8. október 2024

„Þetta var mín endurhæfing“

Ólöf Gunnarsdóttir er söngkona og á tvö börn með sambýlismanni sínum, tveggja og hálfs árs og fimm mánaða gömul. Hún segist hafa fundið framtíðarstarfið í gegnum lagasmiðju og Kordu samfóníu og að hún væri á allt öðrum stað ef þetta hefði ekki komið til, þetta hafi verið hennar endurhæfing.

Hvernig æxlaðist það að þú fórst inn í Kordu samfóníu? „Ég var í endurhæfingu í Sam­­vinnu í Reykjanesbæ en Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths kom inn með lagasmiðju þar. Ég fór í hana og út frá því í Kordu-verkefnið en mér bauðst að fara í það verkefni, sem ég þáði. Lagasmiðjan var mesta þerapían fyrir mig í endurhæf­­ingunni, tónlistin og sköpunin, það gaf mér svo mikið persónulega að vera í tónlist. Það var einstakt að hafa þennan valkost og að fara svo í Kordu verkefnið sem var miklu stærra verkefni.“

Lærir og starfar við tónlist

Ólöf segist hafa verið með í Kordu verkefninu frá byrjun og er hún nú í lærlingsnámi hjá Sigrúnu. „Ég er í námi í tónlistarsmiðju þar, eins og þeirri sem ég byrjaði í sjálf, og er að aðstoða og læra hvernig maður vinnur í svona smiðju sem stjórnandi.“ Ólöf segir aðspurð að hún hafi ekki farið í neitt tónlistarnám en að þetta hafi verið þerapía sem hafi átt vel við hana. „Ég hef alltaf hrifist af tónlist og elskað að syngja en aldrei þorað að taka skrefið fyrr en ég fór í lagasmiðjuna. Ég fór aldrei út fyrir þægindarammann en ári áður en ég fór í Kordu verk­­efnið reif ég plásturinn af og fór í kór. Ég var samt mjög inni í skelinni enn á þeim tíma en frá því að ég byrjaði í lagasmiðjunni og fór svo í Kordu hefur tónlistarferill minn orðið miklu meiri og ég er tengd inn í þann heim þar sem ég er að syngja í jarðarförum og brúðkaupum, bæði með kórnum Vox Felix og einsöng,“ segir Ólöf sem syngur sópran.

„Ég syng alla tónlist, bara það sem ég er beðin um að syngja, þannig að lagasmiðjan og Korda hafa leikið stórt hlutverk í að skapa það sem er mitt starf núna ásamt því að sinna börnunum heima og læra í tónlistarsmiðjunni. Þetta hefur gert rosalega mikið fyrir mig, ég er komin langan veg frá þeim stað sem ég byrjaði á í endurhæf­­ingunni. Það var mikil þerapía fyrir mig að fá að fara í lagasmiðjuna og svo Kordu í framhaldinu og fá að tjá mig í tónlist og tengja við tónlistina í endurhæfingu,“ segir Ólöf með áherslu. Ég mæli með þessu fyrir alla, ekki síst fyrir þá sem hafa einhvern áhuga á tónlist. Þú þarft ekki að vera með neina kunnáttu í tónlist til að fara í listasmiðju eða þora að gera eitthvað, ef þér finnst þetta gaman þá skaltu gera það.“

Ögra sjálfri mér með einhverju sem ég veit að ég hef unun af

„Það var mikil þerapía fyrir mig að fá að fara í lagasmiðjuna og svo Kordu í framhaldinu og að fá að tjá mig í tónlist og tengja við hana í endurhæfingu. Þetta gaf aukið sjálfstraust og ég ögra sjálfri mér með einhverju sem ég veit að ég hef unun af og er stolt af að hafa gert. Þetta hefur mikið að segja.“

Ólöf segir erfitt að útskýra andrúmsloftið í hópnum en að það sé einstakt, fólki þyki vænt hverju um annað og allir vinni vel saman. „Þetta hljómar ýkt en það er þannig, þetta er magnað. Ég mæli 100% með þessu í endurhæfingu og það mætti virkja miklu meira svona þætti í henni, þ.e. sköpun og list af einhverju tagi. Það eru einhverjir töfrar sem gerast við að tjá sig í gegnum hana. Í gegnum þetta hef ég fundið mína braut og er að starfa við það sem ég elska og er svo í starfsnáminu hjá Sigrúnu Sævarsdóttur, það er líka eitthvað sem ég vil gera í framtíðinni, að fara inn í hópa og hjálpa fólki í gegnum tón­­list.

Þetta er þáttur sem þarf að halda áfram að vera í endurhæfingu og á stofnunum og ég vil sjá þessa sköpun styrkjast. Það eru töfrar í þessu og mikill kærleikur og Sigrún er mögnuð kona. Hún mætir fólki þar sem það er og reynir ekki að draga úr fólki en veit hvar mörkin liggja, er fljót að lesa einstaklingana og líka nösk á ef þú þolir að láta ýta á þig að leyfa þér að prófa þig áfram. Ef þetta hefði ekki verið, væri ég á allt öðrum stað. Þetta var mín endurhæf­­ing.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram