6. október 2025

Umsögn um fjárlagafrumvarp 2026

Starfsfólk Geðhjálpar fór í september í ferðalag um landið þar sem annarsvegar voru haldnir fundir með sveitarstjórnarfólki, lögreglu og stjórnendum skóla- og velferðarsviða og hins vegar haldnir opnir kvöldfundir fyrir almenning. Á fundum með báðum þessum hópum var talað um geðrækt og geðheilbrigðismál á breiðum grunni.

Á fundunum með sveitarstjórnarfólkinu var hins vegar kafað aðeins dýpra og helstu mælikvarðar á geðheilsu þjóðarinnar, geðheilsuvísar, voru skoðaðir. Þegar þessir geðheilsuvísar eru ígrundaðir og aðgerðir stjórnvalda í málaflokknum metnar til hliðsjónar er því miður ljóst að geðheilbrigðismál eru ekki í neinum forgangi hjá stjórnvöldum landsins. Geðhjálp skilaði fyrir ári inn umsögn um fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs og það sagði það sama: geðheilbrigðismál eru ekki í forgangi á Íslandi.

Um hásumar í fyrra skilaði umboðsmaður Alþingis inn skýrslum um tvö vistheimili/úrræði fyrir börn sem rekin eru af einkaaðilum.¹ Þar komu fram áhyggjur af skorti á faglegu starfsfólki og eftirlit væri lítið. Skömmu áður hafði Ríkislögreglustjóri sent frá sér skýrsluna Ofbeldi barna – staðan og áskoranir.² Þessar skýrslur voru í takt við þær vísbendingar, sem komu fram í gögnum um líðan barna í skólum annars vegar og geðlyfjanotkun barna og ungmenna hins vegar, sem Geðhjálp hefur tekið saman og skilað samviskusamlega til stjórnvalda undanfarin ár. Hér má t.d. sjá tölur um þunglyndis- og kvíðalyfjanotkun barna á aldrinum 6 til 17 ára á árunum 2013 til 2024 (sjá mynd 1).³

Um mitt sumar 2025 sendi Barna- og fjölskyldustofa frá sér skýrsluna Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu á árunum 2022-2024.⁴ Í skýrslunni kom fram að árið 2022 bárust barnaverndarnefndum landsins 3942 tilkynningar sem flokkaðar voru sem áhættuhegðun barna. Árið 2023 voru þær 4931 og 2024 voru tilkynningarnar 5648. Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði samtals um 43% á tímabilinu, 41% hjá drengjum og 47% hjá stúlkum. Það eru nokkrir undirflokkar í áhættuhegðun barna en þrír skoðaðir nánar hér: áfengis- og vímuefnaneysla, afbrot og barn beitir ofbeldi. Áfengis- og vímuefnaneysla barna hefur aukist sl. ár og íslenska leiðin í forvörnum, sem við höfum ferðast með og kynnt út um allan heim sl. tvo áratugi, virðist hafa verið siglt í strand eða er hreinlega sokkin. Tölurnar í skýrslu Barnaverndarstofu sýna það svart á hvítu. Tilkynningum um áfengis- og vímuefnaneyslu barna fjölgaði um 72% og fjölgaði um 57% hjá drengjum og 93% hjá stúlkum. Afbrota- og ofbeldistilkynningum fjölgaði um 35% til 47% og var aukningin mest hjá stúlkum (sjá mynd 2).

Í skýrslu sem Barna- og fjölskyldustofa sendi frá sér þann 22. september sl. kemur fram að tilkynningar til barnaverndarþjónustu fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafi fjölgað um 12,5% miðað við sama tímabil árið 2024. Tilkynningum um áhættuhegðun barns fjölgaði um 17,1% á milli ára. Ef tilkynningum fjölgar hlutfallslega yfir allt árið um 17,1% þá verða þær 6614 í lok árs sem er 2672 tilkynningum fleiri en árið 2022.

Fjárlagafrumvarp ársins 2026 og fjármálaáætlun til ársins 2030 gefa fyrirheit um hvaða málaflokkar fá sérstaka athygli þessi ár. Við höfum áður fjallað um fjármálaáætlun og rýrt innihald hvað geðheilbrigðismál varðar. Í fjárlagafrumvarpinu eru samtals 131.932 orð og þá eru tölur undanskildar. Orðið „geð“, stakt eða sem hluti af orði, kemur fyrir 12 sinnum. Til samanburðar koma varnar- og öryggismál 69 sinnum fyrir (og þá er öryggisvistun,
öryggisþjónusta og öryggisúrræði ekki talin með). Auðvitað þarf þetta ekki að þýða neitt því þessi 12 tilvik gætu verið innihaldsrík og gefið góð fyrirheit. Því miður er það ekki þannig og í þessum efnum virðist magn tengjast gæðum og þá fjárheimildum.

Geðheilbrigðismál eru ekki í forgangi í þessu fjárlagafrumvarpi. Það sem sett er í málaflokkinn er fyrst og fremst vegna stórkostlegrar neyðar sem skapast hefur í málefnum ósakhæfra einstaklinga. Þannig er 2 ma.kr. aukning vegna öryggisvistunar og öryggisúrræða vegna þessara einstaklinga.

Framlagið er fært á almennan varasjóð en gert er ráð fyrir að því verði dreift síðar þegar verkaskipting milli ráðuneyta liggur betur fyrir í frumvarpi sem unnið er að um öryggisþjónustu við fullorðna einstaklinga með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska-og geðraskanir.⁵

Í þessu birtist líka sá landlægi vandi íslenskrar stjórnsýslu að verkaskipting ráðuneyta liggur ekki fyrir þegar kemur að fjölmörgum úrlausnarefnum. Á meðan bíður fólk og fær ekki þjónustu. Það kemur einnig fram að 600 m.kr. verði settar í rekstur átta nýrra öryggisvistunarrýma á Kleppi.⁶ Að auki verður veitt 2,3 ma.kr. til ýmissa áherslumála ríkisstjórnarinnar. Þarna undir liggja mjög stór verkefni en ekki er tilgreint hvernig fjármununum verði skipt niður:

Þar af eru geðheilbrigðismál efld í samræmi við áætlun og geðheilbrigðisstefnu með áherslu á aukna þjónustu við börn, ásamt meðferðarúrræðum við fíknivanda, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar o.fl.[…] Millifærðar eru 66 m.kr. á málefnasvið 23 Sjúkrahúsþjónusta vegna uppbyggingar sérhæfðrar geðþjónustu fyrir aldraða.“⁷

Fjallað er um einstaklingsmiðaða þjónustu og atvinnu með stuðning og að auka skuli sértæka þjónustu við ungt fólk sem stendur frammi fyrir geðrænum eða félagslegum áskorunum. Það er hins vegar ekkert fjármagn tilgreint til þessara mikilvægu verkefna og tekið fram að þetta sé innan hins þrönga ramma.⁸

Landssamtökin Geðhjálp fagna auðvitað hverri krónu sem sett er í geðheilbrigðismál. Það breytir því hins vegar ekki að árálangt fjársvelti við málaflokkinn hefur skilið eftir mjög stóra innviðaskuld sem ekki verður bætt fyrir með smáskammta lækningum. Geðheilsuvísarnir, sem hér hefur verið vitnað til, gefa það einnig sterkt til kynna að áherslurnar séu á röngum enda.

Geðheilbrigði í Danmörku og aðgerðir stjórnvalda

Í maí sl. kynnti ríkisstjórn Danmerkur og allir flokkar á danska þinginu sameiginlega fullfjármagnaða 10 ára áætlun í geðheilbrigðismálum.⁹ Áætlunin er niðurstaða ítarlegrar greiningarvinnu á öllu kerfinu og þjónustu við alla aldurshópa á öllum stjórnsýslustigum. Ólíkt íslenskum aðgerðaráætlunum í geðheilbrigðismálum, sem Alþingi samþykkir reglulega hvar aðeins 10% aðgerða eru fjármagnaðar, fylgir fjármagn þessari dönsku áætlun. Framlög til
geðheilbrigðismála í Danmörku munu aukast árlega um 19,2 milljarða eða um 35%. Í ár gera Danir ráð fyrir að setja 278 milljarða í málaflokkinn, sem heimfært á fólksfjölda á Íslandi, er rétt um 19 milljarðar. Til samanburðar, sýna tölur fengnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar 2022, að áætla má að framlög til geðheilbrigðismála verði um 12,7 milljarðar á Íslandi í ár.¹⁰ Þetta þýðir að í ár eru framlög til málaflokksins 54% hærri í Danmörku en hér og verða 79% hærri árið 2030 ef Ísland heldur áfram hækka framlög til málaflokksins aðeins um hluta hækkunar vísitölu neysluverðs. Miðað við smæð Íslands ættu framlög til geðheilbrigðismála í rauninni að vera 15% hærri en í Danmörku þar sem stærðarhagkvæmnin er okkur ekki í hag.

Áhersluatriði dönsku áætlunarinnar: Börn og einhverfu- og ADHD miðstöðvar

Það er vert að hafa það í huga að gríðarlegar endurbætur á húsnæði geðheilbrigðiskerfisins hafa staðið yfir sl. áratug í Danmörku á landsvísu og hafa þannig á annan tug nýrra geðdeilda verið opnaðar og gömlum úreltum deildum verið lokað. Einnig hefur húsnæði nærþjónustunnar verið endurbætt. Þessar miklu fjárfestingar eru fyrir utan þær tölur sem áður var vitnað til. Úrræði á vegum sveitarfélaganna í Danmörku eru bæði fleiri og fjölbreyttari en við þekkjum í sveitarfélögum á Íslandi. Sú staðreynd gerir innviðaskuldina á Íslandi enn stærri. Auðvitað er húsnæði ekki það mikilvægasta þegar kemur að geðmeðferð, heldur innihald meðferðarinnar, en gott umhverfi getur haft talsvert að segja og þetta skiptir því verulegu máli. Á Íslandi hafa bæði endurbætur húsnæðis og innleiðing nýrra meðferða verið sett neðarlega á forgangslista í áratugi.

Í dönsku áætluninni er sérstök áhersla á börn og ungmenni þar sem tilgreindar aðgerðir eru fjölmargar. Áherslan er á fyrirbyggjandi úrræði og snemmtæka íhlutun í nærsamfélaginu. Meðal þeirra atriða sem sérstaklega er gefinn gaumur eru: Aðgengileg meðferðarúrræði í nærsamfélagi barna án innlagnar, fjölgun og styrking lágþröskuldaúrræða eins og „headspace“ fyrir börn, stórauka á stuðning við foreldra og forráðamenn og auka stuðning innan skólakerfisins á öllum skólastigum. Og aftur er vert að minna á að þetta eru fjármagnaðar aðgerðir ekki óskalisti eins og aðgerðaáætlanir í geðheilbrigðismálum eru hér á landi.

Á Íslandi hefur mikið verið fjallað um stöðu einstaklinga með taugaþroskaraskanir innan geðheilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega einstaklinga með einhverfu greiningar. Þjónusta við þennan hóp hefur verið lítil sem engin og sveitarfélögin og ríkið hafa því miður látið deilur um kostnaðarskiptingu koma niður á þjónustu við hópinn. Einstaklingum með einhverfu greiningu hefur þannig beinlínis, vegna greiningarinnar, verið vísað frá geðdeildum
og geðheilsuteymum vegna fötlunar en frá félagsþjónustu vegna geðræns vanda. Í dönsku áætluninni er gert ráð fyrir stórátaki innan geðheilbrigðiskerfisins fyrir þennan hóp og hann tekinn sérstaklega út fyrir sviga. Opnaðar verða nýjar geðheilsumiðstöðvar sem sérhæfa sig í meðferð einhverfra og einstaklinga með ADHD greiningar. Það ber að hafa í huga að áður en Danir samþykktu að ráðast í þessar aðgerðir var þjónustan við þennan hóp langtum markvissari og betri en við eigum að þekkja hér á landi. Í nýútkominni skýrslu um málefni fullorðinna
einhverfra segir m.a. í niðurstöðum:

Kortlagning starfshópsins sýnir að þjónusta við fullorðna einhverfa er víða í boði en er oft ómarkviss, ósamræmd og aðeins aðgengileg fyrir hluta hópsins. Þjónustu- og fagaðila skorti gjarnan þekkingu á sértækum þörfum fullorðinna einhverfra og aðgengi að þjónustu geti verið flókið, ósveigjanlegt og oft miðað við forsendur annarra hópa.¹¹

Hlustum á það sem einkennin eru að segja okkur

Það sem kemur fram í þeim gögnum sem hér er vísað til er að geðheilbrigðismál eru ekki í forgangi á Íslandi. Farsæld og önnur góð fyrirheit í bland við fjölmarga vinnuhópa hefur litlu skilað. Geðheilsuvísar um stöðu barna á Íslandi eru dæmi um einkenni ákveðins ástands. Orsakirnar liggja víða en einkennin beinlínis öskra á að brugðist verði við án tafar. Við höfum hingað til forgangsraðað skakkt og ef settir hafa verið fjármunir í geðheilbrigðiskerfið þá hefur það að nær öllu leyti farið í aðgerðir til höfuðs einkennum en ekki orsökum ástandsins. Við höfum vanfjármagnað geðheilbrigðiskerfið um langt árabil og afleiðingar þess eru bæði alvarlegar og þjóðhagslega kostnaðarsamar. Stjórnvöld gáfu það út fyrir nokkrum árum að kostnaður samfélagsins vegna áfalla barna í æsku væri um 100 ma.kr. árlega. Við getum ekki lengur „reddað“ okkur frá þessum vanda með viku þjóðarátaki gegn vímuefnum, stólað á frjáls félagasamtök eða sópað vandanum undir teppið með því t.d. að senda börn á einkareknar
stofnanir sem fá falleinkunn þá sjaldan eftirliti er sinnt. Með því erum við í besta falli að fresta vanda en líklegar að auka hann verulega með tilheyrandi harmi og gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir samfélagið. Í málefnum skynsegin fólks á öllum aldri hefur hver starfshópurinn á eftir öðrum skilað inn tillögum en við erum enn að henda einstaklingum á milli kerfa af því að þeir eru metnir ýmist „fatlaðir“ eða „geðveikir“ eftir því hvort það er ríkið eða sveitarfélagið sem metur „vandann“.

Við verðum að fara fyrir ofan fossinn, að orsökum ástandsins, í stað þess að halda áfram á þessari leið. Einbeitum okkur að orsökunum – við gætum t.d. byrjað á þessu:

  • Setjumst niður og gerum sáttmála um það að leiðrétta innviðaskuld okkar við börn og velferðarkerfið almennt.
  • Styðjum verðandi foreldra og fræðum alla meðgönguna. Styðjum þau áfram eftir fæðingu barns.
  • Gerum foreldrum efnahagslega kleift að vera með barni sínu fyrstu tvö ár ævi þess.
  • Afstofnanavæðum æskuna og setjum þarfir fjölskyldna í stað atvinnulífsins í öndvegi.
  • Stokkum upp öll skólastig barna- og ungmenna með áherslu á þarfir barna og þroska.
  • Endurskoðum hlutverk skóla, færum ábyrgð á uppeldi aftur til foreldra og drögum þannig úr útvistun æskunnar og uppeldis barna.
  • Hverfum frá sjónarmiðum einstaklingshyggju þegar kemur að búsetu og setjum áherslu á samveru með t.d. kynslóðabúsetukostum.
  • Stokkum upp í félags- og heilbrigðiskerfinu þannig að batamiðuðum úrræðum fjölgi en óskilvirkar og einkennamiðaðar lausnir verði lagðar á hilluna.
  • Endurskoðum verðmætamat samfélagsins og áttum okkur á því að hagvöxtur er vondur mælikvarði á velgengni okkar.
  • Hættum að flokka fólk út frá „kostnaði“ eins og sveitarfélög og ríkið gera í tilfellum einstaklinga með taugaþroskaraskanir.
  • Gerum nýja fjármálaáætlun og ný fjárlög þar sem það verður heilög skylda okkar að vernda börn.

Virðingarfyllst,
Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar


¹„Faglært starfsfólk og eftirlit skortir í tveimur einkareknum úrræðum fyrir börn.“ Umboðsmaður Alþingis. 2.
júlí 2024. https://www.umbodsmadur.is/frettir/nanar/9483/faglaert-starfsfolk-og-eftirlit-skortir-med-tveimur
einkareknum-urraedum-fyrir-born

²Ari Páll Karlsson. „Alvarlegum ofbeldisbrotum ungmenna fjölgað mikið síðustu ár.“ RÚV, 24. júní 2024.
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-06-24-alvarlegum-ofbeldisbrotum-ungmenna-fjolgad-mikid-sidustu-ar416362
³„Lyfjanotkun – tölur.“ Embætti landlæknis. https://island.is/tolfraedi-um-lyfjanotkun
⁴„Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu á árunum 2022-2024.“ Barna- og fjölskyldustofa.
https://island.is/s/bofs/frett/samanburdur-a-fjoelda-tilkynninga-til-barnaverndarthjonusta-a-arunum-2022
⁵„Fjárlagafrumvarp 2026.“ 137. Stjórnarráðið. https://www.stjornarradid.is/verkefni/opinberfjarmal/fjarlog/fjarlog-fyrir-arid-2026/
⁶„Fjárlagafrumvarp 2026.“ 287. Stjórnarráðið. https://www.stjornarradid.is/verkefni/opinberfjarmal/fjarlog/fjarlog-fyrir-arid-2026/
⁷Sama heimild, 293.
⁸Sama heimild, 323.
⁹„Regeringen fuldender 10-årsplan for psykiatrien med nyt udspil.” Innanríkis- og heilbrigðisráðuneyti
Danmerkur. https://regeringen.dk/nyheder/2025/regeringen-fuldender-10-aarsplan-for-psykiatrien-med-nyt-udspil-1/
¹⁰„Geðheilbrigðisþjónusta – stefna, skipulag, kostnaður og árangur.“ Ríkisendurskoðun. https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar?id=976
¹¹„Málefni fullorðinna einhverfra.“ Stjórnarráðið. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/10/01/Starfshopur-um-malefni-fullordinna-einhverfra-skilar-tillogum-til-radherra-/

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram