11. september 2025

Ísland verður að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks

ÖBÍ réttindasamtök, Landssamtökin Þroskahjálp, Geðhjálp og Umhyggja hafa í sameiningu kynnt áherslur sínar fyrir sérfræðinefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í júní s.l. skiluðu samtökin sameiginlegum ábendingum til nefndarinnar og hinn 1. september s.l. kynntu samtökin þær á fundi hennar. Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Mannréttindastofnun Íslands skiluðu einnig skýrslum til nefndarinnar og sátu fundinn.

Hagsmunasamtökin kynntu áherslur sínar á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 1. september s.l. Fundinn sátu einnig fulltrúar frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum og Mannréttindastofnun Íslands.
Á myndinni eru f.v.: Svava Arnardóttir frá Geðhjálp, Árni Múli Jónasson frá Þroskahjálp, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindastofnun Íslands, Eiríkur Karl Ólafsson Smith frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, Rannveig Traustadóttir frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, Sigurður Árnason frá ÖBÍ og Þórdís Helgadóttir Thors frá Umhyggju.

Um er að ræða þátt í yfirferð nefndarinnar á fyrstu skýrslu Íslands um innleiðingu og framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ábendingum sínum benda hagsmunasamtökin á að þótt Ísland hafi stigið ákveðin jákvæð skref í átt að innleiðingu og framkvæmd samningsins, séu enn verulegir annmarkar á því hvernig mannréttindi fatlaðs fólks eru tryggð. Með ábendingunum gera samtökin tillögur um að nefndin bæti tilteknum spurningum við spurningalista nefndarinnar sem hún mun leggja fyrir íslensk stjórnvöld innan skamms.

Í ábendingunum kemur meðal annars fram að fötluð börn þurfi að bíða of lengi eftir nauðsynlegri þjónustu, svo sem geðheilbrigðisþjónustu og greiningum. Þá er kallað eftir því að betur verði tryggt að fatlaðar konur njóti verndar gegn ofbeldi og misnotkun. Enn fremur vekja samtökin athygli á notkun þvingunarúrræða í heilbrigðiskerfinu sem brjóti gegn ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Vakin er athygli á skorti á húsnæði fyrir fatlað fólk, þar sem fólk hefur þurft að bíða árum saman eftir búsetuúrræðum við hæfi. Samtökin gagnrýna einnig að skilgreining á hjálpartækjum sé of þröng, sem takmarki möguleika barna og fullorðinna til að taka þátt í námi, starfi og tómstundum til jafns við önnur. Einnig er kallað eftir því að stjórnvöld tryggi starfrænt aðgengi fyrir öll. Samtökin telja að betur þurfi að gera í að auka þekkingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá telja samtökin að ríki og sveitarfélög verði að koma í veg fyrir að ágreiningur þeirra á milli, m.a. um kostnaðarskiptingu, komi niður á mannréttindum fatlaðs fólks.

Samtökin telja mikilvægt að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Jafnframt telja samtökin að fullgilda eigi valfrjálsa bókun við samninginn sem er mikilvægt til að tryggja rétta framkvæmd á honum.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks snýst um mannréttindi. Um sjálfstæði, jafnrétti og virðingu. Nú er kominn tími til að Ísland standi við skuldbindingar sínar í verki og tryggi réttindi fatlaðs fólks.

Hér má lesa ábendingarnar í heild:

https://www.obi.is/skyrslur-og-rannsoknir/abendingar-til-21-undirbuningsfundar-starfshops-nefndar-sameinudu-thjodanna-um-rettindi-fatlads-folks-island

https://tbinternet.ohchr.org/_layouts/15/treatybodyexternal/SessionDetails1.aspx?SessionID=2796&Lang=en

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram