3. október 2024

Geðhjálparblaðið 2024

Í leiðara blaðsins að þessu sinni fjallar Svava Arnardóttir, nýr formaður Geðhjálpar, um sjúkdómsvæðingu mennskunnar en fjöldi fólks tekst á við andlegar áskoranir ár hvert og sífellt fleiri uppfylla greiningarskilmála fyrir einhvers konar „geðsjúkdóm“. Svo virðist vera sem heimsfaraldur Covid-19 hafi leitt til enn frekari geðheilbrigðisvanda á heimsvísu, en því er gert frekari skil í grein framkvæmdastjóra Geðhjálpar, Gríms Atlasonar, um geðheilsu barna.

Matthildur – samtök um sakaðaminnkun hóf starfsemi sína í vor en teymið veitir skaðaminnkandi þjónustu á fyrri stigum í skemmtana- og tónlistarlífinu á Íslandi. Matthildarsamtökin fara á viðburði, setja þar upp aðstöðu í samstarfi við skipuleggjendur en Svala Jóhannsdóttir, verkefnisstýra teymisins, segir að verkefninu hafi verið mjög vel tekið og fólk sé þakklátt fyrir að geta leitað til þangað eftir ráðum og fræðslu.

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths er tónlistarkennari, stofnandi og listrænn stjórnandi MetamorPhonics sem er samfélagsmiðað fyrirtæki en verkefni hennar lúta að því að vinna með einstaklingum sem hafa lent í áföllum, eru heimilislausir eða glíma við geðrænar áskoranir, í gegnum skapandi tónlist og valdeflandi umhverfi. Korda samfónía er slíkt verkefni en það hefur gefist mjög vel.

Töluvert hefur verið fjallað um nauðungarvistun undanfarin ár þar sem inngripið er bæði róttæk aðgerð þar sem einstaklingur er sviptur frelsi og vistaður á sjúkrahúsi, oft gegn vilja sínum, og í sumum tilfellum einnig beittur þvingaðri lyfjagjöf. Í meistararitgerð Sigurðar Páls Jósteinssonar frá því í vor, 2024, um nauðungarvistun kemur fram að flestar rannsóknir um áðurnefnt efni hafi hingað til verið unnar frá sjónarhóli heilbrigðisstarfsfólks eða aðstandenda. Í framhaldinu af þeirri umfjöllun er rætt við Svein Rúnar Hauksson, lækni og stjórnarmann í Geðhjálp, sem segir að of mikið sé um nauðungarvistun og aðra valdbeitingu gagnvart fólki með geðsjúkdóma.

Geðhjálp stefnir á að koma á laggirnar skjólshúsi í náinni framtíð. Félagið horfir meðal annars til þess Afiya-skjólshúss sem rekið hefur verið með góðum árangri í New Hampshire í Massachusetts í Bandaríkjunum. Skjólshús er valkostur við hefðbundnar geðdeildir og byggir á öðrum gildum en fólk leitar til skjólshúsa á eigin forsendum. Ephraim Akiva stýrir slíkri starfsemi í Bandaríkjunum og við ræddum við hann um skjólshús.

Áslaug Inga Kristinsdóttir og Sigurborg Sveinsdóttir hafa komið að ýmsum verkefnum sem notendur þjónustu og segja að mikilvægt sé að raunverulegt samráð sé haft við notendur þjónustu til að hún verði sem skilvirkust, en notendasamráð er í samræmi við stefnumótun í geðheilbrigðismálum. Það á einnig samhljóm með samningi Sameinuðu þjóð­­­anna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kunnugt baráttustef úr mannréttindabaráttunni er: „ekkert um okkur, án okkar“.

Að heyra raddir sem ekki öll heyra hefur verið tengt við geðsjúkdóma, einkum geðklofa og geðrof. Raddirnar eru ekki einungis orð heldur geta þær líka verið ýmiss konar hljóð og jafnvel sýnir. Samtökin Intervoice hafa unnið mikilvægt starf víða um heim með óhefðbundinni nálgun til að svipta hulunni af þessari upplifun fólks sem hefur fylgt mannkyninu alla tíð. Litið er á þessa upplifun mjög misjöfnum augum eftir menningu samfélaga. Mikilvægast er þó að útrýma fordómum og að fólk finni leið til að lifa góðu líf með eða án raddskynjana.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram