Samfélag nútímans með öllum sínum hraða og hlaðborði tækifæra getur reynst okkur öllum nokkuð flókið á köflum. Þannig hefur saga mannkynsins væntanlega verið alla tíð. Síðustu tvær aldir hafa hins vegar verið aldir breytinga og gríðarlegra framfara. Iðnbyltingin og þær miklu breytingar á lifnaðarháttum okkar sem hún hafði í för með sér kölluðu fram jákvæða hluti fyrir okkur sem tegund en líka neikvæða. Jákvæðir hlutir eins og betri húsakostur, betra og fjölbreyttara fæði, framþróun í læknisfræði, aukið frelsi, bætt mannréttindi og aukið jafnrétti eru allt fylgifiskar þeirra miklu breytinga sem iðnbyltingin færði okkur. Neikvæðar hliðar á sama peningi eru hins vegar nokkrar eins og t.d. aukinn hraði, meiri neysla og aukning í lífsstílstengdum sjúkdómum.
Þessar neikvæðu hliðar aukinnar velmegunar og breytinga á samfélaginu má greina í gegnum ýmsa lýðheilsuvísa sem haldið hefur verið utan um á Íslandi t.d. hjá embætti landlæknis og í gegnum ýmsar rannsóknir háskóla og fyrirtækja sem gefa sig að rannsóknum í félags- og lýðheilsufræðum. Gögn erlendis frá, t.d. frá Norðurlöndunum, hafa haft svipaða sögu að segja.
Geðhjálp hefur undanfarin ár reynt að beina kastljósinu að orsökum frekar en afleiðingum vandans. Auðvitað er það ekki svo að félagslegir þættir stjórni einir för þegar kemur að geðheilsu fólks en umhverfi og félagslegir þættir skipta mjög miklu máli. Það er þess vegna sem áhersla samtakanna sl. ár hefur verið á það sem við köllum að vera fyrir ofan fossinn – setja forvarnir og heilsueflingu í forgang.
Í sumar hefur umræða um stöðu barna í menntakerfinu verið talsvert áberandi í samfélaginu. Eins og svo oft þegar umræða um stöðu barna, hvort sem það er í tengslum við menntakerfið, heilbrigðiskerfið eða félagslega þætti á sér stað virðist hún festast í skotgröfum og þrætueplið verður einhver einn afmarkaður þáttur. Núna er það menntakerfið sem fólk festist í og mögulegt aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og ráðherra málaflokksins. Ráðherrann bregst við með því að benda á allt sem hefur verið gert eða er á dagskrá að gera. Vandinn við þessa nálgun er að hún skilar engu. Hún er of takmörkuð og skortir bæði fjarlægð og yfirsýn. Staða barna í sam-félaginu á sér margra ára og jafnvel áratuga sögu og teygir anga sína ekki bara til menntakerfisins heldur er um að ræða samspil margra mikilvægra þátta sem huga verður að þegar kemur að þroska og velferð hvers barns.
Það eru ýmis gögn sem benda til þess að geðheilsu barna og ungmenna hafi hrakað sl. áratug. Ágæt vísbending eru útgefnar skýrslur fyrirtækisins Rannsóknir og greining um líðan ungs fólks í 8. til 10. bekk grunnskóla¹ sem hafa verið gefnar út á hverju ári frá 2007. Þegar síðustu 10 ár eru skoðuð í tengslum við andlega líðan hópsins eru niðurstöðurnar a.m.k. vísbending um að við séum ekki á réttri leið (sjá mynd 1).
Það eru eins og áður sagði margir þættir sem orsaka þessa þróun. Það er fróðlegt að setja samfélagsmiðla á tímaás með niðurstöðum Rannsókna og greiningar. Instagram hefur innreið sína í líf barna og ungmenna í kringum 2014, Snapchat um 2016 og TikTok 2019. Það er ekki hægt að fullyrða að áhrif samfélagsmiðla á geðheilsu barna og ungmenna sé lykilbreyta hér en það er alveg ljóst að það er ekki langsótt tilgáta.
Í bók sinni Dópamínríkið² fjallar geðlæknirinn Anna Lembke um hvernig við nútímafólk sækjumst í auknum mæli eftir stöðugri örvun og verðlaunum sem við náum með áráttukenndri neyslu eða hegðun sem kallar síðan fram vanlíðan sem aftur kallar á meiri neyslu. Þegar börn eru síðan eftirlitslaus á valdi algríms Youtube og/eða TikTok þá sé í raun voðinn vís.
Annar mælikvarði á geðheilsu barna og ungmenna er lyfjagagnagrunnur embættis landlæknis. Þar má sjá gríðarlega aukningu í geðlyfjanotkun barna sl. 10 ár³ (sjá mynd 2). Það skal tekið fram að geðlyf geta verið lífsnauðsynleg og afar gagnleg fyrir marga. Með því að benda á aukningu í notkun þeirra er Geðhjálp, og hér framkvæmdastjóri samtakanna, ekki að tala á móti geðlyfjum eða geðgreiningum, heldur benda á að þessi mikla aukning sé til marks um aukinn vanda og ákveðið úrræðaleysi.
Geðlyfjanotkun eykst í þessum þremur flokkum úr 71% í 256% á þessu 10 ára tímabili. Nú er svo komið að tæp 7% barna á aldrinum 6 til 17 ára nota þunglyndislyf, 5,7% svefn- og róandi lyf og 12,5% nota ADHD-lyf.
Í viðtali í Læknablaðinu árið 2019 við Bertrand Andre Marc Lauth, geðlækni á barna- og unglingageðdeild Landspítala, kom margt áhugavert fram. Hann sagði m.a. þetta:
Börn og unglingar glíma við meiri tilfinningavanda en áður og benda tölur til þess að tíðni sjálfsvíga barna og ungmenna á aldrinum 15-19 ára sé enn há hér á landi. [Bertrand] segir það ekki tilviljun heldur langtímaafleiðingu sparnaðar í forvörnum og úrræðaleysis í kerfinu.⁴
Og hann sagði þetta síðar í viðtalinu:
En í gögnum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, benda tölurnar til þess að tíðnin sé enn há á Íslandi á aldursbilinu 15-19 ára og fyrir ofan meðaltalið í öðrum löndum Evrópu. Hann segir sterkar vísbendingar um að geðheilsu barna og unglinga á Íslandi hraki, með vaxandi einkennum kvíða og þunglyndis.⁵
Svona lýsti barnageðlæknir stöðunni fyrir fimm árum og rétt fyrir Covid -tímabilið, sem verður án efa viðfangsefni rannsókna á sviði félags- og heilbrigðisvísinda langt inn í framtíðina.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi strax í upphafi Covid-faraldursins frá sér yfirlýsingu þar sem varað var við áhrifum faraldursins á geðheilsu til skemmri og lengri tíma. Kreppur sl. 100 ára voru fyrst og fremst efnahagslegar og því er erfitt að leita í söguna til að spá fyrir um afleiðingar. Einangrun, ótti, samfélagsmiðlar, falsfréttir o.fl. gerðu þessa kreppu flóknari en aðrar kreppur í sögunni. Líkindi er helst að finna í löndum þar sem
einstaklingar hafa búið við skert frelsi vegna stjórnmálaskoðana eða stríðsástands.
WHO sendi síðan frá sér aðra yfirlýsingu þann 8. október 2021 þar sem m.a. eftirfarandi kom fram:
Samantekt, sem birt er í nýjum gagnagrunni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um geðheilbrigðismál, sýnir svart á hvítu að þjóðum heimsins hefur mistekist að bjóða þegnunum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Þetta gerist á þeim tíma sem mikilvægi þess að setja geðheilbrigðismál á oddinn hefur aldrei verið jafn brýnt.⁶
Þrátt fyrir að okkur hafi gengið betur í sóttvörnum en flestum þjóðum er ljóst að faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið og valdið miklu tjóni. Atvinnuleysi var viðvarandi í nokkur misseri og meira en við höfum áður séð á lýðveldistímanum og voru um tíma á þriðja tug þúsunda án atvinnu á Íslandi og langtíma atvinnuleysi var í sögulegu hámarki. Ríkissjóður hefur verið rekinn með halla í mörg ár og ekki bætti úr skák að í lok Covid-faraldursins tóku við eldsumbrot á Reykjanesskaga sem hefur einnig haft mikil áhrif á marga þætti mannlegrar tilveru. Slíkt ástand, þar sem fólk er án vinnu, hefur mikil áhrif á þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn eða þá sem lengi hafa verið án vinnu. Börn, ungt fólk og einstaklingar sem bjuggu við hvers konar áskoranir áttu sérstaklega undir högg að sækja á þessum tíma og í dag eru eftirköst þessa ástands farin að koma betur og betur í ljós.
Við fundum öll fyrir þeim aðgerðum sem gripið var til en mismikið. Börn og ungmenni voru þannig talsvert berskjölduð fyrir geðrænum fylgikvillum þeirra aðgerða sem gripið var til í baráttunni við veiruna. Á mikilvægum mótunartíma í þroska þeirra snerist tilvera þeirra á hvolf. Skóli, tómstundir, samvera, nánd, hreyfing, rútína o.s.frv. var á hvolfi í tæp þrjú ár. Mánuður getur verið langur tími í lífi þeirra sem eru að ljúka grunnskóla eða byrja í framhaldsskóla. Þegar langir kaflar í lífi þessara einstaklinga eru undirlagðir skerðingu lífsgæða í formi fjöldatakmarkana og lokana þá hefur það áhrif á geðheilsu þeirra.
Rannsóknir á skammtímaáhrif um Covid á geðheilsu sérstaklega barna og ungmenna eru ekki margar og langtímaáhrifin eru ekki að fullu komin í ljós. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út skýrsluna Mental Health and COVID 19: Early evidence of the pandemic‘s impact⁷ í mars 2022 þar sem fyrstu gögn voru tekin saman. Þar komu fram sterkar vísbendingar um neikvæð áhrif sóttvarnaraðgerða á geðheilsu. Sérstaklega er tekið fram að sjálfsvígstíðni barna og ungmenna hafi aukist og geðheilsu hrakað þar sem aðgerðir gegn veirunni voru umfangsmiklar. Hér á Íslandi hefur þetta ekki mikið verið rannsakað en í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins í maí 2021 kom eftirfarandi fram:
Reynsla BUGL frá efnahagshruninu 2008 var sú að áhrif á starfsemi BUGL komu ekki að fullu fram strax. Nú þegar hefur orðið 34% aukning í bráðakomum og bráðainnlögnum ef litið er til tímabilsins janúar-febrúar 2021 samanborið við sama tímabil 2020.⁸
Í bréfi frá sérfræðingum í barna- og unglingageðlækningum sem sent var heilbrigðisráðherra og barnamálaráðherra í maí 2024 vegna stöðu barna- og unglingalækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir m.a.: „Reynslan hefur sýnt að þörf fyrir bráðaþjónustu í barnaog unglingageðlækningum er umtalsverð og hefur farið vaxandi um margra ára skeið.“ Er jafnvel talað um að aukningin frá 2019 til 2024 sé hátt í 200%. Miðað við reynsluna af efnahagshruninu má telja líklegt að við eigum eftir að sjá enn meiri aukningu á bráðainnlögnum og vanda barna og ungmenna á Íslandi.
Eins og kom fram hér í upphafi greinarinnar þá festist umræðan gjarnan í einhverju einu og skortur á yfirsýn kemur í veg fyrir aðgerðir sem líklegt er að skili árangri. Geðheilbrigðismál hafa verið talsvert í umræðunni undanfarin misseri og stjórnvöld og stjórnmálafólk hefur gefið það út fyrir síðustu tvennar alþingiskosningar að málaflokkurinn væri í algjörum forgangi. Það er auðvitað mjög gott en því miður hefur skort aðgerðir. Geðhjálp hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að gefa málaflokknum raunverulegan gaum eins og hann á svo sannarlega skilið. Það er sérstaklega mikilvægt að huga að forvörnum og heilsueflingu barna og ungmenna ef ekki á hreinlega að fara illa í náinni framtíð.
Verðmætamat okkar þarf að breytast. Efnishyggjan hefur því miður fengið að ráða allt of lengi. Síaukin neysla okkar festir okkur í eltingaleik sem skilur lítið eftir sig og er svo sannarlega ekki vinsamlegur geðheilsu okkar. Þegar veiran herjaði á okkur var engu til sparað þegar kom að mannafla eða fjármagni. Við þurfum að horfa þannig á geðheilbrigðismál og þá sérstaklega barna og ungmenna. Hvar er þríeykið? Hvar eru greiningardeildir bankanna? Hvers vegna þykir það eðlilegt að borga þrjá milljarða fyrir söluráðgjöf banka en á sama tíma að setja 50 m. kr. í sjálfsvígsforvarnir? Hvers vegna þykir eðlilegt að allir sem starfa í banka hafi viðskiptapróf úr háskóla á sama tíma og það þykir eðlilegt að 80% þeirra sem starfa á geðdeildum og stofnunum, þar sem fólk með geðrænan vanda dvelur, séu ófagmenntuð? Listinn er langur og honum þarf að breyta.
Landssamtökin Geðhjálp settu fram fyrir þremur árum lista yfir níu aðgerðir til þess að setja geðheilsu í forgang. Aðgerðirnar má m.a. sjá á heimasíðu verkefnisins: www.39. is. Yfir 30.000 íbúar landsins eldri en 18 ára skrifuðu síðan undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að þær yrðu settar á oddinn. Það er sorglegt til þess að líta að aðeins ein þeirra hefur komist til framkvæmdar; að koma á fót geðráði – breiðum hópi um geðheilbrigðismál, en það var einmitt sú aðgerð sem kostaði enga fjármuni. Það er ljóst að við munum glíma við afleiðingar faraldursins í mörg ár og þess samfélagslega faraldurs að geðheilsa barna en einnig fullorðinna fer hrakandi. Við þurfum að leiðrétta kúrsinn og sigla í rétta átt. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við og setja geðheilsu í algjöran forgang. Fimm af þessum níu aðgerðum skipta miklu máli þegar horft er til barna og ungmenna. Tökum höndum saman og setjum þessar aðgerðir í algjöran forgang:
Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar og fleiri stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Það þarf síðan að tryggja að þjónustan sé raunverulega í boði ólíkt því sem er í dag þar sem
biðlistar geta verið langir og þjónustan afar takmörkuð.
Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins. Foreldrar þurfa að geta verið með börnum sínum á þessum fyrstu árum. 50% foreldra sem eignast sitt fyrsta barn skilja áður en barnið verður tveggja ára. Atvinnulífið og samfélagið þurfa að taka höndum saman um að gefa börnum og foreldrum þeirra tækifæri í stað þess að horfa um of til þarfa atvinnulífsins.
Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu að viðbættum öðrum gagnreyndum aðferðum. Samþykktin er enn óútfærð nema að litlu leyti hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra
framkvæmdina.
Það er mikilvægt að aðgengi fólks, ekki síst barna og foreldra þeirra, að viðurkenndum samtalsmeðferðum verði tryggt. Í dag erum við með tvöfalt kerfi; lágmarksþjónustu sem er niðurgreidd og síðan fullt aðgengi fyrir þá sem geta greitt fyrir þjónustuna úr eigin vasa.
Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara til að miðla þessari fræðslu. Geðheilsa á að vera algjör lykilþáttur í skólastarfi.
Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra. Tölur um fjölgun ungs fólks á endurhæfingarörorku og örorku eru til marks um að við erum alls ekki að gera nóg til að fyrirbyggja þessa þróun. Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni.
Tökum höndum saman og snúum af þessari efnishyggjuleið sem færir okkur í átt til einstaklingshyggju á kostnað samfélags þar sem við styðjum og höldum utan um hvert annað. Hverfum frá geðheilsufjandsamlegu verðmætamati þar sem krónur fara í velferð barna en milljarðar í hagsmuni fárra. Setjum fókusinn fyrir ofan fossinn og drögum þannig úr óhamingju og vanda fjölmargra. Gerum þetta!
Heimildir:
1 Rannsóknir & greining 2022. Ungt fólk 2022.
2 Anna Lembke. Dópmínríkið.
3 Embætti landlæknis 2024. Mælaborð/lyfjanotkun. https://island.is/maelabord
4 Læknablaðið 2021. 5. tbl. 107. árg.
5 Læknablaðið 2021. 5. tbl. 107. Árg.
6 WHO 2021. Reports highlights global shortfall in investment in mental health. https://www.who.int/news/item/08-10-2021-who-report-highlights-global-shortfall-in-investment-in-mental-health
7 Tilvísunarnúmer WHO: WHO/2019-nCoV/Sci_Brief/Mental_health/2022.1
8 Geðheilsuvaktin 2021. Áfangaskýrsla 11.5.21.Bls. 6.