24. júní 2025

Þjálfun í gagnlegum aðferðum í tengslum við raddir og aðra óhefðbundna skynjun

Í haust mun fara fram 13 daga þjálfun í í gagnlegum aðferðum í tengslum við raddir og aðra óhefðbundna skynjun með Trevor Eyles, Nina Falkenlove Lauridsen, Michael Cidlik, Anders Schakow og Maria Winther Osmundsen.

Markmið þessa námskeiðs er að styðja, leiðbeina og kenna þeim sem vilja vinna að því að stofna hópa fyrir raddheyrendur og kenna aðferðir og leiðir fyrir þau sem vinna í dag með þeim sem heyra raddir.

Þjálfunin býður upp á aðra nálgun en þá sem hefur verið viðtekin sl. áratugi í geðheilbrigðiskerfinu. Þessi nýja nálgun gengur í stuttu máli út á að skilja, vinna með og eiga samvinnu við raddheyrendur og raddir þeirra. Nálgunin byggir á samtali, er áfallamiðuð og styðjandi.

Þjálfunin er 86 klst. og fer fram á ensku frá kl. 08:30 til 15:30 og verður á höfuðborgarsvæðinu dagana 1. til 5. september, 29. september til 3. október og 18. til 20. nóvember 2025. Hún er ætluð starfsfólki í geðheilbrigðis- og félagsþjónustu, raddheyrendum, aðstandendum og öllum þeim sem hafa áhuga á að læra og tileinka sér nýjar leiðir.

Verðið fyrir námskeiðið er 150.000 kr. en auk þjálfunarinnar er kaffi og létt hressing að morgni og eftir hádegi innifalin. Öryrkjum, raddheyrendum og öðrum, sem kunna að hafa áhuga og gagn af þjálfuninni en fjárhagsaðstæður koma í veg fyrir það, stendur til að boða að sækja um gjaldfrjálsa þátttöku.

Vika 1: 1. til 5. september 2025

Kynning á vinnu með raddir, sögunni og þróun nálgunarinnar, sem byggir á bókum Marius Romme og Söndru Escher: Making Sense of Voices og Living with Voices.

  • Kjarnahugtök Maastricht-aðferðarinnar – nýjar leiðir til að skilja upplifunina.
  • Saga skilnings okkar á svokölluðum „ofskynjunum“, farið yfir helstu rannsóknir o.fl.
  • Menningarlegir þættir þess að heyra raddir.
  • Hvernig er það að heyra raddir? – Raddheyrari deilir sögu sinni.
  • Hlutverk leiðbeinanda
  • Að stofna jafningjahópa raddheyrara – hverjir eru kostirnir?
  • Kynning á Maastricht viðtalinu: Leiðir til að vinna saman.
  • Lyf og raddir – hvað vitum við?
  • Skilningur á röddum – skilaboð og myndlíkingar.
  • Bjargráð og raddir – hvað vitum við?

Vika 2 - 29. september til 3. október 2025

Raddheyrendur segja sögu sína og hvernig hægt er að breyta sambandi sínu við raddirnar.

  • Að vinna með þrjú stig Maastricht viðtalsins.
  • Að þjálfa viðtalstæknina og vinnunni lokið með raddheyranda.
  • Skýrsla.
  • Uppbygging.
  • Vinnuáætlun. Hvað á að gera næst – hvaða þætti upplifunarinnar á að einbeita sér að?

Talað við raddirnar, hagnýt einstaklings- og hópvinna með raddheyrendum.

  • Að vinna með talað við raddir aðferðina sem var þróuð af hollenska geðlækninum Dirk Corstens og byggir á meginreglum raddsamræðu (e. voice dialogue – Stone & Stone).
  • Verkleg sýnikennsla. Raddheyrandi ræðir um aðskynjun/sundurgreiningu vitundar (e. dissociation)
  • Æfing raddsamræðna – í pörum og/eða hópum.

Vika 3 - 18. til 20. nóvember 2025

Eftirfylgni og handleiðsla.

  • Raddheyrandi segir sögu sína.
  • Áfram unnið með talað við raddirnar.
  • Fjallað um erkitýpur radda.
  • Handleiðsla þar sem farið verður yfir áfanga og hugsanlegar hindranir sem þátttakendur hafa
    upplifað sl. vikur í tengslum við viðfangsefnið.

Nánar um leiðbeinendur

Trevor Eyles er sjálfstætt starfandi ráðgjafi varðandi raddir, sem er upphaflega frá Bretlandi en hefur haft aðsetur í Árósum í Danmörku undanfarin þrjátíu ár. Sérhæfð nálgun Trevors felur í sér að vinna einstaklingsbundið með raddheyrendum, setja upp og aðstoða raddheyrandi hópa, þjálfa fagfólk til að skilja og vinna með Maastricht nálgunina (e. Maastricht Interview) og raddsamræður (e. Voice Dialogue) bæði með einstaklingum sem og í vinnustofum.

Nina Falkenlove Lauridsen er frá Esbjerg og er raddheyrandi sem einnig upplifir sýnir. Nina hefur reynslu af því að tala við raddir og af aðskynjun/sundurgreiningu vitundar (e. dissociation). Hún situr í stjórn samtakanna Raddheyrendur í Danmörku (Danish Hearing Voices Network).

Michael Cidlik er frá Veje og er raddheyrandi og sér sýnir. Michael mun deila yfrigripmikilli þekkingu sinni og reynslu auk þess að ræða um svokallaðar erkitýpur radda og hvernig hægt er að skilja þær og lifa með þeim.

Anders Schakow er frá Árósum og er fyrrum raddheyrandi og starfar í dag sem sálfræðingur. Anders er líka stjórnarmaður í samtökunum Raddheyrendur í Danmörku.

Maria Winther Osmundsen er frá Vejle í Danmörku er raddheyrandi sem sér sýnir og hefur persónulega reynslu af því að tala við raddir og sundurgerð (e. dissociation). Maria er núverandi formaður Raddheyrenda í Danmörku.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram