veitum á tónlistarhátíðum og á viðburðum.
Skaðaminnkandi aðferðafræði er viðurkennd innan fíknifræðinnar og helstu stofnanir, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið leggja mjög mikla áherslu á að skaðaminnkandi hugmyndafræði sé innleidd og að það séu mörg úrræði fyrir ólík stig vímuefnanotkunar. Markmið með Matthildarverkefninu er, fyrir utan að koma inn á fyrri stigum vímuefnanotkunar, að ólíkir hópar vímuefnanotenda geti leitað í skaðaminnkandi þjónustu eins og er víða erlendis, það skiptir gríðarlega miklu máli. Varðandi áframhaldið og önnur verkefni þá höfum við fengið átta milljóna kr. styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að hjálpa fólki sem er að reykja ópíóíða, fólki sem glímir við mikinn vanda en hefur ekki aðgang að skaðaminnkandi þjónustu og ég er búin að fá búnað til landsins, þörfin fyrir Matthildarverkefnið er brýn og mikil.“
Heilbrigðisaðstoð: Minniháttar slys og skyndihjálp.
Yfirseta og stuðningur: Þegar aðilar hafa innbyrt of mikið af löglegum eða ólöglegum vímuefnum eða eru
að fara í gegnum krefjandi upplifanir á hugbirtandi efnum.
Skaðaminnkandi ráðgjöf og fræðsla: Leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun og forvarnir gegn
ofskömmtun.
Skaðaminnkandi búnaður: Smokkar, eyrnatappar og skaðaminnkandi búnaður fyrir vímuefnanotkun.
Vímuefnapróf: Gestir geta skimað fyrir hvort að vímuefni sem þau hyggjast nota innihaldi fentanyl
eða sé það efni sem þau telja. Vímuefnapróf draga úr líkum á ofskömmtun, óafturkræfum skaða og dauðsföllum.
Sálrænn stuðningur vegna andlegs vanlíðan eða geðrænna áskorana: Líkt og kvíða, sjálfsvígshugsana, áfallastreitueinkenna og geðrofseinkenna.
Naloxón dreifing + fræðsla: Teymið veitir skipuleggjendum og gestum viðburða naloxón nefúða, ásamt fræðslu
um notkun hans og ópíóíða ofskömmtun.
Fræðsla og vísanir í heilbrigðis- og félagslega þjónustu: Líkt og Bergið Headspace, Bjarkarhlíð, heilsugæsluna, Píeta og Samtökin ´78
Til að óska eftir þjónustu Matthildarteymisins er hægt að senda póst á verkefnastýru: svala@matthildurskadaminnkun.is eða senda SMS eða hringja í síma 790 4455. Teymið veitir þjónustu allan sólarhringinn þegar það er að störfum.