19. september 2025

Viðvörunarljósin blikka – tökum mark á þeim

Undanfarin ár hefur Geðhjálp tekið saman þá geðheilsuvísa sem haldið er utan um hér á landi. Þetta eru gögn eins og lyfjagagnagrunnur embættis Landlæknis, dánarmeinaskrá, gögn frá Rannsóknum og greiningu um líðan barna í skólum, aðrir lýðheilsuvísar, skýrslur og rannsóknir auk annarra tölfræðiupplýsinga og gagna sem tengjast geðheilbrigði á einn eða annan hátt. Þessir vísar hafa fært okkur vísbendingar um að geðheilsuvandi á Íslandi hafi farið nokkuð vaxandi sl. misseri og ár svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í þessari grein verður haldið áfram að horfa til geðheilsuvísa auk þess sem horft verður til Danmerkur til samanburðar.

Barna og fjölskyldustofa sendi í lok júní frá sér skýrslu um fjölda barnaverndartilkynninga á árunum 2022 til 2024. Vandinn við skýrslur sem gefnar eru út yfir hásumarið er að þær fá nær enga athygli í samfélagsumræðunni eða þingsal vegna sumarleyfa. Þannig var það einmitt með heimsóknarskýrslu Umboðsmanns Alþingis á tvö einkarekin úrræði fyrir börn, sem kom út í júlí 2024 og fékk litla umfjöllun þrátt fyrir hreint sláandi upplýsingar um hvernig farið er með börn á Íslandi. Sama var uppi á teningn um með skýrslu Ríkislögreglustjóra, sem kom út í lok júní það ár, en myndin sem þar var dregin upp af stöðu mála var dökk. Skýrslan fékk litla sem enga athygli þegar hún kom út.

Áhættuhegðun barna

Þegar skýrsla Barnaverndarstofu er skoðuð þá endurspeglar hún þau rauðu blikkandi ljós sem mátti greina í skýrslunum tveimur sem og í öðrum geðheilsuvísum sl. áratug. Vanlíðan, ofbeldi og geðlyfjanotkun barna hefur aukist verulega á örfáum árum. Hér verður fjallað um þann hluta skýrslunnar sem fjallar um áhættuhegðun barna.

Árið 2022 bárust barnaverndarnefndum landsins 3.942 tilkynningar sem flokkaðar voru sem áhættuhegðun barna. Árið 2023 voru þær 4.931 og í fyrra voru tilkynningarnar 5.648.

Tilkynningum um áhættuhegðun barna fjölgaði því samtals um 43% á tímabilinu, 41% hjá drengjum og 47% hjá stúlkum. Það eru nokkrir undirflokkar í áhættuhegðun barna en þrír eru skoðaðir nánar hér: áfengis og vímuefnaneysla, afbrot og barn beitir ofbeldi. Áfengis og vímuefnaneysla barna hefur aukist sl. ár og íslenska leiðin í forvörnum, sem við höfum ferðast með og kynnt út um allan heim sl. tvo áratugi, virðist hafa verið siglt í strand eða er hreinlega sokkin. Tölurnar í skýrslu Barnaverndarstofu sýna það svart á hvítu. Tilkynningum um áfengis og vímuefnaneyslu barna fjölgaði um 72% og fjölgaði um 57% hjá drengjum og 93% hjá stúlkum. Afbrota og ofbeldistilkynningum fjölgaði um 35% til 47% og var aukningin mest hjá stúlkum.

Fjármálaáætlun og geðheilbrigðismál

Það verður að segjast eins og er að á tímum farsældar og fagurgala um að sérstök áhersla sé á málefnum barna og geðheilbrigði eru þessar niðurstöður beinlínis afhjúpun þeirrar staðreyndar að keisarinn er klæðalítill ef ekki klæðalaus. Ástandið á Stuðlum, vistun barna í fangaklefum, brottfall barna úr skólum, skýrslurnar sem vitnað var til frá árinu 2024 o.m.fl. staðfesta þetta klæðaleysi.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar má lesa eftirfarandi fyrirheit í tengslum við geðheilbrigðismál og börn:

  • Þá er áhersla lögð á að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og efla meðferðarúrræði vegna fíknivanda.
  • Sérstaklega skal efla aðgengi barna og ungmenna að íþróttum, listum og frístundastarfi.
  • Ríkistjórnin setur málefni barna og ungmenna í öndvegi og hefur boðað sókn í menntamálum með áherslu á bætt umhverfi nemenda og kennara, íslenskukennslu, læsi og aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum, stuðning við menntakerfið, inngildingu, snemmtæka íhlutun, sí- og endurmenntun og raunfærnimat.
  • Forvarnir verða efldar til að bæta heilsu og unnið verður að því að draga skipulega úr skriffinnsku í heilbrigðis- og velferðarkerfinu og hagnýta betur tæknilausnir og nýsköpun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála til hagsbóta fyrir landsmenn alla óháð búsetu.

Hvað varðar að efla aðgengi barna og ung menna að íþróttum, listum og frístunda starfi þá er í sömu fjármálaáætlun dregið úr framlögum til málaflokksins um 3,5 ma.kr. á tímabilinu. Sóknin í málefnum barna og áherslan á bætt umhverfi þeirra er verðlögð með sparnaði upp á 1,5 ma.kr. Það á einnig að efla forvarnir með því að draga úr framlögum til mála flokksins um 700 m.kr. á tímabilinu. Það segir sig sjálft að aðgengi verður ekki aukið, umhverfi barna verður ekki bætt og forvarnir ekki efldar með tæplega 10% niðurskurði fjármagns. Framlög í forvarnir, lýðheilsu og umhverfi barna í grunnskólum eru skorin niður um samtals 5,7 ma.kr. Á sama tíma er gert ráð fyrir 11 ma.kr. innspýtingu til öryggis og varnarmála og þingmenn litu á það sem heilaga skyldu sína að eyða hálfu sumrinu í varðstöðu um óbreytt veiðigjöld. Börn eru ekki öryggis og varnarmál eða veiði gjöld en það væri æskilegt að velferð þeirra og geðheilbrigðismál almennt fengju sambærilega athygli innan löggjafans og framkvæmdavaldsins. Viðvörunarljósin blikka – við því verður að bregðast.

Geðheilbrigði í Danmörku og aðgerðir stjórnvalda

Í maí sl. kynnti ríkisstjórn Danmerkur og allir flokkar á danska þinginu sameiginlega full fjármagnaða 10 ára áætlun í geðheil brigðismálum. Áætlunin er niðurstaða ítarlegrar greiningarvinnu á öllu kerfinu og þjónustu við alla aldurshópa á öllum stjórn sýslustigum. Ólíkt íslenskum aðgerðar áætlunum í geðheilbrigðismálum, sem Alþingi samþykkir reglulega hvar aðeins 10% aðgerða eru fjármagnaðar, fylgir fjármagn þessari dönsku áætlun. Framlög til geðheilbrigðismála í Danmörku munu aukast árlega um 19,2 milljarða eða um 35%. Í ár gera Danir ráð fyrir að setja 278 milljarða í málaflokkinn, sem heimfært á fólksfjölda á Íslandi, er rétt um 19 milljarðar. Til samanburðar sýna tölur fengnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar 2022 að áætla má að framlög til geðheilbrigðismála verði um 12,7 milljarðar á Íslandi í ár. Þetta þýðir að í ár eru framlög til málaflokksins 50% hærri í Danmörku en hér og verða 79% hærri árið 2030 ef Ísland heldur áfram að hækka framlög til málaflokksins aðeins um hluta hækkunar vísitölu neysluverðs. Miðað við smæð Íslands ættu framlög til geðheilbrigðismála í rauninni að vera 15% hærri en í Danmörku þar sem stærðarhagkvæmnin er okkur ekki í hag.

Áhersluatriði áætlunarinnar – einhverfu og ADHDmiðstöðvar

Það er vert að hafa það í huga að gríðarlegar endurbætur á húsnæði geðheilbrigðiskerfisins hafa staðið yfir sl. áratug í Danmörku á landsvísu og hafa þannig á annan tug nýrra geðdeilda verið opnaðar og gömlum úreltum deildum verið lokað. Einnig hefur húsnæði nærþjónustunnar verið endurbætt. Þessar miklu fjárfestingar eru fyrir utan þær tölur sem áður var vitnað til. Auðvitað er húsnæði ekki það mikilvægasta þegar kemur að geðmeðferð, heldur innihald meðferðarinnar, en gott umhverfi getur haft talsvert að segja og þetta skiptir því verulegu máli. Á Íslandi hafa bæði endurbætur húsnæðis og innleiðing nýrra meðferða verið sett neðarlega á forgangslista.

Í dönsku áætluninni er sérstök áhersla á börn og ungmenni þar sem tilgreindar aðgerðir eru fjölmargar. Áherslan er á fyrirbyggjandi úrræði og snemmtæka íhlutun í nærsamfélaginu. Meðal þeirra atriða sem sérstaklega er gefinn gaumur eru: Aðgengileg meðferðarúrræði í nærsamfélagi barna án innlagnar, fjölgun og styrking lágþröskuldaúrræða eins og „headspace“ fyrir börn, stórauka á stuðning við foreldra og forráðamenn og auka stuðning innan skólakerfisins á öllum skólastigum.

Á Íslandi hefur mikið verið fjallað um stöðu einstaklinga með taugaþroskaraskanir innan geðheilbrigðiskerfisins og þá sérstaklega einstaklinga með einhverfugreiningar. Þjónusta við þennan hóp hefur verið lítil sem engin og sveitarfélögin og ríkið hafa því miður látið deilur um kostnaðarskiptingu koma niður á þjónustu við þennan hóp. Einstaklingum með einhverfugreiningu hefur þannig beinlínis vegna greiningarinnar verið vísað frá geðdeildum og geðheilsuteymum vegna fötlunar en frá félagsþjónustu vegna geðræns vanda. Í dönsku áætluninni er gert ráð fyrir stór átaki innan geð-heilbrigðiskerfisins fyrir þennan hóp og hann tekinn sérstaklega út fyrir sviga. Opnaðar verða nýjar geðheilsu miðstöðvar sem sérhæfa sig í meðferð einhverfra og einstaklinga með ADHD greiningar.

Hlustum á það sem einkennin eru að segja okkur

Það sem kemur fram í áðurnefndum þremur skýrslum um stöðu barna á Íslandi er dæmi um einkenni ákveðins ástands. Orsakirnar liggja víða en einkennin beinlínis öskra á að brugðist verði við án tafar. Við höfum hingað til forgangsraðað skakkt og ef settir hafa verið fjármunir í geðheilbrigðiskerfið þá hefur það að nær öllu leyti farið í aðgerðir til höfuðs einkennum en ekki orsökum ástandsins. Við höfum vanfjármagnað geðheilbrigðiskerfið um langt árabil og afleiðingar þess eru bæði alvarlegar og þjóðhagslega kostnaðarsamar. Stjórnvöld gáfu það út fyrir nokkrum árum að kostna ður samfélagsins vegna áfalla barna í æsku væri um 100 ma.kr. árlega. Við getum ekki lengur „reddað“ okkur frá þessum vanda með viku þjóðarátaki gegn vímuefnum, stólað á frjáls félagasamtök eða sópað vandanum undir teppið með því t.d. að senda börn á einkareknar stofnanir sem fá falleinkunn þá sjaldan eftirliti er sinnt. Með því erum við í besta falli að fresta vanda en líklegar að auka hann verulega með tilheyrandi harmi og gríðarlegu fjárhagslegu tjóni fyrir samfélagið. Förum því frekar fyrir ofan fossinn, að orsökum ástandsins, í stað þess að halda áfram á þessari leið. Einbeitum okkur að orsökunum – við gætum t.d. byrjað á þessu:

  • Setjumst niður og gerum sáttmála um það að leiðrétta innviðaskuld okkar við börn og velferðarkerfið almennt.
  • Styðjum verðandi foreldra og fræðum alla meðgönguna. Styðjum þau áfram eftir fæðingu barns.
  • Gerum foreldrum efnahagslega kleift að vera með barni sínu fyrstu tvö ár ævi þess.
  • Afstofnanavæðum æskuna og setjum þarfir fjölskyldna í stað atvinnulífsins í öndvegi.
  • Stokkum upp öll skólastig barna og ungmenna með áherslu á þarfir barna og þroska.
  • Endurskoðum hlutverk skóla, færum ábyrgð á uppeldi aftur til foreldra og drögum þannig úr útvistun æskunnar og uppeldis barna.
  • Hverfum frá sjónarmiðum einstaklingshyggju þegar kemur að búsetu og setjum áherslu á samveru með t.d. kynslóðabúsetukostum.
  • Stokkum upp í félags- og heilbrigðis kerfinu þannig að batamiðuðum úrræðum fjölgi en óskilvirkar og einkenna miðaðar lausnir verði lagðar á hilluna.
  • Endurskoðum verðmætamat samfélagsins og áttum okkur á því að hagvöxtur er vondur mælikvarði á velgengni okkar.
  • Gerum nýja fjármálaáætlun þar sem það verður heilög skylda okkar að vernda börn.

Grímur Atlason,
framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram