Skrifstofa Geðhjálpar verður lokuð frá 23. desember til 2. janúars. Við sendum þér og þínum okkar bestu óskir um frið og gleði yfir hátíðarnar og farsæld á komandi ári.
Árið 2025 var kraftmikið og oft krefjandi í geðheilbrigðismálum á Íslandi. Fjölmargir leituðu eftir ráðgjöf til Geðhjálpar á árinu. Einnig var boðið upp á fjarfundarsamtöl og margir nýttu sér þann möguleika.
Hér stiklum við á stóru yfir nokkur af stærri verkefnum ársins 2025.
Á þorranum héldum við sem fyrr geðræktarátakið G-vítamín sem hefur fest sig í sessi. Verkefnið miðar að því að setja geðrækt á oddinn með því að styrkja geðheilsu landsmanna og vekja okkur til umhugsunar um lítil aðgengileg skref til að auka þrautseigju og vellíðan okkar. Við fórum aftur til upprunans og buðum til sölu borðdagatöl með skemmtilegum ábendingunum byggðum á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur.
Geðlestin ferðaðist um landið í gulum september og í ár var sérstök áhersla lögð á ungt fólk og mikilvægi þess að geta rætt geðheilsu á öruggum og stuðningsríkum vettvangi. Við hittum sveitarstjórnir, skólayfirvöld, ungmennaráð og almenning, ræddum um forvarnir, jukum meðvitund og hlustuðum eftir reynslu fólks í hinum ýmsu landshlutum. Stemningin var kraftmikil og samtölin dýrmæt.
Við fjármögnuðum viðamikla rannsókn vísindafólks innan Háskóla Íslands til að leggja mat á fordóma í garð fólks með andlegar áskoranir. Þetta er endurtekning og útvíkkun á fyrri rannsókn frá árinu 2022 og gerir okkur kleift að greina þróun samfélagsumræðunnar. Fyrstu niðurstöður voru kynntar á Þjóðarspeglinum í haust en jafnframt verður sérstök viðburðaröð vorið 2026 sem fjallar nánar um ólík atriði á borð við fíkn, afbrot og þróunina á milli ára.
Í ár fór úthlutun úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis fram í fimmta sinn. Sérstök áhersla var lögð á geðheilbrigði barna og ungmenna í ár og sjóðurinn styrkti 19 verkefni um samtals 25,5 milljónir víðs vegar um landið til nýsköpunar og þróunar í geðrækt, forvörnum og stuðningsúrræðum. Fjöldi umsókna heldur áfram að vaxa, sem sýnir bæði þörfina og eldmóðinn sem býr í samfélaginu.
Árið 2025 lögðum við fram ýmsar ábendingar og tillögur til ráðherra, stjórnvalda og stofnana, meðal annars um þjónustu barna og ungmenna, réttindi fatlaðs fólks, nauðsynlegar úrbætur í bráðaþjónustu og mikilvægi þess að fólk með geðraskanir hafi sjálfstæða rödd í allri stefnumótun. Þetta er kjarninn í okkar starfi og við höldum ótrauð áfram.
Í þessu öllu, og enn fleiri verkefnum, átt þú og styrktarsamfélagið sem stendur með okkur í hverjum mánuði, stóran þátt. Stuðningur þinn gerir okkur kleift að standa vörð um og rækta geðheilsu Íslendinga. Það er ómetanlegt.
Megi nýtt ár færa þér gleði, styrk og góðar stundir. Við hlökkum til að halda þessari mikilvægu vegferð áfram með þér árið 2026!
Með bestu kveðju,
stjórn og starfsfólk Geðhjálpar