23. desember 2024

Umsögn landssamtakanna Geðhjálpar um Lokaskýrslu starfshóps um stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun

Landssamtökin Geðhjálp fagnar því að ráðist hafi verið í þessa vinnu í kringum stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun. Lokaskýrslan, sem hér er til umsagnar, er vel unnin og ber að þakka öllum þeim sem komu að gerð hennar fyrir góð störf. Skýrslan er skref í rétta átt og mikilvægt að byggja á þessari vinnu til framtíðar.

Þær aðgerðir sem lagðar eru til mjög þarfar og getur Geðhjálp tekið undir þær allar.  

Nokkur atriði sem Geðhjálp vill koma á framfæri

  1. Aðgerð 6.3.7. Samvinna félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með flókinn og fjölþættan vanda

Hér er um afar mikilvæga aðgerð að ræða. Veruleiki margra sem eru í þessari stöðu  í dag, er sá að lenda á milli kerfa og vera vísað ítrekað frá. Virk neysla þýðir oftar en ekki frávísun frá geðþjónustu og vímuefnameðferð kemur aðeins til greina þegar búið er að taka á geðvandanum. Það er ekki hægt að hólfa einstaklinga með þessum hætti. Vímuefnanotkun er stundum eina bjargráð fólks sem hefur gengið í gegnum erfiða hluti á lífsleiðinni og við eigum að meðhöndla neysluna sem slíka. Þarna er vandi innan heilbrigðiskerfisins en hann er einnig að finna á milli þess og þjónustu á vegum sveitarfélaganna. Einstaklingur sem er með geðgreiningu og fötlunargreiningu lendir því miður oft á milli þessara kerfa. Sveitarfélagið segir vandann fyrst og fremst vera heilbrigðisvanda og heilbrigðiskerfið segir vandann fyrst og fremst vera vegna fötlunar.

  • Húsnæði – almennt félagslegt og sértækt

Sveitarfélögin verða almennt að gera miklu betur þegar kemur að félagslegu húsnæði á þeirra vegum. Eitt af lykilviðfangsefnum skaðaminnkunar er öruggara umhverfi og þar er tvennt nefnt sem getur stuðlað að því: Aðgengi að dagsetri og húsnæði.[1] Viðeigandi búsetuúrræði eru því miður af skornum skammti þegar kemur að þeim hópi sem hér er til umfjöllunar. Einstaklingar fá ekki útskrift af lokuðum geðdeildum vegna þess að sveitarfélögin geta ekki boðið upp á viðeigandi úrræði. Neyðarskýli eru rekin í einu sveitarfélagi en aðeins yfir blánóttina og dagsetur standa flestum þessara einstaklinga ekki til boða sem aftur eykur á neyðina. Einstaklingar eru fluttir hreppaflutningum af því sveitarfélagið fer ekki að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Vandinn er mikill og við honum þarf að bregðast.

Aðgengismál eru því miður enn of bundin við líkamlega fötlun. Það er t.d. nær ekkert tekið tillit til skynsegin einstaklinga þegar kemur að aðgengi þrátt fyrir að vitneskja um þá „fötlun“ sé áratuga gömul. Þetta er aftarlega á forgangslistanum þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis og úrræða í dag. Þetta er mikilvægt því einstaklingar með flókinn vanda, sem þó er viðráðanlegur, geta misst tökin á lífi sínu þegar ekki er tekið tillit til fötlunar þeirra.

  • Jafningjar

Víða hefur hugmyndafræði sem byggir á jafningjanálgun rutt sér til rúms í starfi og meðferð einstaklinga sem búa við geðrænan vanda. Þetta á líka við um Ísland en því miður eru fyrirvararnir við þessa nálgun enn talsverðir í kerfinu hér. Vímuefnameðferðir byggðar á svokölluðu Minnesota módeli byggja að hluta til á jafningjanálgun en þó er valdajafnvægið allt annað en í þeirri jafningjanálgun sem um er að ræða hér.[2] Skýrslan ber þess nokkur merki að raddir notenda í henni eru veikari en raddir þjónustuveitenda og fagfólks. Það hafa verið jákvæð skref tekin í átt að meiri samsköpun (co-creation) á Íslandi en oft á lokametrunum virðist því miður vera leitað í gömlu hugmyndirnar og þá er stutt í að hugtök eins og gagnreyndar aðferðir séu ofnotuð. Geðheilbrigðiskerfið, fíkn þar á meðal, á enn nokkuð í land þegar kemur að samsköpun.

  • Afglæpavæðing neysluskammta

Geðhjálp tekur undir með Afstöðu, Rótinni og Matthildarsamtökunum um að afglæpavæðing neysluskammta er mikilvægur þáttur í skaðaminnkun. Að starfshópurinn hafi ekki hlustað betur á raddir notenda og hagsmunasamtaka þeirra er í raun birtingarmynd þess hve raddir þjónustuþega eru veikara en raddir þjónustuveitenda. Hér verður að gera betur.

  • Skjólshús

Geðhjálp hefur lagt til við stjórnvöld að samtökin opni Skjólshús (Safehouse) sem byggir á hugmyndafræði jafningjanálgunar. Geðhjálp muni reka úrræðið fyrstu þrjú til fimm árin en eftir það verði það hluti af öðrum sjálfstæðum virkni-, meðferðar- og búsetuúrræðum. Samtökin eru reiðubúin að leggja úrræðinu til 50 m.kr. stofnframlag auk þess að leggja því til 20 til 25 m.kr. rekstrarframlag fyrstu þrjú árin. Það er mat Geðhjálpar að skjólshús geti komið í veg fyrir að einstaklingar með geðrænar áskoranir þrói með sér flóknari vanda. Tilgangur skjólshúss er fjórþættur:

  1. Tryggja annan valkost í stað sjúkrahúsdvalar fyrir þau sem hafa endurtekið leitað sér aðstoðar á geðdeild og/eða gætu átt erfiða, áfallatengda reynslu af fyrri sjúkrahúsinnlögn. Að sama skapi getur skjólshúsið gripið fólk fyrr á því tímabili sem vanlíðan er hvað mest og jafnvel náð til einstaklinga sem myndu aldrei sjálfviljugir leita á geðdeild. 
  2. Bjóða einstaklingum upp á tækifæri til að ganga í gegnum lífskrísu án inngripa. Slíkt ferðalag gefur færi á að finna þýðingu og tilgang upplifunarinnar í stað þess að forðast hana og leitast við að stöðva með öllum tiltækum ráðum. 
  3. Skapa rými fyrir jafningjastuðning þar sem persónuleg reynsla af andlegum áskorunum er álitin dýrmæt og mikilsverð þekking sem getur reynst öðrum hjálpleg. Hér verða til atvinnutækifæri og sveigjanleg störf fyrir fólk sem hefur þessa ómetanlegu sérfræðiþekkingu.
  4. Gefa færi á að vinna úr samfélagslegum meinum á borð við mismunun, jaðarsetningu og annað er varðar samfélagslegt óréttlæti.

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar


[1] Lokaskýrsla starfshóps um stefnu og aðgerðir í skaðaminnkun, 62.

[2] Sjá nánar um Intentional Peer Support: www.intentionalpeersupport.org

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram