19. september 2025

Geðhjálparblaðið 2025

Geðhjálparblaðið 2025 er komið út og þar er að finna fjölbreytt og framsækið efni um geðheilbrigðismál. Í inngangi þess stiklar Svava Arnardóttir formaður Geðhjálpar á stóru þegar kemur að starfi samtakanna með sérstaka áherslu á mannréttindamál, en í starfi Geðhjálpar kemur fram skýr þörf á úrbótum og áframhaldandi réttindabaráttu tengdri geðheilbrigðismálum á Íslandi.

Jafningjastuðningur innan geðheilbrigðiskerfisins hefur færst í aukana og nú starfa jafningjar á mörgum stofnunum og deildum fyrir fólk í geðrænni krísu. Jafningjar hafa sjálfir reynslu af geðrænum áskorunum og mæta fólki með skilningi og hlýju. Jafningjarnir Hallgrímur, Þórdís og Berglind lýsa því að hlutverk þeirra gagnvart skjólstæðingum sé jafnan vinahót og félagsskapur.

Undanfarin ár hefur Geðhjálp tekið saman þá geðheilsuvísa sem haldið er utan um hér á landi. Þetta eru gögn eins og lyfjagagnagrunnur embættis Landlæknis, dánarmeinaskrá, gögn frá Rannsóknum og greiningu um líðan barna í skólum, aðrir lýðheilsuvísar, skýrslur og rannsóknir auk annarra tölfræðiupplýsinga og gagna sem tengjast geðheilbrigði á einn eða annan hátt. Þessir vísar hafa fært okkur vísbendingar um að geðheilsuvandi á Íslandi hafi farið nokkuð vaxandi sl. misseri og ár svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í grein eftir Grím Atlason, framkvæmdastjóra Geðhjálpar, er haldið áfram að horfa til geðheilsuvísa auk þess sem horft er til Danmerkur til samanburðar.

Emil Grímsson var barn að aldri þegar leitað var með hann til geðlækna í fyrsta sinn vegna mikillar vanlíðunar og kvíða. Þá fékk hann lyf sem litla hjálp veittu og síðan þá hefur hann verið fastur á milli kerfa í tvo áratugi vegna marglaga vanda sem enginn kannast við að hafa sérþekkingu á.

Geðhjálp vinnur að stofnun skjóls húss fyrir fólk í tilinnfingalegri krísu vegna andlegra áskorana. Um er að ræða nýtt úrræði þar sem boðið verður upp á skammtímadvöl í allt að 12 vikur, einstaklingum að kostnaðarlausu. Öll starfsemi skjólshússins fer fram á jafningjagrundvelli þar sem allt starfsfólk og stjórn hússins er í höndum einstaklinga með persónulega reynslu af andlegum áskorunum.

Þorlákur Kristinsson myndlistarmaður, betur þekktur sem Tolli Morthens, hefur í tvo áratugi gert sitt til að kenna fólki í íslenskum fangelsum sjálfskærleik og að finna innri frið. Hann hlaut fálkaorðuna í júní síðastliðnum fyrir framlag sitt til endurhæfingar fanga, en segir að orðan tilheyri öllum þeim sem starfa með honum í Bataakademíunni.

Skyndihjálparnámskeið eru vinsæl leið til að auka færni sem flestra til að bregðast við líkamlegum veikindum eða slysum. Minni áhersla hefur verið lögð á viðbragð þegar andlegir erfiðleikar blasa við fólki í nærumhverfi manns. Cait Fisher er eitt þeirra sem hafa þróað og kennt aðferðir til andlegrar fyrstu hjálpar, Community eCPR, og telur að hún gæti komið að verulega góðum notum í smærri samfélögum.

Hvernig er hægt að búast við að fólk skynji valdeflingu og nái bata þegar það mætir þjónustu hins hefðbundna geðheilbrigðiskerfis sem byggist á valdamisvægi? Meistaraverkefni Svövu Arnardóttur formanns Geðhjálpar í fötlunarfræði við Háskóla Íslands haustið 2024 var ætlað að veita innsýn í það hvað varð til þess að viðmælendur náðu bata af andlegum áskorunum, hvaða þátt íslensk geðheilbrigðisþjónusta lék og birtingarmyndir valds.

Herferðir sem miða að því að kenna almenningi að geðrænir kvillar séu líffræðilegir sjúkdómar hafa lítil áhrif haft á fordóma almennings. Þetta sýna erl endar rannsóknir á fordómum gagnvart fólki með andlegar áskoranir. Ný íslensk rannsókn bendir til að ríkustu fordómarnir séu gagnvart fíknisjúkdómum.

Geðhjálp stóð fyrir ráðstefnunni Social Change í maí á þessu ári. Á þessari tveggja daga ráðstefnu var gestum boðið að kynna sér önnur sjónarmið en þau sem hafa verið ríkjandi í geðheilbrigðismálum. Fyrirlesarar voru aðilar sem hafa beitt sér á alþjóðavettvangi fyrir breyttri nálgun í geðheilbrigðis-málum. Auk þeirra leiddi fólk með reynslu af tilfinningalegri vanlíðan eða fíkn vinnustofur ráðstefnunnar.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram