Styrktarsjóður geðheilbrigðis auglýsir eftir umsóknum í fimmta sinn en tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna og rannsókna sem bætt geta geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.
Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að 25 m.kr. verði til úthlutunar í ár en það er hæsta upphæðin til þessa. Í ár verður sérstaklega horft til umsókna sem miða að bættri geðheilsu barna og ungmenna. Sjóðnum barst rausnarleg gjöf í apríl sl. frá Skúla Helgasyni en hann safnaði 3,4 m.kr. í tengslum við 60 ára afmæli sitt sem skyldu renna í verkefni tengd þessum áherslupunkti ársins hjá sjóðnum.
Heilt yfir er horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir eru metnar:
a. Geðheilsa barna og ungmenna
b. Valdefling notenda
c. Valdefling aðstandenda
d. Mannréttindi og jafnrétti
e. Nýsköpun
Í ár mun fagráð sjóðsins auk þess horfa til færri og stærri verkefna sem geta náð yfir lengri tíma en eitt ár. Með þessu er ekki verið að útiloka önnur verkefni heldur aðeins að bjóða upp á þennan möguleika og þannig hugsanlega hraða uppbyggingu og innleiðingu mikilvægra verkefna.
Umsóknarfrestur er frá 10. júní til og með 5. september 2025. Fimm manna fagráð metur innsendar umsóknir og leggur tillögur að úthlutun styrkja fyrir sjóðsstjórn til ákvörðunar. Sótt er um í gegnum heimasíðu sjóðsins: gedsjodur.is
Stjórn: Svava Arnardóttir, formaður, Héðinn Unnsteinsson og Haraldur Flosi Tryggvason.
Fagráð: Helga Sif Friðjónsdóttir, formaður, Páll Biering, Salbjörg Bjarnadóttir, Hrannar Jónsson og Þórður Páll Jónínuson.
Á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar í maí 2021 var skipulagsskrá sjóðsins samþykkt með 100 m.kr. stofnframlagi samtakanna auk 10 m.kr. viðbótarframlags sem ætlað til fyrstu úthlutunar. Geðhjálp hefur frá þeim tíma lagt sjóðnum til 200 m.kr. til viðbótar. Höfuðstóll sjóðsins stendur í dag í 240 m.kr. en hann má aldrei skerða. Styrkupphæð hvers árs miðast annars vegar við verðtryggða ávöxtun höfuðstólsins og hins vegar af öðrum tekjum (gjöfum og framlögum). Frá fyrstu úthlutun í október 2021 hefur sjóðurinn styrkt 65 verkefni um samtals 60 m.kr. Styrkupphæðir hafa verið frá 150 þús. til 3,5 m.kr.
Hér eru nokkur dæmi um þau fjölbreyttu og mikilvægu verkefni sem sjóðurinn hefur styrkt á þessum tíma:
Grófin: Starfsemi Grófarinnar er byggð á hugmyndafræði valdeflingar, batanálgunar og jafningjasamskipta og stefnir að því að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata. Grófin er geðræktarstaður, opið, gjaldfrjálst úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem hefur upplifað geðræna erfiðleika og vill vinna að bata, með jafningjum í samvinnu við fagfólk Grófarinnar og reynda notendur. Grófin er einnig vettvangur fyrir aðstandendur og annað áhugafólk um geðrækt og geðheilbrigði. Tilgangur Grófarinnar er að efla geðheilsu og draga úr fordómum gagnvart fólki með vanda af geðrænum toga.
Afstaða: Vettvangsteymi Afstöðu býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf, hópmeðfer. Markmið félagsins eru fyrst og fremst þau að vinna að tækifæri fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og að búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélag manna. Hugað er í hvívetna að aðstandendum fanga, fjölskyldum, vinum og öllum öðrum sem sitja í fangelsi úti í hinu frjálsa samfélagi vegna tengsla við fanga. ferðir og fræðslu sem miðar að því að styrkja fanga til að taka ábyrgð á eigin lífi og framtíð.
MetamorPhonics/Korda samfónía: Stendur fyrir viðamikilli starfsemi með starfsendurhæfingu á Íslandi og einstaklingum á meðan á endurhæfingu stendur og eftir að endurhæfingu lýkur. Flaggskipsverkefni MetamorPhonics á Íslandi eru stórhljómsveitin Korda Samfónía og starfsnám fyrir einstaklinga sem koma úr starfsendurhæfingu, en að auki rekur fyrirtækið Lagasmiðjur með starfsendurhæfingu í Hafnarfirði, á Suðurnesjum, Akranesi, Selfossi og á Ísafirði, sem lið í endurhæfingarúrræðum fyrrgreindra stofnana. Korda Samfónía skapar umhverfi til tónsköpunar fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem er að byggja líf sitt upp á ný eftir ýmis áföll.
Olga Khodos: Verkefninu er ætlað að veita sálrænan stuðning við úkraínskt flóttafólk á Íslandi. Þrátt fyrir að vera komnir í öruggt skjól á Íslandi er það undir miklu álagi og geðrænar áskoranir umtalsverðar. Um er að ræða reglulega ókeypis sálfræðiaðstoð við úkraínska flóttamenn á Íslandi á móðurmáli þeirra sem veitt er af eina sálfræðingnum á landinu sem talar málið og veitir þessa þjónustu á hverjum degi.
Tækifærið: Býður upp á námskeið og starfsþjálfun fyrir ungt fólk af erlendum uppruna sem hvorki er virkt í vinnu né námi. Markmiðið er að veita innsýn í íslenskt samfélag og íslenskan vinnumarkað, um leið og unnið er að andlegri, líkamlegri og félagslegri uppbyggingu. Þátttakendur fá aðstoð við atvinnuleit og eftirfylgd á vinnumarkaði eins og þurfa þykir. Tækifærið er fyrir þau sem vilja breyta lífi sínu til batnaðar og verða aftur virk í vinnu. Tækifærið er rekið án hagnaðarsjónarmiða.
Bændasamtökin: Sálgæsla bænda – fræðsla og forvarnir. Gerð voru myndbönd sem á grunni jafningafræðslu, þar sem bændur sem lent hafa í áföllum deila með öðrum sínum frásögnum og segja frá reynslu sinni og auk fræðslu frá sérfræðingum, til dæmis heimilislækni, sálfræðingi eða geðlækni. Gerð fræðsluefnisins var unnin í samráði við notendur og aðstandendur þeirra. Fræðslumyndbönd og efni er aðgengilegt öllum þeim sem eru hluti af Bændasamtökum Íslands.
Matthildarteymið: Skaðaminnkun á tónlistarhátíðum. Matthildarteymið veitir fræðslu og leiðbeiningar um öruggari vímuefnanotkun, skaðaminnkandi búnað og aðgang að vímuefnaprófum. Einnig dreifir verkefnið Naloxone nefúða og veitir fræðslu um áhættur ópíóíðanotkunar.
Matthildarteymið veitir einnig fólki sem glímir við andlega vanlíðan og geðrænar áskoranir, líkt og sjálfsvígshugsanir, kvíða og afleiðingar ofbeldis, aðgang að sálrænum stuðningi og aðstoð við að taka skref í viðeigandi heilbrigðis- og félagsþjónustu. Teymið veitir fræðslu um úrræði sem standa til boða og vísar í þjónustur.
Traustur Kjarni: Traustur Kjarni eru brautryðjandi félagasamtök sem hafa skuldbundið sig til að koma af stað samfélagslegum breytingum í gegnum námskeið í Jafningjastuðningi IPS (Intentional Peer Support). Tilgangur starfseminnar er að efla jafningjastuðning innan þriðja geirans og heilbrigðiskerfisins.
Okkar heimur: Stuðningúrræði fyrir börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda og var sett á laggirnar vegna skorts á stuðningi og fræðslu fyrir börn í þessari stöðu á Íslandi. Helstu verkefni Okkar heims: