16. október 2024

Nokkrar athyglisverðar bækur

Boðaföll

Nýjar nálganir í sjálfsvígsvörnum

Sjálfsvíg og sjálfsskaði eru málefni sem snerta okkur öll. Það er löngu orðið tímabært að rjúfa þögnina og opna umræðuna.

Boðaföll er fyrsta íslenska bókin sem fjallar um þetta út frá persónulegri reynslu höfunda af öngstræti. Bókin miðlar raunverulegri von um bata fyrir öll sem hafa þjáðst á þennan hátt. Boðaföll gagnast fólki í vanlíðan, ástvinum þeirra, fagfólki og samfélaginu öllu.

Höfundar bókarinnar eru þær Agla Hjörvarsdóttir, Fanney Björk Ingólfsdóttir, Harpa Sif Halldórsdóttir, Hrefna Svanborgar Karlsdóttir, Sigurborg Sveinsdóttir og Svava Arnardóttir


Geðhvörf fyrir byrjendur

Hvernig heldur þú jafnvæginu?

Landspítali hefur gefið út bók undir yfirskriftinni Geðhvörf fyrir byrjendur þar sem fjallað er um geðhvörf frá öllum hliðum.

Bókin er þýdd úr dönsku og staðfærð yfir á íslensku en um er að ræða myndskreytta handbók sem skrifuð er af fólki sem sjálft er með geðhvörf og heilbrigðisstarfsfólki sem gefur svör við mörgum spurningum sem fólk með nýgreind geðhvörf og aðstandendur þeirra hafa.

Geðhvörf fyrir byrjendur er hugsuð sem handbók fyrir fólk sem hefur verið greint með geðhvörf en einnig sem upplýsingarit fyrir aðstandendur og starfsfólk. Í bókinni er fræðileg umfjöllun fléttuð saman við persónulegar frásagnir og greint er frá bæði meðferðarmöguleikum og bjargráðum.


Einmana

Tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar

Öll finnum við fyrir einmanaleika einhvern tíma á lífsleiðinni. Sum upplifa hann aðeins tímabundið, hjá öðrum er hann viðvarandi en hann snertir líf okkar allra með einhverjum hætti.

Í Einmana – tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar fjallar höfundurinn, Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, um einsemdina frá fjölmörgum hliðum. Hún skoðar hver eru einmana, hvenær og af hverju en leitast líka við að varpa ljósi á það sem einmanaleikinn getur kennt okkur og hvernig bregðast megi við honum.

Í bókinni leitar Aðalbjörg víða fanga, hún fjallar um rannsóknir og skrif fræðimanna, kannar birtingarmyndir einsemdarinnar í fjölmiðlum, listum og dægurmenningu auk þess sem hún gerir raunverulegri reynslu einmana fólks skil. Útkoman er fróðlegt rit um mikilvægi tengsla og þá merkingu sem hægt er að finna í lífinu þrátt fyrir einmanaleika.


No Bad Parts

Healing Trauma and Restoring Wholeness with the Internal Family Systems Model

Okkur hefur verið kennt að við búum yfir einni sjálfsmynd og að við eigum að finna fyrir ótta eða skömm þegar við getum ekki stjórnað þeim röddum innra með okkur sem passa ekki við hugmynd okkar um hver við eigum að vera.

Rannsóknir Dr. Richard Schwartz ögra þessari kenningu en hann heldur því fram að við fæðumst öll með marga “hluta” og að lykillinn að góðri heilsu og hamingju sé að heiðra, skilja og elska hvern og einn hluta innra með manni.

Í No Bad Parts sýnir Schwartz fram á hvernig þessi kenning, sem varð að IFS-módelinu, hefur reynst áhrifarík þegar kemur að áfallavinnu, fíknimeðferð og meðferð við þunglyndi.


The Practical Handbook of Hearing Voices

Therapeutic and Creative Approaches

Að heyra raddir, sjá sýnir og upplifa álíka óvenjulega reynslu hefur lengi vakið áhuga fólks en ríkjandi vísinda- og læknisfræðilegur skilningur á þessum fyrirbærum hefur verið sá að líta á slíkar upplifanir sem vandamál.

Þessi tímamótabók byggir á verkum Hearing Voices hreyfingarinnar og fræðimannanna Marius Romme og Sandra Escher sem ögra þessari túlkun. Bókin er samansafn af köflum eftir raddheyrendur, geðheilbrigðisstarfsfólk og rannsakendur sem lýsa ógrynni af skapandi og hjálplegum aðferðum sem fólki finnst gagnlegt að nýta sér gagnvart röddum þegar þeim finnst þær vera erfiðar.


Bittersweet

How Sorrow and Longing Make Us Whole

Í bók sinni Quiet hvatti Susan Cain okkur til þess að búa til rými fyrir vanmetna, ómissandi innhverfa einstaklinga (e. introverts) á meðal okkar og afhjúpaði þar með ónýttan og falinn kraft.

Nú notar hún sömu blöndu af rannsóknum, frásögnum og endurminningum til að kanna hvers vegna við upplifum sorg og þrá en Cain sýnir fram á hvernig ljúfsárt hugarástand hjálpar okkur að komast yfir persónulegan og sameiginlegan sársauka okkar, hvort sem það er vegna andláts eða sambandsslita, fíknar eða veikinda.

Ef við gerum okkur grein fyrir því að við þekkjum öll – eða munum kynnast – missi og þjáningu, getum við snúið okkur hvert að öðru.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram