19. desember 2024

Jólakveðja og jólalokun Geðhjálpar 2024

Skrifstofa Geðhjálpar verður lokuð frá 23. desember til 2. janúars. Við óskum þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með innilegri þökk fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

Þetta hefur verið viðburðarríkt ár í starfi Geðhjálpar. Við höfum sinnt hagsmunagæslu, tekið á móti yfir 1000 erindum frá einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum og veitt yfir 500 manns ráðgjöf og stuðning þeim að kostnaðarlausu. Hér á eftir verður stiklað á helstu verkefnum sem samtökin stóðu fyrir á árinu.

Í kjölfar hins árlega G-vítamíns á þorranum efndum við til styrktarþáttar á RÚV. Þar var stóra myndin í geðheilbrigðismálum á Íslandi rædd í skemmtilegri og fræðandi dagskrá í vel heppnuðum þætti. Í mars var svo haldinn aðalfundur samtakanna og þar var undirrituð kjörin nýr formaður Geðhjálpar.

Geðhjálp var hluti af vitundarvakningunni Gulur september sem er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Geðlestin hélt af stað samhliða átakinu þar sem Geðhjálp ferðaðist um landið og bauð upp á samtal um geðrækt og geðheilsu í bland við tónlist og gleði. Að þessu sinni miðaði Geðlestin að því að hitta sveitarstjórnir, félags- og skólamálayfirvöld annars vegar og almenning hins vegar.

Í ár fór úthlutun úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis fram í fjórða sinn þar sem samtals 20 milljónum var skipt á milli 17 verðugra verkefna.

Við erum með mörg plön fyrir næsta ár og þar ber einna hæst ráðstefnan Social Change 2025 – Þörf fyrir samfélagsbreytingar í geðheilbrigðismálum, sem verður haldin í maí. Á þessari tveggja daga ráðstefnu verður gestum boðið að kynna sér önnur sjónarmið en þau sem hafa verið ríkjandi í geðheilbrigðismálum.

Við vonum að þú og þínir séuð að njóta aðventunnar og þessara síðustu daga ársins. Á þessum árstíma er oft í mörg horn að líta en við fögnum því að sífellt fleiri velja þennan tíma til að staldra við og leggja áherslu á samveru og nærandi stundir með sínum nánustu. Það er mikilvægt að gleyma ekki að hlúa að geðinu, sérstaklega í desember.

Með bestu kveðju,
Svava Arnardóttir,
formaður Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram