Landssamtökin Geðhjálp fagna 45 ára afmæli í dag, 9. október 2024. Hlutverk okkar er skýrt; að standa vörð um og rækta geðheilsu Íslendinga. Það gerum við með því að gæta réttinda fólks sem tekst á við andlegar áskoranir, þróa aðferðir sem styðja við þjónustu, fræðslu og hagsmunagæslu í samráði við notendur og aðstandendur, fræða og veita vandaða ráðgjöf af virðingu.
Vissulega hefur mikið vatn runnið til sjávar frá stofnun Geðhjálpar árið 1979; alls kyns breytingar hafa orðið á þjónustuumhverfi og velferðarkerfinu almennt, aukin samfélagsumræða, minni fordómar og fjöldi ólíkra úrræða aukist til muna. Sífellt fleiri fá greiningar og við erum ein þeirra þjóða sem tróna á toppnum er varðar ávísun hvers kyns geðlyfja. Mögulega gætu einhver talið að markmiðinu sé einfaldlega náð.
Þrátt fyrir ýmsar framfarir, bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aukna vitund í samfélaginu um geðheilsu almennt, þá er þörfin fyrir starfsemi Geðhjálpar rík. Fjöldi fólks tekst á við andlegar áskoranir ár hvert og sífellt fleiri uppfylla greiningarskilmála fyrir einhvers konar „geðsjúkdóm“ samkvæmt skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar frá árinu 2017. Svo virðist vera sem heimsfaraldur Covid-19 hafi svo leitt til enn frekari geðheilbrigðisvanda á heimsvísu. Þar ber sérstaklega að nefna töluverða fjölgun einstaklinga sem greinast með kvíða eða þunglyndi.
Til okkar leitar fjöldi fólks sem veit ekki hvert það á að snúa sér í frumskógi velferðarkerfisins eða vantar ráðgjöf varðandi réttindi þeirra. Einnig erum við þéttbókuð í hinum ýmsu nefndum þar sem óskað er eftir innsýn fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og veitum álitsgjöf varðandi lagafrumvörp er varða okkar málaflokk. Við höfum nýlega lokið hringferð um landið með geðheilsubætandi fræðslu og fundi. Geðhjálp lætur einnig til sín taka varðandi fjölmiðlaumfjöllun og fordóma í garð andlegra áskorana.
Í stað þess að greina sífellt fleiri með geðsjúkdóm og beina inn í fjársvelt kerfi sem nær ekki að anna eftirspurn, ættum við að leita eftir rótum vandans. Af hverju er svona stór hópur fólks að ganga í gegnum þjáningu, lífskreppu eða getur einfaldlega ekki þrifist í óbreyttu ástandi? Við sjáum að sífellt fleira fólk fær ávísað geðlyfjum. Við sjáum að færra ungt fólk metur líðan sína góða samanborið við sama hóp fyrir um 10 árum síðan.
Við sjáum að stærstur hluti þeirra sem fá örorkulífeyri samþykktan er sökum andlegrar vanlíðunar. Þessi atriði eru dæmi um hin fjölmörgu viðvörunarljós sem segja mætti að séu virk í mælaborðinu um geðheilsu þjóðarinnar. Ef um væri að ræða bílinn okkar - þá myndum við stöðva aksturinn og láta skoða gang mála. Af hverju gerum við það ekki er varðar geðheilbrigðismálin?
Það er löngu tímabært að staldra við og breyta um stefnu. Við ættum að horfa til þeirrar samfélagsgerðar sem við lifum í. Við göngum í gegnum áföll, lifum í fátækt, upplifum gríðarlegt álag við að standa okkur á öllum vígstöðvum í sífellt hraðari heimi eða fáum í arf ákveðið kynslóðabundið trauma sem var aldrei gert almennilega upp. Mörg okkar tilheyra ólíkum hópum innan samfélagsins og upplifa jaðarsetningu eða mismunun því tengt. Þar ber meðal annars að nefna hinsegin fólk og fólk af ólíkum uppruna, auk einstaklinga sem verða fyrir fordómum vegna kyns síns, útlits og eða færni.
Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi listi. Það að við göngum í gegnum andlegar áskoranir í kjölfar þessa eru skiljanleg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Við erum ekki brotin eða veik, þó að vissulega sé þjáning okkar djúp og raunveruleg. Við erum kanarífuglinn sem syngur í námunni, sem er merki um að umhverfið sé ekki lengur sérlega lífvænlegt og það þurfi að gera raunverulegar breytingar þar á.
Ég hef trú á að enn sé hægt að breyta til betri vegar þannig að færri þurfi að ganga í gegnum andlegar áskoranir, og þau okkar sem þjást nái betri líðan fyrr, og að mannréttindi okkar séu virt. Það krefst hugmyndafræðilegrar stefnubreytingar í því hvernig við nálgumst geðheilbrigðismál. Landssamtökin Geðhjálp hafa lagt sitt á lóðarskálarnar er varðar geðheilbrigðismál Íslendinga síðastliðin 45 ár - og við eigum nóg inni enn! Það er hægt að gera betur - og þörfin er til staðar. Erum við reiðubúin til að horfast í augu við varrúðarljós mælaborðsins?
Svava Arnardóttir, formaður Geðhjálpar