Almennt er viðurkennt að valdefling, eða það að upplifa sig við stjórnvölinn í eigin lífi, sé einn af lykilþáttum þess að fólk nái bata af andlegum áskorunum. Erlendis hefur margt verið ritað um hefðbundinn valdastrúktúr og vinnulag geðheilbrigðiskerfisins sem byggist á fastmótuðum starfsaðferðum þar sem einstaklingurinn sjálfur er valdalítill og gert að tileinka sér hlutverk „sjúklings“.
Hvernig er hægt að búast við að fólk skynji valdeflingu og nái bata þegar það mætir þjónustu hins hefðbundna geðheilbrigðiskerfis sem byggist á valdamisvægi? Meistaraverkefni Svövu Arnardóttur formanns Geðhjálpar í fötlunarfræði við Háskóla Íslands haustið 2024 var ætlað að veita innsýn í það hvað varð til þess að viðmælendur náðu bata af andlegum áskorunum, hvaða þátt íslensk geðheilbrigðisþjónusta lék og birtingarmyndir valds.
Þátttakendur voru átta, fjórar konur, fjórir karlar, sem öll höfðu náð bata. Ákveðið var að óska einungis eftir þátttakendum sem höfðu ekki verið svipt sjálfræði eða nauðungarvistuð til að hljóta geðheilbrigðisþjónustu. Ástæðan var sú að í þau fáu skipti sem talað er um völd innan geðheilbrigðiskerfisins er umfjöllunin afmörkuð við valdbeitingu og sjálfræðis sviptingu sem skilgreind er í núverandi lögum. Eftirfarandi úrtak væri til þess fallið að skapa umfjöllun um óljósari birtingarmyndir valds innan geðheilbrigðisþjónustu og áhrif þess á upplifun einstaklinga af bata.
Gagnaöflun fór fram í gegnum bæði einstaklingsviðtöl og rýnihóp. Ég fékk einnig með mér tvo með rannsakendur með persónulega reynslu af málefninu sem veittu mér endurgjöf varðandi áherslur, spurningar og greiningu gagnanna. Niðurstöður leiddu í ljós ólíkar skilgreiningar þátttakenda á bata í takt við lífsreynslu þeirra, gildi, umhverfi og þau tækifæri sem þeim bauðst til að hlúa að geðheilsu sinni.
Þó bata skilgreiningarnar væru ólíkar nefndu þau nær öll atriði á borð við betri líðan, aukna samfélagsþátttöku, von um betri framtíð og að mæta kröfum umhverfisins. Viðmælendur lýstu batahvetjandi skrefum svo sem að eiga í gefandi samskiptum, leggja rækt við drauma sína, endurskilgreina rót vandans og öðlast nýja færni. Þessi atriði fela í sér samfélagslega þátttöku á forsendum einstaklingsins en mann eskjan þarf ekki að vera laus við allt sem amaði að.
Að taka ábyrgð á eigin lífi var lykilþáttur í bataferlinu. Upphaflega þráðu mörg að fagaðilinn gæti leyst vanlíðan þeirra. Þau fóru í einstaklingsviðtöl hjá geðlækni, sálfræðingi, geðhjúkrunarfræðingi, iðjuþjálfa eða öðrum fagaðila og vonuðust eftir að sökum menntunar sinnar myndi fagaðilinn hafa töfralausn á vandanum. Þau reyndu langflest að nýta sér þessa hefðbundnu leið sem fól í sér bið eftir stöku viðtali á forsendum fagaðilans og bið eftir að finna árangur inn gripanna. Sum sögðust þá hafa tapað færn inni til að taka eigin ákvarðanir.
Önnur höfðu djúpstæða þörf fyrir að stýra eigin lífi en geðheilbrigðiskerfið gaf þeim sjaldnast færi á því og þá tóku gjarnan við tilraunir til að sanna sig, færa rök og semja um einhvers konar málamiðlun (sjá mynd 1: “Niðurstöður völd sem áhrifaþáttur í bata”). Seinna meir fóru einstaklingarnir gjarnan að skilja orsakir vanlíðunar sinnar út frá öðrum sjónarhornum og fundu sínar persónubundnu leiðir til að ná bata á eigin forsendum.
Vald geðheilbrigðiskerfisins birtist í upp byggingu þess, stöðluðu vinnulagi og læknisfræðilegri sýn. Þar má nefna forræðishyggju, niðurnjörvað hlutverk sjúklinga og greiningar, geðlyf og ójafna dreifingu valds milli ólíkra aðila.
Áður en viðmælendur leituðu sér aðstoðar voru þau almennt jákvæð og vongóð um þá geðheilbrigðisþjónustu sem væri í boði á Íslandi. Þegar á hólminn var komið skiptist upplifun þeirra í tvennt eftir því hvort þau fengu innlögn á geðdeild eða var vísað burt. Þau sem var vísað burt upplifðu höfnun, enduðu á löngum biðlistum eða virtust einfaldlega týnast í kerfinu.
Þau sem lögðust inn á geðdeild upplifðu dvölina og hjálpina öðruvísi en þau höfðu reiknað með (sjá mynd 2: “Ferlið að leita sér hjálpar vegna vanlíðunar”). Reynsla viðmælenda af valdi geðheilbrigðiskerfisins hafði neikvæð áhrif á líðan þeirra og í sumum tilvikum varð það einnig enn eitt áfallið til að vinna úr á leið til bata. Einnig ríkti ákveðin togstreita milli þess að þurfa á tímabundinni þjónustu að halda en verða líka að afsala sér völdum og stjórn á eigin lífi.
Bati af andlegum áskorunum er mögulegur. Hinir átta viðmælendur þessarar rannsóknar eru birtingarmynd þess. Með því að varpa ljósi á reynslu einstaklinga af valdi og bata af andlegum áskorunum fæst mikilvægur þekkingargrunnur sem hægt er að vísa til og nota í mannréttindabaráttu innan mála flokksins. Vonandi verður byggt á þessum grunni og geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi að löguð þannig að hún mæti enn frekar þörf einstaklinga til að ráða sjálfir för í lífi sínu og stuðla vonandi með því móti að því að fleira fólk nái bata.
Eitt af lykilatriðum þess að ná bata er valdefling eða það að vera við stjórnvöl í eigin lífi. Geðheilbrigðiskerfið byggist hins vegar á læknisfræðilegri sýn þar sem fagaðilum eru veitt aukin völd á kostnað einstaklinganna sem leita eftir þjónustunni. Töluvert valdaójafnvægi ríkir því milli fagaðila og einstaklinganna sjálfra. Það birtist meðal annars í nauðungarmeðferð, beinum og óbeinum þvingunum, skorti á upplýsingum og takmarkaðri frjálsri ákvarðana töku. Leiða má líkur að því að batamiðuð hugmyndafræði sem felur í sér valdeflingu einstaklinga og samstarf fagaðila og einstaklinga á jafningjagrundvelli sé vænlegri kostur.
Raunverulega batahvetjandi geðheilbrigðisþjónusta rúmar fjölmarga val möguleika, nægan tíma til sjálfsvinnu, einstaklingsbundna og heildræna nálgun þar sem unnið er með ólíka þætti í samspili við umhverfi og menningu. Slík geðheilbrigðisþjónusta væri mun vænlegri kostur en núverandi þjónusta svo að fleiri nái bata. Fjöldi valmöguleika býðst til að jafna valdahlutföllin milli fagaðila og einstaklinga en notkun þeirra krefst talsverðrar hugarfarsbreytingar. Upphaf þessa er að horfa gagnrýnum augum á núverandi kerfi og leyfa okkur að skora viðteknar venjur og ríkjandi menningu á hólm í geðheilbrigðiskerfinu.
Áhugasömum er bent á að hægt er að lesa ritgerðina í heild sinni á skemman.is (https://skemman.is/handle/1946/48565). Bestu þakkir til Snæfríðar Þóru Egilson leiðbeinanda míns og prófessors í fötlunarfræði, viðmælendanna átta og meðrannsakendanna tveggja.
HEIMILDIR:
Hickey, J. E., Pryjmachuk, S. og Waterman, H. (2017). Exploring personal recovery in mental illness through an Arabic sociocultural lens. Journal of Psychiatric and Mental Health Nursing, 24(2–3), 163–170. doi:10.1111/jpm.12342
Leamy, M., Bird, V., Le Boutillier, C., Williams, J. og Slade, M. (2011). Conceptual framework for personal recovery in mental health: Systematic review and narrative synthesis. The British Journal of Psychiatry, 199(6), 445–452. doi: 10.1192/bjp.bp.110.083733
Watson, S., Thorburn, K., Everett, M. og Fisher, K. R. (2014). Care without coercion: Mental health rights, personal recovery and trauma informed care. Australian Journal of Social Issues, 49(4), 529–549. doi:10.1002/j.1839-4655.2014.tb00327.x